Estrógen er í raun samheiti yfir nokkur efnasambönd með svipaða verkun. Af þeim er estradíól öflugast og hefur það mest áhrif á myndun kyneinkenna hjá stúlkum á kynþroskaskeiði, eins og stækkun brjósta og fitusöfnun á mjöðmum, sem gerir útlínur líkamans ávalari. Eftir að kynþroska er náð hafa estrógen helst áhrif á viðhald síðkominna kyneinkenna, eins og þykknun og þroskun legslímunnar og undirbúning líkamans fyrir meðgöngu, fæðingu og mjólkurgjöf. Einnig taka þau þátt í stjórnun vatns- og saltjafnvægis í líkamanum og auka nýmyndun prótína ásamt vaxtarhormóni frá heiladingli. Tíðahringnum er stjórnað af losunarþætti kynstýrihormóna sem myndast í undirstúku heilans og er seytt út í sérstakt æðakerfi sem flytur hann beint til framhluta heiladinguls. Við það örvast heiladingullinn til að seyta kynstýrihormónunum ESH (eggbússtýrihormón) og GSH (gulbússtýrihormón).
ESH örvar svokallaðar eggbúsfrumur í eggjastokkum til að seyta estrógenum og eykst magn þeirra eftir því sem eggbúin stækka og eggfruman í þeim þroskast. Þegar estrógen í blóðinu nær tilteknu magni hefur það hindrandi áhrif á seyti losunarþáttarins frá undirstúku. Þetta leiðir til þess að losun ESH frá heiladingli minnkar en losun GSH eykst. Þessi breyting á magni kynstýrihormóna merkir endalok fyrri hluta tíðahringsins, sem lýkur þegar egglos verður frá fullþroska eggbúi. Fyrir tilstuðlan GSH ummyndast leifar eggbúsins í gulbú eftir egglos. Gulbúið heldur áfram að mynda estrógen en fer auk þess að mynda prógesterón sem hefur ekki enn verið myndað þegar hér er komið sögu í tíðahringnum. Prógesterón, sem oft er kallað meðgönguhormón, er ásamt estrógenum nauðsynlegt til þess að legslíman þroskist fullkomlega svo þungun geti átt sér stað. Það er einnig mikilvægt til að viðhalda þungun með því að koma í veg fyrir blæðingar. Prógesterón undirbýr líka mjólkurkirtla undir mjólkurseyti. Hár styrkur prógesteróns í blóði í lok tíðahrings hindrar svo seyti losunarþáttarins og GSH. Ef kona verður ekki þunguð lifir gulbúið aðeins í um tvær vikur, legslíman hrörnar og tíðir verða. Frjóvgist hins vegar eggið myndar æðabelgur fósturvísis fljótlega (jafnvel aðeins 8-12 dögum eftir frjóvgun) stýrihormón (e. human chorionic gonadotropin, HCG) sem hindrar hrörnun gulbúsins og viðheldur því þangað til legkaka hefur myndast úr hluta æðabelgsins. Þungunarpróf byggja einmitt á því hvort HCG mælist í þvagi konu. Legkakan tekur við myndun estrógena og prógesteróns af gulbúi á fjórða mánuði meðgöngu. Þegar hér er komið sögu hefur gulbúið lokið hlutverki sínu og hrörnar. Þessi tími getur verið mjög tvísýnn fyrir fóstrið því ef legkakan er ekki alveg tilbúin þegar gulbúið hrörnar er hætta á að legslíman losni og fósturlát verði. Á meðgöngu viðhalda estrógen og prógesterón legslímunni, og þar með þunguninni, auk þess sem þau undirbúa líkamann undir fæðingu og mjólkurseyti. Styrkur þeirra fellur hins vegar hratt að fæðingu lokinni. Kvenkynhormónin sem hér hefur verið fjallað um eru meginuppistaðan í ýmsum hormónalyfjum. Annars vegar eru það getnaðarvarnarpillur sem innihalda ýmist bæði estrógen og prógesterón eða aðeins prógesterón (kallað prógestín í lyfjaformi). Pilluhormónin trufla stjórnunarferlið sem hér hefur verið lýst milli kynstýrihormóna og kynhormóna, þar sem heilinn gerir ekki greinarmun á hormónum mynduðum í líkamanum og utanaðkomandi hormónum. Hins vegar eru svo estrógenlyf fyrir konur á breytingaaldri. Þau eru gefin til að koma í veg fyrir beinþynningu, hita- og svitakóf og aðra fylgikvilla þessa tímaskeiðs í ævi kvenna. Miklar rannsóknir hafa verið gerðar á undanförnum áratugum varðandi hugsanleg áhrif þessara lyfja á myndun brjóstakrabbameins og einnig á tíðni hjarta- og æðasjúkdóma. Rannsóknir og umræður eru enn í gangi og enn eru ekki öll kurl komin til grafar. Lesa má meira um hormón og breytingaskeið kvenna í pistli á Doktor.is. Heimildir og mynd:
- Gerard J. Tortora. 1997. Introduction to the Human Body - The Essentials of Anatomy and Physiology. 4. útg., Biological Science Textbooks, Inc.
- Medline Plus
- Human Physiology and Anatomy
- The Foundation for Better Health Care