Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers vegna fá konur hárlos skömmu eftir fæðingu?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Fjöldi höfuðhára er yfirleitt á bilinu 100.000 til 150.000. Við venjulegar kringumstæður eru um 90% af hárinu á höfði manns að vaxa á hverjum tíma og um 10% í dvala eða hvíld. Hvíldin getur staðið í tvo til þrjá mánuði en að lokum losna hárin sem voru í dvala og falla af en ný hár taka að vaxa í þeirra stað. Áætlað er að fólk missi 50-200 höfuðhár á hverjum degi.

Á meðgöngu eykst styrkur kynhormóna í líkamanum. Það virðist valda því að allt hár í höfuðleðrinu helst í vaxtarfasa og losnar ekki og því finnst mörgum konum að hár þeirra vaxi meira og verði þykkara á meðgöngu. Sumar konur fara aftur á móti að missa hár á meðgöngu og er líklegasta skýringin á því skortur á nauðsynlegum vítamínum eða steinefnum.

Eftir fæðingu barns minnkar magn kynhormóna í konunni á ný með þeim afleiðingum að óvenjumörg hár fara í hvíldarfasa þar sem við eðlilega endurnýjun hárs bætast þau hár sem hefðu átt að vera í dvala á meðgöngunni en losnuðu ekki þá sökum hormóna. Eins og áður sagði varir dvalinn í tvo til þrjá mánuði en að þeim tíma liðnum losna gömlu hárin öll á svipuðum tíma og konan getur upplifað mikið hárlos.

Á meðgöngu missa konur oft færri hár en venjulega vegna kynhormóna og hárið virkar þykkara og meira. Eftir fæðingu getur hárlos hins vegar orðið óvenjumikið þegar dregur úr styrk hormónanna.

Hversu mikið hárlosið verður er einstaklingsbundið og ef tilhneiging til hárloss eða –þynningar er í ættarsögu konu getur hárlos orðið enn meira eftir fæðingu. Hárlos í kjölfar meðgöngu nær oftast hámarki um 3-4 mánuðum eftir fæðingu. Þetta ástand veldur mörgum konum áhyggjum en mikilvægt er að hafa í huga að hárlos eftir fæðingu er tímabundið ástand og er orðið eðlilegt eftir 6-12 mánuði.

Hárlos getur einnig orðið þegar breyting verður á jafnvægi estrógenhormóns í líkamanum af öðrum orsökum en meðgöngu. Helstu ástæðurnar eru þegar hætt er að nota getnaðarvörn sem inniheldur estrógen, eins og pilluna, fósturlát eða andvana fæðing, fóstureyðing og brenglun í hormónajafnvægi.

Víða má finna ábendingar og ráð til þess að reyna að halda hárinu heilbrigðu á meðgöngu og eftir fæðingu. Eitt er að strekkja ekki mikið á hárinu eins og gert er í sumum greiðslum, til dæmis fléttum, og forðast að nota rúllur sem toga mikið í hárið. Gott er að borða nóg af grænmeti og ávöxtum sem innihalda svokallaða flavanóíða og andoxunarefni sem vernda hársekkina og örva hárvöxt. Svo hefur verið bent á að nota sjampó og hárnæringu sem inniheldur bíótín og kísil. Hárið er viðkvæmt þegar það er blautt og því er rétt að beita það ekki hörku við greiðslu og forðast mjög fíngerðar greiður. Ef nauðsynlegt er að nota hárblásara eða önnur hituð hártæki er best að nota kalda stillingu. Síðast en ekki síst er mikilvægt að passa upp á að fá nóg af B-, C- og E-vítamínum, bíótíni og sinki, en þó ekki umfram ráðlagða skammta.

Heimildir og mynd:

Höfundur

Útgáfudagur

20.3.2013

Spyrjandi

Ásdís Ármannsdóttir

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvers vegna fá konur hárlos skömmu eftir fæðingu?“ Vísindavefurinn, 20. mars 2013, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=63327.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2013, 20. mars). Hvers vegna fá konur hárlos skömmu eftir fæðingu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=63327

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvers vegna fá konur hárlos skömmu eftir fæðingu?“ Vísindavefurinn. 20. mar. 2013. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=63327>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna fá konur hárlos skömmu eftir fæðingu?
Fjöldi höfuðhára er yfirleitt á bilinu 100.000 til 150.000. Við venjulegar kringumstæður eru um 90% af hárinu á höfði manns að vaxa á hverjum tíma og um 10% í dvala eða hvíld. Hvíldin getur staðið í tvo til þrjá mánuði en að lokum losna hárin sem voru í dvala og falla af en ný hár taka að vaxa í þeirra stað. Áætlað er að fólk missi 50-200 höfuðhár á hverjum degi.

Á meðgöngu eykst styrkur kynhormóna í líkamanum. Það virðist valda því að allt hár í höfuðleðrinu helst í vaxtarfasa og losnar ekki og því finnst mörgum konum að hár þeirra vaxi meira og verði þykkara á meðgöngu. Sumar konur fara aftur á móti að missa hár á meðgöngu og er líklegasta skýringin á því skortur á nauðsynlegum vítamínum eða steinefnum.

Eftir fæðingu barns minnkar magn kynhormóna í konunni á ný með þeim afleiðingum að óvenjumörg hár fara í hvíldarfasa þar sem við eðlilega endurnýjun hárs bætast þau hár sem hefðu átt að vera í dvala á meðgöngunni en losnuðu ekki þá sökum hormóna. Eins og áður sagði varir dvalinn í tvo til þrjá mánuði en að þeim tíma liðnum losna gömlu hárin öll á svipuðum tíma og konan getur upplifað mikið hárlos.

Á meðgöngu missa konur oft færri hár en venjulega vegna kynhormóna og hárið virkar þykkara og meira. Eftir fæðingu getur hárlos hins vegar orðið óvenjumikið þegar dregur úr styrk hormónanna.

Hversu mikið hárlosið verður er einstaklingsbundið og ef tilhneiging til hárloss eða –þynningar er í ættarsögu konu getur hárlos orðið enn meira eftir fæðingu. Hárlos í kjölfar meðgöngu nær oftast hámarki um 3-4 mánuðum eftir fæðingu. Þetta ástand veldur mörgum konum áhyggjum en mikilvægt er að hafa í huga að hárlos eftir fæðingu er tímabundið ástand og er orðið eðlilegt eftir 6-12 mánuði.

Hárlos getur einnig orðið þegar breyting verður á jafnvægi estrógenhormóns í líkamanum af öðrum orsökum en meðgöngu. Helstu ástæðurnar eru þegar hætt er að nota getnaðarvörn sem inniheldur estrógen, eins og pilluna, fósturlát eða andvana fæðing, fóstureyðing og brenglun í hormónajafnvægi.

Víða má finna ábendingar og ráð til þess að reyna að halda hárinu heilbrigðu á meðgöngu og eftir fæðingu. Eitt er að strekkja ekki mikið á hárinu eins og gert er í sumum greiðslum, til dæmis fléttum, og forðast að nota rúllur sem toga mikið í hárið. Gott er að borða nóg af grænmeti og ávöxtum sem innihalda svokallaða flavanóíða og andoxunarefni sem vernda hársekkina og örva hárvöxt. Svo hefur verið bent á að nota sjampó og hárnæringu sem inniheldur bíótín og kísil. Hárið er viðkvæmt þegar það er blautt og því er rétt að beita það ekki hörku við greiðslu og forðast mjög fíngerðar greiður. Ef nauðsynlegt er að nota hárblásara eða önnur hituð hártæki er best að nota kalda stillingu. Síðast en ekki síst er mikilvægt að passa upp á að fá nóg af B-, C- og E-vítamínum, bíótíni og sinki, en þó ekki umfram ráðlagða skammta.

Heimildir og mynd:...