Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Er vitað um sambærilega atburði og Tyrkjaránið annars staðar í N-Evrópu?
Tyrkjaránið á Íslandi 1627 var einstakur atburður í afmarkaðri sögu landsins en hann var ekki einstæður í heimssögunni. Slík strandhögg voru alvanaleg í nokkrar aldir við Miðjarðarhafið. Segja má að átök Miðjarðarhafsins milli kristinna landa norðurstrandanna og íslamskra borga Norður-Afríku hafi „lekið“ út á Atlantshafið í byrjun 17. aldar. Sjómenn voru teknir á hafi úti en strandhögg af gerð Tyrkjaránsins á Íslandi voru þó sjaldgæf. Tvö dæmi eru viðamest, auk ránsins á Íslandi. Þau gerðust öll á skömmu tímabili, í Færeyjum 1629 og í Baltimore á Írlandi 1631. Þetta voru tímar Þrjátíu ára stríðsins í Evrópu og óöld ríkti oft á höfunum.
Sjórán voru algeng í Færeyjum, einkum af hendi Englendinga. Sumarið 1629 birtust hins vegar „tyrknesk“ skip við byggðina Hvalba á Suðurey og tókst ránsmönnum að hertaka um 30 manns, einkum konur og börn. Sögur fara af því að skipin hafi verið tvö (eða þrjú) og hafi annað þeirra brotnað við ströndina. Aðrar sögur segja að ránsmenn hafi haldið áfram og að næstu byggðarlögum en mætt bæði galdrakonunni Marjun Lavarsdóttur og ofurmenninu Mikkjal í Húsi og farið tómhentir úr þessum leiðangri.
Hvalba á Suðurey, Færeyjum. Hérna var Tyrkjarán framið sumarið 1629.
Fátt er um samtímaheimildir um þessa atburði. Konungsbréf er varðveitt þar sem hvatt er til aðgerða vegna ránsins til að endurheimta íbúana úr sálarháska hjá Tyrkjum. Vitað er að undirtektir voru litlar þar sem því var svarað til að vegna fátæktar og ógæfta væru engir aflögufærir um lausnarfé.
Þó að samtímaheimildir séu fáar er nokkuð til af örnefnum og þjóðsögum sem tengjast ráninu. Sumar sögurnar segja frá björgun, göldrum og hetjudáðum en aðrar lýsa ósigri og uppgjöf. Í fjörunni í Hvalba finnast enn rauðir, grænir og hvítflekkóttir steinar sem kallast tyrkjasteinar og eru taldir vera kjölfesta úr Tyrkjaskipi.
Fjórum árum eftir Tyrkjaránið á Íslandi – og tveim árum eftir samsvarandi rán í Færeyjum – birtust tvö Tyrkjaskip siglandi á hafinu milli Írlands og Englands sautjánda dag júnímánaðar. Þau voru undir stjórn „skipstjóra nokkurs sem nefndist Mathew Rice og var hollenskur trúskiptingur“. Á leið sinni tóku skipsmenn tvo báta ásamt áhöfnum, þar á meðal John nokkurn Hackett sem þeir vildu láta vísa sér á bæinn Kinsale. Hann kvað hann of áhættusaman vegna virkis og konungsskips sem þar væri og beindi þeim því að þorpinu Baltimore sem var í nokkra mílna fjarlægð frá Kinsale. Korsurum gafst færi á að undirbúa árásina vel, kusu afmarkaðan hluta þorpsins sem kallaðist Cove og reru þangað á bátum í skjóli nætur. Þeir skiptu 26 húsum á milli sín og stóðu þar samtímis með kúbein til að brjóta upp hurðir og kyndla til að kveikja í húsunum. Úr húsunum drógu þeir um hundrað manns en annar hópur, undir forystu Mathews Rice, lagði til atlögu við hinn hluta þorpsins. Þeim hafði tekist að handsama um tíu manns þegar einn íbúanna vaknaði við hávaðann og hóf að skjóta úr byssu sinni, vakti við það nágranna sem barði bumbur til viðvörunar. Við það hörfuðu korsarar og héldu á brott með feng sinn, sennilega 109 fanga en höfðu lagt tvo að velli, slepptu síðan tveim föngum en tóku 40-50 á öðrum stöðum.
Þegar korsarar höfðu undið upp segl hófust bréfaskriftir og orðsendingar milli ráðamanna í Kinsale um að búa skip hið snarasta til að elta korsara. Konungsskip voru hins vegar vanbúin vegna langvarandi vanrækslu og skipulagsleysis og tók fjóra daga að búa þau af stað enda fóru þau sneypuför.
Það flækir enn málið að hertekna fólkið í Baltimore á Írlandi var ekki Írar heldur enskir landnemar sem búið höfðu þar í tæplega þrjá áratugi. Þeir voru mótmælendur en undu illa enskri ríkiskirkju og stóðu kalvínismanum nær. Foringi þeirra, Thomas Crooke, hafði fundið þennan stað sem var í eigu gelísks höfðingja, Sir Fineen O‘Driscoll sem kominn var á vonarvöl, og tók landið á leigu til langs tíma. Atvinnulífið gekk vel hjá landnemunum í Baltimore en óveðursskýin tóku þó snemma að hrannast upp. Leiðtogi þeirra lést 1630, írskir höfðingjasinnar ömuðust við byggðinni og konungsvaldið var tvíbent í afstöðu til fríþenkjandi íbúanna sem einnig höfðu orðið á köflum uppvísir að viðskiptum við sjóræningja. Yfir Baltimore gein ennfremur skeytingarlaus kaupsýslumaður, Sir Walter Coppinger, sem stefndi að því að koma ensku landnemunum út. Honum tókst með ýmsum brögðum að koma á samningi sem tryggði honum eignarhald á landi Baltimore þegar samningurinn við Enlendingana rynni út, árið 1631. Þegar korsarar birtust það sumar voru deilur um rétt íbúanna fyrir dómstólum þar sem þeir höfðu lagt í mikinn kostnað við uppbyggingu staðarins.
Það sem korsarar gerðu 20. júní árið 1631 var landeigandanum Coppinger í hag. Það var einnig sæt hefnd forystumanna af ættinni O‘Driscoll sem voru í útlegð á Spáni. Af þessum ástæðum hafa lengi verið á kreiki samsæriskenningar um að þessir aðilar hafi att korsurum á Baltimore.
Karl fyrsti konungur brást hart við þegar fréttist af örlögum ensku landnemanna í Baltimore og hann krafðist aðgerða af hendi ríkisráðsins (e. Privy Council). Gengu ásakanir á milli en nokkuð var gert til að koma lagi á varnarskip sem áttu að gæta Írlands. Þetta var þó fullseint og föngunum í Algeirsborg var ekki sinnt þrátt fyrir beiðnir frá ættingjum. Stefna konungsvaldsins var lengst af sú að greiða ekki lausnargjald til korsara. Auk þess var ólga í enskum stjórnmálum sem kostaði borgarastyrjöld og valdatöku Cromwells. Á hans dögum var farinn leiðangur til Algeirsborgar til útlausnar fanga en þá var of langt um liðið til að fórnarlömbum árásarinnar á Baltimore yrði bjargað. Þó er talið að tvær eða þrjár konur hafi verið leystar út eftir ránið.
Karl fyrsti konungur brást hart við þegar hann frétti af Tyrkjaráninu í Baltimore þó að minna yrði úr framkvæmdum og konungsvaldið keypti engum manni frelsi.
Frumheimildir um ránið í Baltimore eru einkum embættisbréfið, með lýsingu á atburðarásinni, sem skrifað var þrem dögum eftir rán og áður er nefnt. Ennfremur eru fleiri opinber bréf og orðsendingar og stutt frásögn af komu fanganna til Algeirsborgar sem þrenningarbróðurinn Pierre Dan varð vitni að. Fræðimanninum Henry Barnby, sem rannsakað hefur ránið, finnst þetta heldur fáorðar heimildir þó að hann reyni að fá sem mest út úr opinberu bréfunum:
En engum samtímahöfundi fannst ómaksins vert að koma út kvæði eða bæklingi um efnið. Enginn þeirra sem slapp við herleiðingu nóttina þá í Baltimore skráði frásögn af reynslu sinni; og ef einhver hinna herleiddu sendi heim lýsingu á þjáningum sínum í prísundinni hafa slíkar minningamenjar horfið sporlaust.
Árið 1844 varð til frásagnarheimild um Baltimore-ránið með því að skáldið og þjóðernisbaráttumaðurinn Thomas Osborne Davis, samtímamaður Jónasar Hallgrímssonar, orti og birti kvæðið „The Sack of Baltimore“. Þetta er áhrifamikið ljóð en í því er grundvallaratriðum snúið við með því að íbúarnir eru írskir og kynnt er til sögunnar stúlka sem gefin er borgarhöfðingjanum í Algeirsborg. Hún stingur mann sinn og kvalara til bana og er fyrir það brennd á báli með bros á vör þar sem hún hugsar einungis til Baltimore. Hún er ekki enskur landnemi í kvæðinu heldur af ætt O‘Droscoll: „She only smiled – O‘Driscoll‘s child – she thought of Baltimore.“ Þannig varð til menningarminni um ránið í Baltimore sem ekki á sér stoð í frumheimildum.
Ránin á Íslandi, í Færeyjum og á Írlandi voru framin með stuttu millibili og eru í heimildum kennd við Tyrki svo að líklegt þykir að sömu eða sambærilegir hópar hafi staðið að baki þeim. Í ráninu á Írlandi er foringi ránsmanna nefndur Mathew Rice sem lítur út eins og ensk umskrift á nafni Múrats Reis. Ekki er foringja getið í færeyska Tyrkjaráninu og er það því ósönnuð ágiskun að sami foringi og hópur hafi verið þar að verki. Minnt skal á það að tveir hópar voru að verki á Íslandi og aðeins annar, sá minni, var undir beinni stjórn Múrats Reis.
Þó að nokkrar heimildir séu til um Tyrkjaránin í Færeyjum og í Baltimore á Írlandi eru þær miklu minni umfangs en um ránið á Íslandi. Staða atburðanna í þjóðminningu landanna er einnig gjörólík. Um það vitnar grunnskólakennslukonan Nuala Ni Bhriain í Baltimore sem tekin var tali í sjónvarpsmynd árið 2002.
Ég er fædd og uppalin í Dublin og vissi ekkert um þennan viðburð fyrr en ég kom hingað. Það vildi svo til að fyrsti barinn sem ég kom á hét „Algeirska kráin“ og þar sá ég veggspjald um þetta og ég spurðist svolítið fyrir. Sagnaritarinn hér á staðnum, Alfie O‘Mahony, hafði skrifað bók um ránið í Baltimore og þannig kynntist ég þessu. Það er hvergi í sögubókunum, líklega vegna þess að svo margar innrásir voru gerðar í þetta land – víkingar, Normannar, Englendingar – á ýmsum tímum. Þetta snerti svo sem bara þennan eina litla bæ, Baltimore.
Til glöggvunar eru nokkrir þættir í Tyrkjaránunum þrem settir hér á skipulegan hátt upp í töflu:
Heimildir:
Barnby, Henry, „The Sack of Baltimore“, Journal of the Cork Historical and Archæological Society 74:2 (1969), bls. 101-29.
Des Ekin, The Stolen Village. Baltimore and the Barbary Pirates (Dublin: O'Brien Press 2006).
Hversu mörgum var rænt á Íslandi í Tyrkjaráninu, hversu margir snéru til baka og hver var heildarmannfjöldi á Íslandi Tyrkjaráns árið? Er vitað um sambærilega atburði annars staðar í N-Evrópu?
Þorsteinn Helgason. „Voru Tyrkjarán framin í öðrum löndum?“ Vísindavefurinn, 9. maí 2014, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=66655.
Þorsteinn Helgason. (2014, 9. maí). Voru Tyrkjarán framin í öðrum löndum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=66655
Þorsteinn Helgason. „Voru Tyrkjarán framin í öðrum löndum?“ Vísindavefurinn. 9. maí. 2014. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=66655>.