Langásinn og skammásinn skerast í miðpunkti (e. center) sporbaugsins, sem skiptir báðum ásunum í tvo jafna hluta. Hvor hluti langássins kallast hálfur langás (e. semimajor axis) og hvor hluti skammássins kallast hálfur skammás (e. semiminor axis). Lengdir hálfásanna eru oft táknaðar með $a$ og $b$, eins og gefið er til kynna á myndinni að neðan.
Á langási sporbaugs liggja tveir tilteknir punktar sem eru sérstaklega mikilvægir. Þessir punktar liggja hvor sínum megin við miðpunktinn, í sömu fjarlægð frá honum, og kallast brennipunktar (e. focus) sporbaugsins. Á myndinni að neðan eru þeir merktir með $F_1$ og $F_2$. Fjarlægð brennipunktanna frá miðpunkti sporbaugsins kallast brennilengd (e. focal length) hans.
Punktarnir á sporbaugnum einkennast af eftirfarandi eiginleika: Samanlögð fjarlægð hvers og eins þeirra frá brennipunktum sporbaugsins er jöfn lengd langássins. Á myndinni að ofan þýðir þetta að rauðu strikin hafi samanlagt sömu lengd og langásinn. Að punktur $P$ sé á sporbaugnum þýðir sem sagt að $PF_1 + PF_2 = 2a$, þar sem $a$ er hálfur langásinn eins og áður var sagt frá. Þennan eiginleika má nota til að skilgreina sporbaug í stað þess að lýsa honum sem skurðfleti keilu og slétts flatar, eins og gert var fremst í svarinu. Til er formúla sem gerir okkur kleift að reikna brennilengdina, það er fjarlægð brennipunktanna frá miðpunktinum, sem við táknum með $f$. Til þess látum við $P$ vera þann punkt á sporbaugnum sem liggur á efri hluta skammássins, eins og myndin að neðan sýnir.
Þar sem $P$ er punktur á sporbaugnum vitum við að rauðu strikin hafa samanlagt sömu lengd og langásinn. Þar sem skammásinn liggur um miðjan langásinn er jafnframt ljóst að punkturinn $P$ liggur mitt á milli brennipunktanna. Þess vegna eru rauðu strikin tvö jafnlöng, sem þýðir að hvort strik um sig hefur sömu lengd og hálfur langásinn. Með öðrum orðum hafa bæði rauðu strikin lengdina $a$, eins og myndin að ofan gefur til kynna. Með því að nota reglu Pýþagórasar í hægri þríhyrningnum á myndinni að ofan fæst þá að $f^2+b^2 = a^2$, sem gefur $f^2 = a^2-b^2$ og því $f=\sqrt{a^2-b^2}$. Þessi formúla segir okkur hvernig við getum reiknað brennilengdina út frá hálfum langás og hálfum skammás sporbaugsins. Vert er að minnast á eitt hugtak til viðbótar sem mikið er notað þegar rætt er um sporbauga. Hringvik (e. eccentricity) sporbaugs er yfirleitt táknað með $e$ og það er skilgreint sem hlutfall brennilengdar og hálfa langássins. Með öðrum orðum er $e = f/a$.
Hringvik sporbaugs er alltaf tala á bilinu 0 til 1 og eins og nafngiftin gefur til kynna er hún mælikvarði á hversu mikið sporbaugurinn líkist hring. Ef hringvikið er 0 er sporbaugurinn einfaldlega hringur (sem er sérstök gerð sporbaugs), en eftir því sem hringvikið færist nær 1 verður sporbaugurinn sífellt aflengri, eins og myndin að ofan endurspeglar. Í náttúrunni birtast sporbaugar meðal annars í hreyfingu reikistjarnanna, en fyrsta lögmál Keplers segir að sérhver reikistjarna ferðist umhverfis sólu eftir sporbaug og að sólin sitji í öðrum brennipunkti hans. Vert er að geta þess að sporbaugarnir sem reikistjörnurnar fara eftir eru jafnan mjög nálægt hringlögun; til dæmis hefur braut jarðar um sólu hringvikið 0,017, braut Venusar hefur hringvikið 0,0068 og braut Satúrnusar hefur hringvikið 0,054. Mest er hringvikið í braut Merkúríusar, eða 0,206. Heimild:
- NASA's Solar System Exploration. Skoðað 15. mars 2012.
- Allar myndir voru teiknaðar af höfundi svarsins.