Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Árstíðabundin flensa gengur yfir norðurhvel jarðar á hverjum vetri. Hér á landi er hún frá október til maí og nær hámarki í janúar og febrúar. Hinum megin á hnettinum, til dæmis í Ástralíu, gengur flensa frá maí til október og nær hámarki í ágúst.
Algengustu sýklarnir sem valda inflúensu tilheyra þremur fjölskyldum veira, inflúensu A, B og C. Þessum fjölskyldum er svo skipt enn frekar niður. Oftast er það veira sem tilheyrir inflúensu A sem veldur árlegum flensufaraldri. Þó svo birting inflúensunnar aukist allt að tífalt þegar faraldurinn gengur yfir, smitast veiran manna á milli allt árið.
Hver faraldur stafar oftast af ákveðinni undirtegund veiru af áðurnefndum fjölskyldum veira. Erfðaefni veirunnar tekur stöðugum breytingum vegna stökkbreytinga og þróunar lyfjaónæmis fyrir bóluefnum. Því þarf nýtt bóluefni gegn inflúensufaraldrinum á hverju ári.
Erfðaefni veirunnar tekur stöðugum breytingum vegna stökkbreytinga og þróunar lyfjaónæmis fyrir bóluefnum. Því þarf nýtt bóluefni gegn inflúensufaraldrinum á hverju ári.
Veiran smitast manna á milli sem loftborið smit, dropasmit með hósta eða hnerra eða sem snertismit með höndum eftir að þær hafa verið bornar að vitum. Til að koma í veg fyrir smit er því best að halda höndum fyrir vitum þegar hnerrað er og þá einnig þvo sér reglulega um hendur. Einstaklingur með inflúensu verður smitandi sólarhring áður en einkenni koma fram og er smithættan mest í byrjun. Fullorðnir geta smitað í 3-5 daga eftir að veikindi hefjast en börn í allt að viku.
Nokkrar mögulegar skýringar eru á því hvers vegna inflúensutilfellum fjölgar mikið yfir vetrartímann.
Fyrst mætti nefna að kaldara veðri fylgir þurrara loft sem þurrkar upp slímhimnur, til dæmis í nefi og koki. Hlutverk þessara slímhimna er að festa sýkla og framandi efni sem komast inn í öndunarveginn og sópa þeim aftur út með hjálp lítilla bifhára. Ef þau gegna hlutverki sínu ekki sem skyldi er auðveldara fyrir sýkla að komast inn í líkamann og valda veikindum. Þegar kaldara er í veðri er fólk einnig meira inni og í nánari samskiptum hvert við annað og það eykur líkur á smiti. Gott dæmi um þetta eru leikskólar og skólar sem eru lítið eða ekki starfandi á sumrin, auk þess sem starfsemin fer meira fram úti á vorin, sumrin og haustin þegar hlýrra er í veðri, heldur en yfir veturinn.
Kalt veðurfar getur haft áhrif á fjölgun inflúensutilfella.
Enn fremur eykst framleiðsla á D-vítamíni í húðinni í auknu sólarljósi og hefur styrkjandi áhrif á ónæmiskerfið. Yfir vetrarmánuðina þegar fólk er lítið úti í sólinni er ónæmiskerfið því mögulega veikara en ella. Þess ber einnig að geta að yfir vetrartímann er sólin hér á landi yfirleitt ekki nógu sterk til að framleiðsla á D-vítamíni í húðinni geti orðið.
Rannsóknir hafa einnig sýnt að inflúensuveiran hefur um sig hjúp sem bráðnar þegar veiran kemst inn í öndunarveginn. Í kulda á veturna harðnar þessi hjúpur og myndar nokkurs konar skel sem ver veiruna, en á sumrin bráðnar hjúpurinn aftur á móti áður en veiran nær að komast inn í öndunarveginn.
Hvers vegna við þjáumst oftar af flensu yfir veturinn er því líklega sambland af mörgum ástæðum en eftir því sem rannsóknum á inflúensu, og þeim veirum er henni valda, fleytir fram er líklegt að enn fleira komi í ljós.
Heimildir:
Þórdís Kristinsdóttir. „Af hverju koma flensurnar alltaf í janúar og febrúar eða um það leyti?“ Vísindavefurinn, 8. janúar 2013, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=61898.
Þórdís Kristinsdóttir. (2013, 8. janúar). Af hverju koma flensurnar alltaf í janúar og febrúar eða um það leyti? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=61898
Þórdís Kristinsdóttir. „Af hverju koma flensurnar alltaf í janúar og febrúar eða um það leyti?“ Vísindavefurinn. 8. jan. 2013. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=61898>.