Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Arnljótur Ólafsson og hvað getið þið sagt mér um hann?

Ásgeir Jónsson

Árið 1848 var byltingarár og konungar víða um Evrópu riðuðu til falls, en meðal annars varð konungur Dana að afsala sér einveldi sínu. Þeir Karl Marx (1818-1883) og Friedrich Engels (1820-1895) rituðu Kommúnistaávarpið og Jón Sigurðsson (1811-1879) „Hugvekju til Íslendinga“. Það var þó ekki fyrr en veturinn 1849-50 sem byltingunni skolaði loks hingað til lands. Hér voru engin götuvígi reist en samt fundust ungir og eldheitir menn sem fannst fullt tilefni til uppreisnar gegn yfirvöldunum – það er skólayfirvöldum í Lærða skólanum. Tilefnið var kannski ekki sérlega háfleygt. Í skólareglum var strangt kveðið á um bindindi nemenda og áður en nokkurn varði var víndrykkja orðið að lýðfrelsismáli fyrir skólapilta.

Arnljótur Ólafsson (1823-1904).

Það var síðan 17. janúar 1850 að Sveinbjörn Egilsson rektor (1791-1852) kallaði skólapilta á sal og þrumaði yfir þeim skammarræðu með mergjuðum klassískum tilvitnunum sem hans var von og vísa. En að ræðu lokinni gerist sá fáheyrði atburður að einn piltur stóð upp og hrópaði mótmæli að rektor og undir hans forystu hlupu piltarnir út. Þeir fóru síðan um bæinn og kölluðu Pereat gegn Sveinbirni. Þannig var reykvíska byltingin. Þessi nemandi hét Arnljótur Ólafsson (1823-1904) sem þannig skaut fyrst upp í Íslandssöguna sem byltingarhetju.

Mörgum hefur síðar fundist þetta hlutverk Arnljóts vera í andstöðu við feril hans síðar þar sem hann fékk löngum ákúrur fyrir að vera bæði íhaldssamur og eftirlátssamur við Dani. Þetta er þó að mörgu leyti ranghermi. Arnljótur var róttæklingur alla ævi en róttækni hans beindist að lýðfrelsi fremur en þjóðfrelsi. Hann gekk ungur á hönd hugmyndafræði hinna bresku klassísku hagfræðinga um einstaklingsfrelsi sem er oft kennd við Adam Smith (1723-1790). Henni var Arnljótur trúr alla ævi.

Honum leiddist það sem hann kallaði „stjórnbótarstagl“ og talaði einatt fyrir frelsi og framförum í atvinnumálum, er myndu gera landsmenn sjálfburða og síðan sjálfstæða. Á þingi flutti hann frumvörp um afnám vistarbandsins, breytingu á skattalöggjöf og stofnun banka árum og áratugum fyrr en þessi mál fengu brautargengi. Þess ber einnig að gæta að á síðari hluta nítjándu aldar voru Danir í því hlutverki að þröngva lýðfrelsi upp á Íslendinga, oft við hávær mótmæli þeirra. En prentfrelsi, trúfrelsi og ýmisleg önnur frelsun kom óbeðin frá Dönum og í slíkum málum varð Arnljótur sjálfkrafa að bandamanni þeirra fremur en sinna þjóðfrelsissinnuðu landsmanna.

Jón Sigurðsson (1811-1879).

Sumarið eftir Pereatið hélt Arnljótur til Kaupmannahafnar og lagði þar stund á þjóðmegunarfræði. Þar ytra tók hann upp kunningsskap og samstarf við Jón Sigurðsson, er var 12 árum eldri. Líkt og Jón lauk hann ekki prófi í neinni grein í Kaupmannahöfn og svo virðist sem Arnljótur hafi ætlað að feta í fótspor hans og lifa utan við embættismannakerfið en með tekjur af greinarskrifum, þingmennsku og ýmsum fleiri viðvikum, en alls dvaldi hann einn áratug þar ytra.

En þegar dró nær fertugu fór Arnljótur að heykjast á hinu fjölskyldulausa lífi í Kaupmannahöfn. Hann trúlofaðist prestdóttur, Hólmfríði Þorsteinsdóttur, árið 1861, þá 38 ára að aldri, og fyrir fortölur frænda sinna hóf hann nám í prestaskóla Íslands. Honum virðist hafa leiðst guðfræðinámið, sem hann kallaði leiðinlegt og anddrepandi, en það skilaði því sem til var ætlast; embætti og tekjum til þess að framfleyta fjölskyldu. Þegar Arnljótur stóð á fertugu var hann vígður til Bægisár í Eyjafirði og kvæntist heitkonu sinni ári síðar. Þau eignuðust 8 börn. Búrekstur fór honum ákaflega vel úr hendi þar nyrðra og brátt rak hann búskap á fjórum jörðum og auðgaðist vel. Ekki verður annað séð heldur en það hafi verið búrekstrarástæður sem ráku Arnljót síðan til þess að flytja sig á Sauðanes á Langanesi árið 1889 eftir 26 ára þjónustu á Bægisá, en þá var hann 66 ára gamall. En Langanes er gríðarleg hlunnindajörð og eitt besta brauðið á landinu í þann tíma. Þar sat hann allt þar til hann lést árið 1904 rúmlega áttræður að aldri.

Arnljótur skrifaði töluvert þann áratug sem hann dvaldi í Kaupmannahöfn. Hann birti sína fyrstu grein árið 1852 í Nýjum félagsritum er bar heitið: „Um búnaðarfélög“. Og tveimur árum seinna skrifaði hann yfirlitsgreinina; „Um þjóðmegunarfræði“ er var fyrsta kynning þessarar fræðigreinar á íslensku sem var birt í tveimur hlutum í 14. og 15. árgangi Nýrra félagsrita. Hann var á þessum tíma einn aðalhöfundur Landshagsskýrslna er hófu að koma út árið 1854 undir ritstjórn Jóns Sigurðssonar. Arnljótur var ákaflega talnaglöggur maður og ekki er annað hægt en að fyllast aðdáun þegar greiningarvinna hans er skoðuð. Sérstaklega er merk rannsóknarritgjörð hans er nefnist „Um landshagfræði Íslands“ er birtist í fyrsta hefti Landshagsskýrslna og er algert brautryðjendaverk.

Eftir prestvígslu og hjúskap kom um 20 ára bil á birtingum Arnljóts þar sem búrekstur og stjórnmál virðast hafa átt hug hans allan en er sextugsaldurinn nálgaðist virðist sem meira rúm hafi gefist fyrir skriftir. Árið 1880 gaf hann út fyrstu bókina um hagfræði á íslensku er nefndist Auðfræði og næstu árin ritaði hann síðan greinar um ólík fræðileg efni. Má þar einkum nefna tvær greinar sem birtust í Tímariti Bókmenntafélagsins; fyrsta greinin á íslensku um rökfræði árið 1891, en Arnljótur á heiður af orðinu, og önnur er ber heitið „Um lögaura og silfurgang fyrrum á Íslandi“ er birtist á dánarári hans 1904 og er merk greining á peningasögu landsins.

Auðfræðin er það verk sem Arnljóts er helst minnst fyrir í dag. Titill bókarinnar virðist hafa verið ætlaður sem samheiti er næði yfir þjóðmegunarfræði, tölfræði og viðskipti en það orð hefur aldrei náð flugi í íslensku máli. Það er vert að taka það fram að orðið hagfræði birtist fyrst árið 1853 í formála Sveins Skúlasonar (1824-1888) að þýðingu hans á Lýsing Íslands eftir Adolph Frederik Bergsöe (1806-1854). Sveinn var góðvinur Arnljóts sem notaði orðið í landshagsskýrslum árið eftir. Á þeim tíma hafði hagfræði svipaða merkingu og tölfræði eða hagrannsóknir í dag og fékk ekki núverandi merkingu fyrr en á tuttugustu öld.

Frédéric Bastiat (1801-1850).

Arnljótur sótti þekkingu sína í brunn hins breska klassíska skóla sem á vorum tímum kallast frjálslynd hagfræði eða frjálshyggja. En öll hagfræðiskrif hans anda frá sér hugmyndum um frelsi í viðskiptum og athöfnum. Í formála segist hann byggja á riti Frédéric Bastiats (1801-1850), Harmonies Economiqes, en sá var dyggur lærisveinn Adams Smith. Það dylst þó engum sem les Auðfræðina að hún er að mestu leyti hans eigið frumsamið verk, þar sem erlendar kenningar eru settar í rammíslenskt samhengi. Erfitt er að segja til um hvaða áhrif bókin hafði þegar hún var gefin út en ljóst er að hagfræði hennar var algerlega ýtt til hliðar sem dauðum bókstaf á tuttugustu öld þegar haftastefna réði efnahagsmálum landsmanna. Það er ekki fyrr en á síðustu áratugum sem bókin hefur verið endurútgefin, en önnur útgáfa kom út árið 1988, og hafin til vegs í íslensku hagfræðingasamfélagi. En þá hafði frjálslynd hagfræði aftur unnið lendur á Íslandi.

Þeir Jón Sigurðsson og Arnljótur deildu vitaskuld aðdáun sinni á frjálslyndri hagfræði, og Jón beitti henni óspart í baráttu sinni fyrir verslunarfrelsi er fékkst árið 1854. Hins vegar gætti Jón ætíð þess að stíga aldrei lengra fram en svo að stuðningsmenn hans næðu ekki að fylgja honum eftir. Þannig hreyfði hann ekki við málum sem hann vissu að væru í andstöðu við íslenska bændur, svo sem vistarbandinu. Það virðist hafa verið hans dýrkeypti lærdómur af kláðamálinu! Arnljótur var hins vegar ekki bundinn af slíkum takmörkunum. Hann hafði engan hóp fylgjenda í kringum sig og gaf lítið fyrir álit meirihlutans. Hann bar því einatt fram róttækar tillögur sem lítinn hljómgrunn fengu á Alþingi. Því var einnig borið við að Arnljótur væri hrokafullur beturviti sem gengi illa að fá menn með sér að málum. Margir bændahöfðingjar tóku einnig mjög óstinnt upp að fá meinleg skot frá honum í ræðustól Alþingis þar sem hann hæddist óspart að þeim.

Það kann að vera að Arnljótur hafi haft áhrif á störf og samþykktir annarra alþingismanna en sínum málum náði hann sjaldan í gegn. Hann var fyrst kosinn á þing árið 1858 og sat síðan með hléum út alla nítjándu öld fyrir alls 5 kjördæmi auk þess að vera konungskjörinn þingmaður um tíma. Hann lenti í andstöðu við Jón Sigurðsson vegna kláðamálsins í upphafi þingferils síns sem virðist hafa gert út um vináttu þeirra og aukið mjög á pólitíska einangrun hans.

Arnljótur var hár maður vexti, karlmannlegur en með langt bogið nef. Var hann því stundum uppnefndur „krummanefur“. Þótt andstæðingum hans á þingi þætti hann hrokafullur bendir ekkert annað til þess en hann hafi verið alþýðlegur og blátt áfram sem prestur. Sú sögn hefur flogið um að heimili Arnljóts á Langanesi sé fyrirmynd prófastsfjölskyldunnar í Húsinu í Eyvík í skáldsögunni Ungfrúin góða og húsið eftir Halldór Laxness (1902-1998). Skal ekkert fullyrt um það málefni en af samtímalýsingum að dæma virðist Arnljótur hafa verið mikill fjölskyldumaður og ljúfmenni.

Arnljótur var bæði lipur ræðumaður og penni. Hann tók sér fornsögurnar til fyrirmyndar í málfari, kannski of mikið að mati margra nútímamanna sem kann að finnast hann hafa fyrnt mál sitt um of. En því verður samt ekki á móti mælt að textinn er ákaflega skýr og fjörlegur og úr honum er hægt að tína margar gullvægar tilvitnanir. Það kom heldur ekkert annað til greina hjá Arnljóti en að rita hreint mál og búa til nýyrði á íslensku yfir fræðileg hugtök. Ýmis velþekkt orð eins og framleiðsla og hugtak eru verk hans. Það er líklega í þessu efni sem áhrif Arnljóts hafa staðið dýpst, þar sem hann bæði bjó til mörg snilldarnýyrði sem hafa öðlast óskoraðan þegnrétt í íslenskri tungu auk þess að skapa það mikilvæga fordæmi að íslenska beri öll erlend heiti sem berast inn í íslenskt fræðasamfélag.

Úr bók Arnljóts, Auðfræði:
Auðfræðinni hefir oftlega verið borið á brýn, að hún byggði á sjálfselsku mannsins og leiddi hann til auragirndar. Það er satt, að auðfræðin kennir mönnum hagsýni og hagsmunasemi, og sýnir þeim, að auðurinn sé ómissandi þjónn mannlegra framfara og þjóðmenningar. Það er og satt, að hún telur sjálfselskuna gefna og meðskapaða manninum, en einmitt gefna honum til viðhalds og verndunar, til vegs og sóma ... Auðfræðingur tekur manninn svo sem hann nú er, hefir verið og mun verða, veikan, skeikulan, ófullkominn, en jafnframt framförulan og framfæran ... og vill vísa honum veg framfaranna.

Myndir:

Höfundur

lektor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

19.9.2012

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Ásgeir Jónsson. „Hver var Arnljótur Ólafsson og hvað getið þið sagt mér um hann?“ Vísindavefurinn, 19. september 2012, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=63031.

Ásgeir Jónsson. (2012, 19. september). Hver var Arnljótur Ólafsson og hvað getið þið sagt mér um hann? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=63031

Ásgeir Jónsson. „Hver var Arnljótur Ólafsson og hvað getið þið sagt mér um hann?“ Vísindavefurinn. 19. sep. 2012. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=63031>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Arnljótur Ólafsson og hvað getið þið sagt mér um hann?
Árið 1848 var byltingarár og konungar víða um Evrópu riðuðu til falls, en meðal annars varð konungur Dana að afsala sér einveldi sínu. Þeir Karl Marx (1818-1883) og Friedrich Engels (1820-1895) rituðu Kommúnistaávarpið og Jón Sigurðsson (1811-1879) „Hugvekju til Íslendinga“. Það var þó ekki fyrr en veturinn 1849-50 sem byltingunni skolaði loks hingað til lands. Hér voru engin götuvígi reist en samt fundust ungir og eldheitir menn sem fannst fullt tilefni til uppreisnar gegn yfirvöldunum – það er skólayfirvöldum í Lærða skólanum. Tilefnið var kannski ekki sérlega háfleygt. Í skólareglum var strangt kveðið á um bindindi nemenda og áður en nokkurn varði var víndrykkja orðið að lýðfrelsismáli fyrir skólapilta.

Arnljótur Ólafsson (1823-1904).

Það var síðan 17. janúar 1850 að Sveinbjörn Egilsson rektor (1791-1852) kallaði skólapilta á sal og þrumaði yfir þeim skammarræðu með mergjuðum klassískum tilvitnunum sem hans var von og vísa. En að ræðu lokinni gerist sá fáheyrði atburður að einn piltur stóð upp og hrópaði mótmæli að rektor og undir hans forystu hlupu piltarnir út. Þeir fóru síðan um bæinn og kölluðu Pereat gegn Sveinbirni. Þannig var reykvíska byltingin. Þessi nemandi hét Arnljótur Ólafsson (1823-1904) sem þannig skaut fyrst upp í Íslandssöguna sem byltingarhetju.

Mörgum hefur síðar fundist þetta hlutverk Arnljóts vera í andstöðu við feril hans síðar þar sem hann fékk löngum ákúrur fyrir að vera bæði íhaldssamur og eftirlátssamur við Dani. Þetta er þó að mörgu leyti ranghermi. Arnljótur var róttæklingur alla ævi en róttækni hans beindist að lýðfrelsi fremur en þjóðfrelsi. Hann gekk ungur á hönd hugmyndafræði hinna bresku klassísku hagfræðinga um einstaklingsfrelsi sem er oft kennd við Adam Smith (1723-1790). Henni var Arnljótur trúr alla ævi.

Honum leiddist það sem hann kallaði „stjórnbótarstagl“ og talaði einatt fyrir frelsi og framförum í atvinnumálum, er myndu gera landsmenn sjálfburða og síðan sjálfstæða. Á þingi flutti hann frumvörp um afnám vistarbandsins, breytingu á skattalöggjöf og stofnun banka árum og áratugum fyrr en þessi mál fengu brautargengi. Þess ber einnig að gæta að á síðari hluta nítjándu aldar voru Danir í því hlutverki að þröngva lýðfrelsi upp á Íslendinga, oft við hávær mótmæli þeirra. En prentfrelsi, trúfrelsi og ýmisleg önnur frelsun kom óbeðin frá Dönum og í slíkum málum varð Arnljótur sjálfkrafa að bandamanni þeirra fremur en sinna þjóðfrelsissinnuðu landsmanna.

Jón Sigurðsson (1811-1879).

Sumarið eftir Pereatið hélt Arnljótur til Kaupmannahafnar og lagði þar stund á þjóðmegunarfræði. Þar ytra tók hann upp kunningsskap og samstarf við Jón Sigurðsson, er var 12 árum eldri. Líkt og Jón lauk hann ekki prófi í neinni grein í Kaupmannahöfn og svo virðist sem Arnljótur hafi ætlað að feta í fótspor hans og lifa utan við embættismannakerfið en með tekjur af greinarskrifum, þingmennsku og ýmsum fleiri viðvikum, en alls dvaldi hann einn áratug þar ytra.

En þegar dró nær fertugu fór Arnljótur að heykjast á hinu fjölskyldulausa lífi í Kaupmannahöfn. Hann trúlofaðist prestdóttur, Hólmfríði Þorsteinsdóttur, árið 1861, þá 38 ára að aldri, og fyrir fortölur frænda sinna hóf hann nám í prestaskóla Íslands. Honum virðist hafa leiðst guðfræðinámið, sem hann kallaði leiðinlegt og anddrepandi, en það skilaði því sem til var ætlast; embætti og tekjum til þess að framfleyta fjölskyldu. Þegar Arnljótur stóð á fertugu var hann vígður til Bægisár í Eyjafirði og kvæntist heitkonu sinni ári síðar. Þau eignuðust 8 börn. Búrekstur fór honum ákaflega vel úr hendi þar nyrðra og brátt rak hann búskap á fjórum jörðum og auðgaðist vel. Ekki verður annað séð heldur en það hafi verið búrekstrarástæður sem ráku Arnljót síðan til þess að flytja sig á Sauðanes á Langanesi árið 1889 eftir 26 ára þjónustu á Bægisá, en þá var hann 66 ára gamall. En Langanes er gríðarleg hlunnindajörð og eitt besta brauðið á landinu í þann tíma. Þar sat hann allt þar til hann lést árið 1904 rúmlega áttræður að aldri.

Arnljótur skrifaði töluvert þann áratug sem hann dvaldi í Kaupmannahöfn. Hann birti sína fyrstu grein árið 1852 í Nýjum félagsritum er bar heitið: „Um búnaðarfélög“. Og tveimur árum seinna skrifaði hann yfirlitsgreinina; „Um þjóðmegunarfræði“ er var fyrsta kynning þessarar fræðigreinar á íslensku sem var birt í tveimur hlutum í 14. og 15. árgangi Nýrra félagsrita. Hann var á þessum tíma einn aðalhöfundur Landshagsskýrslna er hófu að koma út árið 1854 undir ritstjórn Jóns Sigurðssonar. Arnljótur var ákaflega talnaglöggur maður og ekki er annað hægt en að fyllast aðdáun þegar greiningarvinna hans er skoðuð. Sérstaklega er merk rannsóknarritgjörð hans er nefnist „Um landshagfræði Íslands“ er birtist í fyrsta hefti Landshagsskýrslna og er algert brautryðjendaverk.

Eftir prestvígslu og hjúskap kom um 20 ára bil á birtingum Arnljóts þar sem búrekstur og stjórnmál virðast hafa átt hug hans allan en er sextugsaldurinn nálgaðist virðist sem meira rúm hafi gefist fyrir skriftir. Árið 1880 gaf hann út fyrstu bókina um hagfræði á íslensku er nefndist Auðfræði og næstu árin ritaði hann síðan greinar um ólík fræðileg efni. Má þar einkum nefna tvær greinar sem birtust í Tímariti Bókmenntafélagsins; fyrsta greinin á íslensku um rökfræði árið 1891, en Arnljótur á heiður af orðinu, og önnur er ber heitið „Um lögaura og silfurgang fyrrum á Íslandi“ er birtist á dánarári hans 1904 og er merk greining á peningasögu landsins.

Auðfræðin er það verk sem Arnljóts er helst minnst fyrir í dag. Titill bókarinnar virðist hafa verið ætlaður sem samheiti er næði yfir þjóðmegunarfræði, tölfræði og viðskipti en það orð hefur aldrei náð flugi í íslensku máli. Það er vert að taka það fram að orðið hagfræði birtist fyrst árið 1853 í formála Sveins Skúlasonar (1824-1888) að þýðingu hans á Lýsing Íslands eftir Adolph Frederik Bergsöe (1806-1854). Sveinn var góðvinur Arnljóts sem notaði orðið í landshagsskýrslum árið eftir. Á þeim tíma hafði hagfræði svipaða merkingu og tölfræði eða hagrannsóknir í dag og fékk ekki núverandi merkingu fyrr en á tuttugustu öld.

Frédéric Bastiat (1801-1850).

Arnljótur sótti þekkingu sína í brunn hins breska klassíska skóla sem á vorum tímum kallast frjálslynd hagfræði eða frjálshyggja. En öll hagfræðiskrif hans anda frá sér hugmyndum um frelsi í viðskiptum og athöfnum. Í formála segist hann byggja á riti Frédéric Bastiats (1801-1850), Harmonies Economiqes, en sá var dyggur lærisveinn Adams Smith. Það dylst þó engum sem les Auðfræðina að hún er að mestu leyti hans eigið frumsamið verk, þar sem erlendar kenningar eru settar í rammíslenskt samhengi. Erfitt er að segja til um hvaða áhrif bókin hafði þegar hún var gefin út en ljóst er að hagfræði hennar var algerlega ýtt til hliðar sem dauðum bókstaf á tuttugustu öld þegar haftastefna réði efnahagsmálum landsmanna. Það er ekki fyrr en á síðustu áratugum sem bókin hefur verið endurútgefin, en önnur útgáfa kom út árið 1988, og hafin til vegs í íslensku hagfræðingasamfélagi. En þá hafði frjálslynd hagfræði aftur unnið lendur á Íslandi.

Þeir Jón Sigurðsson og Arnljótur deildu vitaskuld aðdáun sinni á frjálslyndri hagfræði, og Jón beitti henni óspart í baráttu sinni fyrir verslunarfrelsi er fékkst árið 1854. Hins vegar gætti Jón ætíð þess að stíga aldrei lengra fram en svo að stuðningsmenn hans næðu ekki að fylgja honum eftir. Þannig hreyfði hann ekki við málum sem hann vissu að væru í andstöðu við íslenska bændur, svo sem vistarbandinu. Það virðist hafa verið hans dýrkeypti lærdómur af kláðamálinu! Arnljótur var hins vegar ekki bundinn af slíkum takmörkunum. Hann hafði engan hóp fylgjenda í kringum sig og gaf lítið fyrir álit meirihlutans. Hann bar því einatt fram róttækar tillögur sem lítinn hljómgrunn fengu á Alþingi. Því var einnig borið við að Arnljótur væri hrokafullur beturviti sem gengi illa að fá menn með sér að málum. Margir bændahöfðingjar tóku einnig mjög óstinnt upp að fá meinleg skot frá honum í ræðustól Alþingis þar sem hann hæddist óspart að þeim.

Það kann að vera að Arnljótur hafi haft áhrif á störf og samþykktir annarra alþingismanna en sínum málum náði hann sjaldan í gegn. Hann var fyrst kosinn á þing árið 1858 og sat síðan með hléum út alla nítjándu öld fyrir alls 5 kjördæmi auk þess að vera konungskjörinn þingmaður um tíma. Hann lenti í andstöðu við Jón Sigurðsson vegna kláðamálsins í upphafi þingferils síns sem virðist hafa gert út um vináttu þeirra og aukið mjög á pólitíska einangrun hans.

Arnljótur var hár maður vexti, karlmannlegur en með langt bogið nef. Var hann því stundum uppnefndur „krummanefur“. Þótt andstæðingum hans á þingi þætti hann hrokafullur bendir ekkert annað til þess en hann hafi verið alþýðlegur og blátt áfram sem prestur. Sú sögn hefur flogið um að heimili Arnljóts á Langanesi sé fyrirmynd prófastsfjölskyldunnar í Húsinu í Eyvík í skáldsögunni Ungfrúin góða og húsið eftir Halldór Laxness (1902-1998). Skal ekkert fullyrt um það málefni en af samtímalýsingum að dæma virðist Arnljótur hafa verið mikill fjölskyldumaður og ljúfmenni.

Arnljótur var bæði lipur ræðumaður og penni. Hann tók sér fornsögurnar til fyrirmyndar í málfari, kannski of mikið að mati margra nútímamanna sem kann að finnast hann hafa fyrnt mál sitt um of. En því verður samt ekki á móti mælt að textinn er ákaflega skýr og fjörlegur og úr honum er hægt að tína margar gullvægar tilvitnanir. Það kom heldur ekkert annað til greina hjá Arnljóti en að rita hreint mál og búa til nýyrði á íslensku yfir fræðileg hugtök. Ýmis velþekkt orð eins og framleiðsla og hugtak eru verk hans. Það er líklega í þessu efni sem áhrif Arnljóts hafa staðið dýpst, þar sem hann bæði bjó til mörg snilldarnýyrði sem hafa öðlast óskoraðan þegnrétt í íslenskri tungu auk þess að skapa það mikilvæga fordæmi að íslenska beri öll erlend heiti sem berast inn í íslenskt fræðasamfélag.

Úr bók Arnljóts, Auðfræði:
Auðfræðinni hefir oftlega verið borið á brýn, að hún byggði á sjálfselsku mannsins og leiddi hann til auragirndar. Það er satt, að auðfræðin kennir mönnum hagsýni og hagsmunasemi, og sýnir þeim, að auðurinn sé ómissandi þjónn mannlegra framfara og þjóðmenningar. Það er og satt, að hún telur sjálfselskuna gefna og meðskapaða manninum, en einmitt gefna honum til viðhalds og verndunar, til vegs og sóma ... Auðfræðingur tekur manninn svo sem hann nú er, hefir verið og mun verða, veikan, skeikulan, ófullkominn, en jafnframt framförulan og framfæran ... og vill vísa honum veg framfaranna.

Myndir:...