Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða áhrif hafði Jónas Hallgrímsson á íslenska tungu og hvað gerði hann til að vernda hana?

Guðrún Kvaran

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun
Ekki þarf að fara mörgum orðum um Jónas Hallgrímsson og kveðskap hans. Jónas hefur í hátt á aðra öld verið eitt af ástsælustu skáldum þjóðarinnar. Sést það best af því að á þessu ári keppast menn við að minnast þess að 200 ár eru liðin frá fæðingu hans og verður honum sýndur margvíslegur sómi.

Enn er ekki farið að fyrnast yfir hann eins og mörg eldri skáldanna sem þó ortu fögur og stórbrotin ljóð. Vitnað er óspart til hans í tækifærisræðum, kórar og einsöngvarar syngja ljóðin hans og ósjaldan rifja menn upp hendingar eða kvæðisbrot á ferð um landið þegar við á.

Fáir gera sér grein fyrir því hversu góður orðasmiður Jónas var og enn færri minnast þess að Jónas skrifaði fleira en ljóð. Hann var afbragðs þýðandi og skrifaði einnig töluvert um sitt fræðasvið, náttúrufræðina. Virðing hans fyrir tungumálinu, málkennd hans og næmi fyrir blæbrigðum tungunnar gerðu honum kleift að tjá hugsanir sínar og annarra í þannig búning að nýyrði yfir hluti eða hugmyndir, sem áður áttu sér ekki samsvaranir á íslensku, og ný orð og nýjar samsetningar í ljóðum og lausu máli virðast gamalkunn og eins og hluti af grunnorðaforða málsins.

Hér verða aðeins sýnd nokkur dæmi um nýyrðasmíð Jónasar og stuðst við ritmálsskrá Orðabókar Háskólans. Annars vegar verða dæmi sótt í ljóðin en hins vegar í þýðingu hans á bók um stjörnufræði sem stjörnufræðingurinn Georg Frederik Ursin skrifaði handa alþýðu og gefin var út í Viðeyjarklaustri 1842 í þýðingu Jónasar.

Eitt af þekktustu kvæðum Jónasar er Gunnarshólmi. Þar er mörg orð að finna sem Jónas virðist hafa búið til. Þau falla svo vel að efni kvæðisins, eru svo lýsandi að lesandinn sér landið fyrir sér eins og opna bók. Hann sér fagurtæra lind himinblámans, byggðabýlin smáu, spegilskyggnd hrafntinnuþök og sælan sveitarblóma. Hann horfir í huganum á klógula ernina, sem hlakka yfir veiðinni, stendur á hlaðinu í rausnargarði og heyrir öldufallaeiminn frá ströndinni, hlustar á hafganginn við Eyjasand og sér fyrir sér borðfagra skeið (skip) sem bíður þeirra Gunnars og Kolskeggs. Á ferð eru skeiðfráir jóar (hestar) á leið með húsbændur sína til skips.

Í kvæðinu Ísland ávarpar Jónas landið sem hrímhvíta móður og talar um landnámsmenn sem frjálsræðishetjur. Í Vísum Íslendinga er sungið um gleðina sem skín af vonarhýrri brá, guðaveigarnar lífga sálarylinn og hátíðsdaginn köllum við í kvæðinu vonarstund. Aðra sýn fær lesandinn í ljóðinu Móðurást. Þar sér Jónas fyrir sér frostkaldan melinn þar sem móðir er á ferð með barn sitt um heldimma nótt, gefst upp fyrir veðurofsanum og finnst undir snjóhvítri fannblæju. Þarna býr Jónas til orð sem lýsa vel erfiðri ferð í íslenskum vetri þannig að lesandinn nemur vel kuldann og éljaganginn og getur samsamað sig móðurinni með barnið.

Jónas bjó til ótalmörg önnur orð til að ná fram þeim lýsingum sem hann stefndi að. Hann talaði um mundhvítar snótir og himinblá hnjúkafjöll, hafbláa öldu og himinskin, ástfagran svip og ástfagran hljóm, guðfagra sól og elfar ísbláar. Það eru einmitt nýju orðin, sem Jónas bjó til, sem gera það að verkum að ljóðin hans eru flestum auðskilin, þau skýra sig sjálf og orðin gæða myndirnar lífi. Orðasmíðin var mjög í anda samtímans. Vanda skyldi málið og leggja rækt við að tjá sig í hvívetna a góðu máli. Ein helsta fyrirmynd Jónasar að málsmekk var kennari hans í Bessastaðaskóla, Sveinbjörn Egilsson, sem var nemendum fyrirmynd í að velja orð í texta í samræmi við vandað lifandi mál í landinu.

Jónas lagði aðallega stund á náttúrufræði á námsárum sínum í Kaupmannahöfn. Það kemur því ekki á óvart að hann skuli hafa valið að þýða danska bók um stjörnufræði handa almenningi og laga hana að íslenskum þörfum. Lítið hafði áður verið skrifað á þessu sviði á íslensku og því mikil þörf á nýjum fræðiorðum á íslensku ef halda ætti í heiðri stefnu Fjölnismanna um vandað íslenskt mál. Jónasi var því vandi á höndum en einmitt þessi þýðing sýnir vel hversu góða tilfinningu hann hafði fyrir máli og stíl, myndun nýyrða og aðlögun þeirra að málkerfinu. Vissulega voru mörg orðanna í Stjörnufræðinni tökuþýðingar, það er erlenda orðið var þýtt yfir á íslensku, en þeim getur verið vandi á höndum sem vilja búa til svo góða tökuþýðingu að erlenda orðið skíni ekki í gegn. Hér verða aðeins nefnd fáein dæmi um nýyrðasmíð Jónasar í Stjörnufræðinni en um frekari lestur er bent á grein Bjarna Vilhjálmssonar (1944/1985).

Orðið aðdráttarafl (þá uppgøtvadi hann [þ.e. Newton] hid almenna þíngdarafl, edur addráttarablid (215)) er eitt þeirra sem Jónas notaði í Stjörnufræðinni og er nú hluti af almennum orðaforða. Áður höfðu verið lögð til orðin dráttarkraftur og aðdráttarkraftur en hvorugt þeirra náði festu.

Annað nýyrði, sem nefna mætti, er sporbaugur (Braut hans [þ.e. Merkúríusar] er sporbaugur (Ellipse) þ.e. aflángur hríngur; og slíka braut eiga sjer allar jardstjørnur (19)) en engin tilraun eldri er þekkt til að búa til íslenskt orð yfir danska orðið ‘ellipse’.

Enn eitt nýyrði Jónasar er fjaðurmagnaður fyrir ‘elastisk’ (Lopthaf jardarinnar er loptblendíngur, og fjadurmagnad (elastisk) (177)), en önnur orð sem flestir þekkja eru ljósvaki fyrir ‘æther’ (higgja menn ad ljósvaki filli allan himingeíminn, og segja ljósid kvikni þar vid hristínginn (9)), líkindareikningur (Þad þikir ekki ílla tilfallid ad fara hjer nokkurum ordum um líkindareiknínginn (Probabilitæts-Regning) (83)), miðflóttaafl (Þetta abl er því einnig kallad midflóttaabl (Centrifugal-kraft) (94)), staðvindur (líklegra er samt ad stadvindar (Passater) miklir sjeu á Júpíter (38)), ljóshraði og tunglmyrkvi (Túnglmirkvar Júpiters urdu tilefnid til þess, ad uppgøtvadur var ljóshradinn (67)).

Vissulega náðu mörg nýyrða Jónasar í Stjörnufræðinni ekki að festast í málinu og önnur tóku við. Þar mætti nefna breiðhorn [> 90°] og mjóhorn [< 90°] sem nú munu oftast kölluð gleitt horn og hvasst horn, hafjafn og vatnbeinn fyrir danska orðið ‘vandret’, nú vanalega láréttur og lofthaf fyrir það sem nú nefnist gufuhvolf. En brautin var rudd fyrir aðra að skrifa um eða þýða rit um fræðilegt efni á íslensku með íslenskum orðum fyrir íslenska lesendur.

Heimildir og mynd:

Höfundur

Guðrún Kvaran

prófessor

Útgáfudagur

5.6.2007

Spyrjandi

Kristján Kristinsson

Tilvísun

Guðrún Kvaran. „Hvaða áhrif hafði Jónas Hallgrímsson á íslenska tungu og hvað gerði hann til að vernda hana?“ Vísindavefurinn, 5. júní 2007, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6667.

Guðrún Kvaran. (2007, 5. júní). Hvaða áhrif hafði Jónas Hallgrímsson á íslenska tungu og hvað gerði hann til að vernda hana? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6667

Guðrún Kvaran. „Hvaða áhrif hafði Jónas Hallgrímsson á íslenska tungu og hvað gerði hann til að vernda hana?“ Vísindavefurinn. 5. jún. 2007. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6667>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða áhrif hafði Jónas Hallgrímsson á íslenska tungu og hvað gerði hann til að vernda hana?
Ekki þarf að fara mörgum orðum um Jónas Hallgrímsson og kveðskap hans. Jónas hefur í hátt á aðra öld verið eitt af ástsælustu skáldum þjóðarinnar. Sést það best af því að á þessu ári keppast menn við að minnast þess að 200 ár eru liðin frá fæðingu hans og verður honum sýndur margvíslegur sómi.

Enn er ekki farið að fyrnast yfir hann eins og mörg eldri skáldanna sem þó ortu fögur og stórbrotin ljóð. Vitnað er óspart til hans í tækifærisræðum, kórar og einsöngvarar syngja ljóðin hans og ósjaldan rifja menn upp hendingar eða kvæðisbrot á ferð um landið þegar við á.

Fáir gera sér grein fyrir því hversu góður orðasmiður Jónas var og enn færri minnast þess að Jónas skrifaði fleira en ljóð. Hann var afbragðs þýðandi og skrifaði einnig töluvert um sitt fræðasvið, náttúrufræðina. Virðing hans fyrir tungumálinu, málkennd hans og næmi fyrir blæbrigðum tungunnar gerðu honum kleift að tjá hugsanir sínar og annarra í þannig búning að nýyrði yfir hluti eða hugmyndir, sem áður áttu sér ekki samsvaranir á íslensku, og ný orð og nýjar samsetningar í ljóðum og lausu máli virðast gamalkunn og eins og hluti af grunnorðaforða málsins.

Hér verða aðeins sýnd nokkur dæmi um nýyrðasmíð Jónasar og stuðst við ritmálsskrá Orðabókar Háskólans. Annars vegar verða dæmi sótt í ljóðin en hins vegar í þýðingu hans á bók um stjörnufræði sem stjörnufræðingurinn Georg Frederik Ursin skrifaði handa alþýðu og gefin var út í Viðeyjarklaustri 1842 í þýðingu Jónasar.

Eitt af þekktustu kvæðum Jónasar er Gunnarshólmi. Þar er mörg orð að finna sem Jónas virðist hafa búið til. Þau falla svo vel að efni kvæðisins, eru svo lýsandi að lesandinn sér landið fyrir sér eins og opna bók. Hann sér fagurtæra lind himinblámans, byggðabýlin smáu, spegilskyggnd hrafntinnuþök og sælan sveitarblóma. Hann horfir í huganum á klógula ernina, sem hlakka yfir veiðinni, stendur á hlaðinu í rausnargarði og heyrir öldufallaeiminn frá ströndinni, hlustar á hafganginn við Eyjasand og sér fyrir sér borðfagra skeið (skip) sem bíður þeirra Gunnars og Kolskeggs. Á ferð eru skeiðfráir jóar (hestar) á leið með húsbændur sína til skips.

Í kvæðinu Ísland ávarpar Jónas landið sem hrímhvíta móður og talar um landnámsmenn sem frjálsræðishetjur. Í Vísum Íslendinga er sungið um gleðina sem skín af vonarhýrri brá, guðaveigarnar lífga sálarylinn og hátíðsdaginn köllum við í kvæðinu vonarstund. Aðra sýn fær lesandinn í ljóðinu Móðurást. Þar sér Jónas fyrir sér frostkaldan melinn þar sem móðir er á ferð með barn sitt um heldimma nótt, gefst upp fyrir veðurofsanum og finnst undir snjóhvítri fannblæju. Þarna býr Jónas til orð sem lýsa vel erfiðri ferð í íslenskum vetri þannig að lesandinn nemur vel kuldann og éljaganginn og getur samsamað sig móðurinni með barnið.

Jónas bjó til ótalmörg önnur orð til að ná fram þeim lýsingum sem hann stefndi að. Hann talaði um mundhvítar snótir og himinblá hnjúkafjöll, hafbláa öldu og himinskin, ástfagran svip og ástfagran hljóm, guðfagra sól og elfar ísbláar. Það eru einmitt nýju orðin, sem Jónas bjó til, sem gera það að verkum að ljóðin hans eru flestum auðskilin, þau skýra sig sjálf og orðin gæða myndirnar lífi. Orðasmíðin var mjög í anda samtímans. Vanda skyldi málið og leggja rækt við að tjá sig í hvívetna a góðu máli. Ein helsta fyrirmynd Jónasar að málsmekk var kennari hans í Bessastaðaskóla, Sveinbjörn Egilsson, sem var nemendum fyrirmynd í að velja orð í texta í samræmi við vandað lifandi mál í landinu.

Jónas lagði aðallega stund á náttúrufræði á námsárum sínum í Kaupmannahöfn. Það kemur því ekki á óvart að hann skuli hafa valið að þýða danska bók um stjörnufræði handa almenningi og laga hana að íslenskum þörfum. Lítið hafði áður verið skrifað á þessu sviði á íslensku og því mikil þörf á nýjum fræðiorðum á íslensku ef halda ætti í heiðri stefnu Fjölnismanna um vandað íslenskt mál. Jónasi var því vandi á höndum en einmitt þessi þýðing sýnir vel hversu góða tilfinningu hann hafði fyrir máli og stíl, myndun nýyrða og aðlögun þeirra að málkerfinu. Vissulega voru mörg orðanna í Stjörnufræðinni tökuþýðingar, það er erlenda orðið var þýtt yfir á íslensku, en þeim getur verið vandi á höndum sem vilja búa til svo góða tökuþýðingu að erlenda orðið skíni ekki í gegn. Hér verða aðeins nefnd fáein dæmi um nýyrðasmíð Jónasar í Stjörnufræðinni en um frekari lestur er bent á grein Bjarna Vilhjálmssonar (1944/1985).

Orðið aðdráttarafl (þá uppgøtvadi hann [þ.e. Newton] hid almenna þíngdarafl, edur addráttarablid (215)) er eitt þeirra sem Jónas notaði í Stjörnufræðinni og er nú hluti af almennum orðaforða. Áður höfðu verið lögð til orðin dráttarkraftur og aðdráttarkraftur en hvorugt þeirra náði festu.

Annað nýyrði, sem nefna mætti, er sporbaugur (Braut hans [þ.e. Merkúríusar] er sporbaugur (Ellipse) þ.e. aflángur hríngur; og slíka braut eiga sjer allar jardstjørnur (19)) en engin tilraun eldri er þekkt til að búa til íslenskt orð yfir danska orðið ‘ellipse’.

Enn eitt nýyrði Jónasar er fjaðurmagnaður fyrir ‘elastisk’ (Lopthaf jardarinnar er loptblendíngur, og fjadurmagnad (elastisk) (177)), en önnur orð sem flestir þekkja eru ljósvaki fyrir ‘æther’ (higgja menn ad ljósvaki filli allan himingeíminn, og segja ljósid kvikni þar vid hristínginn (9)), líkindareikningur (Þad þikir ekki ílla tilfallid ad fara hjer nokkurum ordum um líkindareiknínginn (Probabilitæts-Regning) (83)), miðflóttaafl (Þetta abl er því einnig kallad midflóttaabl (Centrifugal-kraft) (94)), staðvindur (líklegra er samt ad stadvindar (Passater) miklir sjeu á Júpíter (38)), ljóshraði og tunglmyrkvi (Túnglmirkvar Júpiters urdu tilefnid til þess, ad uppgøtvadur var ljóshradinn (67)).

Vissulega náðu mörg nýyrða Jónasar í Stjörnufræðinni ekki að festast í málinu og önnur tóku við. Þar mætti nefna breiðhorn [> 90°] og mjóhorn [< 90°] sem nú munu oftast kölluð gleitt horn og hvasst horn, hafjafn og vatnbeinn fyrir danska orðið ‘vandret’, nú vanalega láréttur og lofthaf fyrir það sem nú nefnist gufuhvolf. En brautin var rudd fyrir aðra að skrifa um eða þýða rit um fræðilegt efni á íslensku með íslenskum orðum fyrir íslenska lesendur.

Heimildir og mynd:

...