Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Theodor W. Adorno og hvert var framlag hans til vísindanna?

Benedikt Hjartarson

Þýski heimspekingurinn, félagsfræðingurinn og menningarrýnirinn Theodor W. Adorno (1903-1969) er einn þeirra lykilhöfunda sem kenndir eru við Frankfurtar-skólann, en nafnið er tengt „Rannsóknarstofnun í félagsvísindum“ sem var stofnuð við Johann Wolfgang Goethe-háskólann í Frankfurt árið 1924. Meðlimir skólans fengust við breitt svið viðfangsefna í rannsóknum sínum og markmiðið var heildstæð greining á gerð og þróun borgaralegs nútímaþjóðfélags, þar sem leitast var við að lýsa flóknu sambandi hugmyndafræðilegra og efnahagslegra þátta. Meðal helstu meðlima Frankfurtar-skólans má auk Adornos nefna Herbert Marcuse, Erich Fromm, Leo Löwenthal og Max Horkheimer sem var lengst af forstöðumaður stofnunarinnar.

Fræðimennirnir sóttu að verulegu leyti til kenninga Karls Marx (auk skrifa fræðimanna eins og Nietzsches, Webers og Freuds) en settu um leið fram harða gagnrýni á ríkjandi söguskoðun og þjóðfélagskenningu marxismans, þar sem gengið var út frá hugmyndum um vélgengt samband grunns og yfirbyggingar og litið á menninguna sem hreina afurð efnahagslegra þátta. Með skrifum sínum lögðu þeir grunn að því sem þeir nefndu „gagnrýna kenningu“ um þjóðfélagið, en hugtakið markar ekki aðeins skýra aðgreiningu frá „hefðbundinni kenningu“, eins og kristallast í titli þekktrar greinar eftir Horkheimer frá 1937, heldur einnig frá hefð rétttrúnaðarmarxisma. Með rannsóknum sínum mótaði Frankfurtar-skólinn nýtt „viðmið félagsvísinda“, svo vitnað sé til orða Rolfs Wiggershaus (s. 9), og hann hefur haft mótandi áhrif á skrif fræðimanna er hafa unnið að efnishyggjulegri greiningu á menningu, fagurfræði og þjóðfélagsgerð innan ólíkra greina hug- og félagsvísinda.

Á meðal lykilverka Frankfurtar-skólans er ritið Díalektík upplýsingarinnar (Dialektik der Aufklärung) eftir Adorno og Max Horkheimer, sem fyrst var gefið út í Amsterdam 1947. Um er að ræða safn greina sem höfundarnir rituðu í útlegð rannsóknarstofnunarinnar í Bandaríkjunum. Ritið hefur að geyma greiningu á hugmyndalegum þverstæðum upplýsingarinnar og þeim framgangi alræðishyggju og menningariðnaðar sem Adorno og Horkheimer töldu einkenna þjóðfélagsgerð samtímans. Gagnrýni þeirra á díalektík upplýsingarinnar beinist að því hvernig verkefni hennar hafi á endanum umhverfst í nýja goðsögulega heimsmynd, þótt það hafi upphaflega beinst að því að frelsa manninn undan hindurvitnum og bábilju. Þeir benda á hvernig upplýsingin hafi grundvallast á drottnunarvaldi mannsins yfir náttúrunni og upphafningu óhlutbundinna hugmyndakerfa, sem á endanum hafi leitt til útþurrkunar einstaklingsins. Hér vegur þyngst framgangur markmiðsbundinnar rökvísi, þar sem skynsemin er undirskipuð kröfum um skilvirkni og hagnýti. Þessu ferli fylgir hlutgerving þjóðfélagsþegnsins þegar hann er undirskipaður æðri lögmálum vélgengis og skilvirkni, en kenningu sína um hlutgervingu byggja Adorno og Horkheimer í meginatriðum á skrifum ungverska marxistans Györgys Lukács. Á þessum forsendum reyna þeir að skýra þann framgang alræðisafla sem þeir töldu einkenna samtíma sinn, hvort heldur horft væri til þriðja ríkisins eða til umbyltingar menningarinnar á forsendum markaðslögmála, en í greiningu þeirra verða líkindin á milli pólitískra alræðissamfélaga og hins borgaralega markaðssamfélags sláandi. Í báðum tilvikum birtist hrun borgaralegrar siðmenningar sem umhverfist í nýja tegund villimennsku. Menningin hefur umhverfst í allsráðandi markaðskerfi þar sem þjóðfélagsþegnarnir verða neytendur eigin sjálfsmyndar og jafnvel frelsis – eins og þeir komast að orði í greiningu sinni á menningariðnaðinum, er eina frelsið sem þrífst utan kerfis neyslunnar „frelsi heimskingjans til að svelta“ (s. 243). Í borgaralegu markaðssamfélagi samtímans er hverju því sem ekki verður fellt undir lögmál sölu og gróða útskúfað og einstaklingurinn er ofurseldur valdi óræðra markaðslögmála á sama hátt og hann var áður á valdi myrkra og gerræðislegra afla sem holdgerðust í goðsögnum.

Theodor W. Adorno, til hægri, heilsar hér Max Horkheimer.

Eftir endurkomu sína til Frankfurt árið 1949 helgaði Adorno krafta sína í auknum mæli spurningum um bókmenntir og listir og lagði grunn að þeirri kenningu á sviði nútímafagurfræði sem hann er einna þekktastur fyrir. Hugleiðingar um fagurfræði voru raunar snar þáttur í skrifum Adornos allt frá því hann birti fyrstu skrif sín um nútímatónlist á fjórða áratugnum, en fagurfræðilegar hugmyndir sínar setti hann fram með skipulegustum hætti í ritinu Ästhetische Theorie (Fagurfræðileg kenning, 1970). Lykilhugmynd í fagurfræði Adornos snýr að því sem kalla má „lögmál neikvæðisins“ og er samofið hugmyndinni um sjálfstæði listarinnar. Að mati Adornos gegnir listin lykilhlutverki sem einskonar andhverfa borgaralegrar þjóðfélagsgerðar – listin myndar sjálfstætt svið sem er undanþegið ríkjandi kröfum um hagnýti og getur þannig þjónað sem athvarf til viðnáms og gagnrýni. Með skrifum sínum átti Adorno mikilvægan þátt í því að greina þá þjóðfélagslegu róttækni sem býr í formtilraunum og brotakenndri framsetningu módernískrar listsköpunar á 20. öldinni og horfir hann þar jafnt til verka tónskáldanna Arnolds Schönberg og Antons Webern og ritverka höfunda á borð við Paul Valéry, Samuel Beckett, Marcel Proust og Stefan George.

Hugmyndin um að listin lúti eigin lögmálum birtir þó ekki innbyggða eða „eðlislæga“ hneigð listsköpunar, heldur er hún afurð sögulegrar þróunar. Adorno fæst á gagnrýninn hátt við hefð fagurfræðilegrar umræðu innan þýskrar hughyggju, sem rekja má aftur til skrifa Karls Philipps Moritz, en hugmyndir um sjálfstæði eða „autónómíu“ listarinnar urðu að rótgrónum þætti í borgaralegri fagurfræði eftir að Kant vann úr þeim á kerfisbundinn hátt í ritinu Kritik der Urteilskraft (Gagnrýni dómgreindarinnar, 1790). Með iðnbyltingunni og þeirri breyttu þjóðfélagsgerð sem henni fylgdi tóku listamenn og menntamenn í auknum mæli að líta á listina sem rými þar sem hugveran léki frjáls, slyppi undan oki þjóðfélagsins og gæti endurheimt glataða einingu sína. Sú ímynd hins fagra sem tengist sjálfstæðu sviði listarinnar á þó vissulega sína skuggahlið, eins og Adorno fjallar um í skrifum sínum, því hún felur í sér að listin verður ekki aðeins rými frjálsrar sköpunar heldur um leið vitnisburður um nauðungina sem ríkir í þjóðfélaginu fyrir utan. Svo vitnað sé til greinar þar sem Adorno leitar svara við þeirri spurningu „hvort listin sé glaðvær“, þá er listin „eitthvað sem hefur flúið raunveruleikann en er engu að síður gegnsýrt af honum“, hún er í senn „glaðvær“, að því leyti að hún er vettvangur frjáls leiks, og þrungin alvöru, vegna þess að hún ber vott um þá samfélagslegu fjötra sem hún lokar á.

Frjáls hugveran sem birtist í listinni er ekki annað en draumsýn þeirrar hugveru sem er fangin í þéttriðnu neti firringar og hlutgervingar og er ofurseld lögmálum markaðarins. Innan hinnar síðkapítalísku þjóðfélagsgerðar hefur hugveran sömu stöðu og hver annar varningur – hlutgervingin felur í sér að einstaklingurinn verður eins og hver önnur eining í reiknilíkönum markaðshyggjunnar og hægt er að skipta honum út fyrir annan. En um leið býr listin yfir þjóðfélagslegu afli, að því leyti að hún er vettvangur útópískrar sýnar – innan sjálfstæðs sviðs hennar er unnt að bregða upp myndum af samfélagi sem grundvallast á öðrum lífsgildum en þjóðfélagið fyrir utan. Eins og Adorno kemst að orði í ritinu Ästhetische Theorie: „Í sérhverju ósviknu listaverki birtist eitthvað sem ekki er til“ (s. 127) – og þannig megnar listin ekki aðeins að bregða upp neikvæðri spegilmynd af þjóðfélaginu, heldur felur hún um leið í sér fyrirheit eða „draum“ um „heim þar sem hlutirnir væru öðruvísi“ („Ræða um ljóðlist og samfélag“, s. 191).

Í fagurfræði Adornos fléttast saman róttæk þjóðfélagsgagnrýni, söguspekileg ígrundun og ítarleg greining á þróun listrænna forma. Adorno andæfir þeirri viðteknu hugmynd að listaverkið sé vettvangur einstaklingsbundinnar tjáningar eða einkareynslu er sé ósnortin af mótun þjóðfélagsins. Fagurfræði hans er ekki síst sérstæð að því leyti, að hann leitar hins samfélagslega þáttar ekki í inntaki listaverksins eða glímu þess við umheiminn, heldur í sjálfu forminu. Þannig fléttar hann saman nákvæmri formgreiningu og efnishyggjulegri söguskoðun í margbrotinni túlkun á afurðum nútímamenningar og því sem kalla má „pólitík“ hins listræna forms.

Nokkrar heimildir:
  • Adorno, Theodor W. Ästhetische Theorie. Gesammelte Schriften, 7. bindi, ritstj. Rolf Tiedemann. Frankfurt am Main: Suhrkamp, 1997, s. 127.
  • ---. „Ist die Kunst heiter?“ Noten zur Literatur. Gesammelte Schriften, 11. bindi, ritstj. Rolf Tiedemann. Frankfurt am Main: Suhrkamp, 1997, s. 599-606.
  • --- og Max Horkheimer. „Menningariðnaður. Upplýsing sem múgsefjun“, þýð. Benedikt Hjartarson. Áfangar í kvikmyndafræðum, ritstj. Guðni Elísson. Reykjavík: Forlagið, 2003, s. 234-271.
  • ---. „Ræða um ljóðlist og samfélag“, þýð. Benedikt Hjartarson og Jón Bjarni Atlason. Ritið, 2/2011, s. 189-204.
  • Horkheimer, Max. „Traditionelle und kritische Theorie“, Traditionelle und kritische Theorie. Vier Aufsätze. Frankfurt am Main: Fischer Taschenbuch Verlag, 1970, s. 12-56.
  • Wiggershaus, Rolf. Die Frankfurter Schule. Geschichte. Theoretische Entwicklung. Politische Bedeutung. München: DTV, 1997.

Mynd:

Höfundur

aðjúnkt í almennri bókmenntafræði við HÍ

Útgáfudagur

27.12.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Benedikt Hjartarson. „Hver var Theodor W. Adorno og hvert var framlag hans til vísindanna?“ Vísindavefurinn, 27. desember 2011, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=61541.

Benedikt Hjartarson. (2011, 27. desember). Hver var Theodor W. Adorno og hvert var framlag hans til vísindanna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=61541

Benedikt Hjartarson. „Hver var Theodor W. Adorno og hvert var framlag hans til vísindanna?“ Vísindavefurinn. 27. des. 2011. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=61541>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Theodor W. Adorno og hvert var framlag hans til vísindanna?
Þýski heimspekingurinn, félagsfræðingurinn og menningarrýnirinn Theodor W. Adorno (1903-1969) er einn þeirra lykilhöfunda sem kenndir eru við Frankfurtar-skólann, en nafnið er tengt „Rannsóknarstofnun í félagsvísindum“ sem var stofnuð við Johann Wolfgang Goethe-háskólann í Frankfurt árið 1924. Meðlimir skólans fengust við breitt svið viðfangsefna í rannsóknum sínum og markmiðið var heildstæð greining á gerð og þróun borgaralegs nútímaþjóðfélags, þar sem leitast var við að lýsa flóknu sambandi hugmyndafræðilegra og efnahagslegra þátta. Meðal helstu meðlima Frankfurtar-skólans má auk Adornos nefna Herbert Marcuse, Erich Fromm, Leo Löwenthal og Max Horkheimer sem var lengst af forstöðumaður stofnunarinnar.

Fræðimennirnir sóttu að verulegu leyti til kenninga Karls Marx (auk skrifa fræðimanna eins og Nietzsches, Webers og Freuds) en settu um leið fram harða gagnrýni á ríkjandi söguskoðun og þjóðfélagskenningu marxismans, þar sem gengið var út frá hugmyndum um vélgengt samband grunns og yfirbyggingar og litið á menninguna sem hreina afurð efnahagslegra þátta. Með skrifum sínum lögðu þeir grunn að því sem þeir nefndu „gagnrýna kenningu“ um þjóðfélagið, en hugtakið markar ekki aðeins skýra aðgreiningu frá „hefðbundinni kenningu“, eins og kristallast í titli þekktrar greinar eftir Horkheimer frá 1937, heldur einnig frá hefð rétttrúnaðarmarxisma. Með rannsóknum sínum mótaði Frankfurtar-skólinn nýtt „viðmið félagsvísinda“, svo vitnað sé til orða Rolfs Wiggershaus (s. 9), og hann hefur haft mótandi áhrif á skrif fræðimanna er hafa unnið að efnishyggjulegri greiningu á menningu, fagurfræði og þjóðfélagsgerð innan ólíkra greina hug- og félagsvísinda.

Á meðal lykilverka Frankfurtar-skólans er ritið Díalektík upplýsingarinnar (Dialektik der Aufklärung) eftir Adorno og Max Horkheimer, sem fyrst var gefið út í Amsterdam 1947. Um er að ræða safn greina sem höfundarnir rituðu í útlegð rannsóknarstofnunarinnar í Bandaríkjunum. Ritið hefur að geyma greiningu á hugmyndalegum þverstæðum upplýsingarinnar og þeim framgangi alræðishyggju og menningariðnaðar sem Adorno og Horkheimer töldu einkenna þjóðfélagsgerð samtímans. Gagnrýni þeirra á díalektík upplýsingarinnar beinist að því hvernig verkefni hennar hafi á endanum umhverfst í nýja goðsögulega heimsmynd, þótt það hafi upphaflega beinst að því að frelsa manninn undan hindurvitnum og bábilju. Þeir benda á hvernig upplýsingin hafi grundvallast á drottnunarvaldi mannsins yfir náttúrunni og upphafningu óhlutbundinna hugmyndakerfa, sem á endanum hafi leitt til útþurrkunar einstaklingsins. Hér vegur þyngst framgangur markmiðsbundinnar rökvísi, þar sem skynsemin er undirskipuð kröfum um skilvirkni og hagnýti. Þessu ferli fylgir hlutgerving þjóðfélagsþegnsins þegar hann er undirskipaður æðri lögmálum vélgengis og skilvirkni, en kenningu sína um hlutgervingu byggja Adorno og Horkheimer í meginatriðum á skrifum ungverska marxistans Györgys Lukács. Á þessum forsendum reyna þeir að skýra þann framgang alræðisafla sem þeir töldu einkenna samtíma sinn, hvort heldur horft væri til þriðja ríkisins eða til umbyltingar menningarinnar á forsendum markaðslögmála, en í greiningu þeirra verða líkindin á milli pólitískra alræðissamfélaga og hins borgaralega markaðssamfélags sláandi. Í báðum tilvikum birtist hrun borgaralegrar siðmenningar sem umhverfist í nýja tegund villimennsku. Menningin hefur umhverfst í allsráðandi markaðskerfi þar sem þjóðfélagsþegnarnir verða neytendur eigin sjálfsmyndar og jafnvel frelsis – eins og þeir komast að orði í greiningu sinni á menningariðnaðinum, er eina frelsið sem þrífst utan kerfis neyslunnar „frelsi heimskingjans til að svelta“ (s. 243). Í borgaralegu markaðssamfélagi samtímans er hverju því sem ekki verður fellt undir lögmál sölu og gróða útskúfað og einstaklingurinn er ofurseldur valdi óræðra markaðslögmála á sama hátt og hann var áður á valdi myrkra og gerræðislegra afla sem holdgerðust í goðsögnum.

Theodor W. Adorno, til hægri, heilsar hér Max Horkheimer.

Eftir endurkomu sína til Frankfurt árið 1949 helgaði Adorno krafta sína í auknum mæli spurningum um bókmenntir og listir og lagði grunn að þeirri kenningu á sviði nútímafagurfræði sem hann er einna þekktastur fyrir. Hugleiðingar um fagurfræði voru raunar snar þáttur í skrifum Adornos allt frá því hann birti fyrstu skrif sín um nútímatónlist á fjórða áratugnum, en fagurfræðilegar hugmyndir sínar setti hann fram með skipulegustum hætti í ritinu Ästhetische Theorie (Fagurfræðileg kenning, 1970). Lykilhugmynd í fagurfræði Adornos snýr að því sem kalla má „lögmál neikvæðisins“ og er samofið hugmyndinni um sjálfstæði listarinnar. Að mati Adornos gegnir listin lykilhlutverki sem einskonar andhverfa borgaralegrar þjóðfélagsgerðar – listin myndar sjálfstætt svið sem er undanþegið ríkjandi kröfum um hagnýti og getur þannig þjónað sem athvarf til viðnáms og gagnrýni. Með skrifum sínum átti Adorno mikilvægan þátt í því að greina þá þjóðfélagslegu róttækni sem býr í formtilraunum og brotakenndri framsetningu módernískrar listsköpunar á 20. öldinni og horfir hann þar jafnt til verka tónskáldanna Arnolds Schönberg og Antons Webern og ritverka höfunda á borð við Paul Valéry, Samuel Beckett, Marcel Proust og Stefan George.

Hugmyndin um að listin lúti eigin lögmálum birtir þó ekki innbyggða eða „eðlislæga“ hneigð listsköpunar, heldur er hún afurð sögulegrar þróunar. Adorno fæst á gagnrýninn hátt við hefð fagurfræðilegrar umræðu innan þýskrar hughyggju, sem rekja má aftur til skrifa Karls Philipps Moritz, en hugmyndir um sjálfstæði eða „autónómíu“ listarinnar urðu að rótgrónum þætti í borgaralegri fagurfræði eftir að Kant vann úr þeim á kerfisbundinn hátt í ritinu Kritik der Urteilskraft (Gagnrýni dómgreindarinnar, 1790). Með iðnbyltingunni og þeirri breyttu þjóðfélagsgerð sem henni fylgdi tóku listamenn og menntamenn í auknum mæli að líta á listina sem rými þar sem hugveran léki frjáls, slyppi undan oki þjóðfélagsins og gæti endurheimt glataða einingu sína. Sú ímynd hins fagra sem tengist sjálfstæðu sviði listarinnar á þó vissulega sína skuggahlið, eins og Adorno fjallar um í skrifum sínum, því hún felur í sér að listin verður ekki aðeins rými frjálsrar sköpunar heldur um leið vitnisburður um nauðungina sem ríkir í þjóðfélaginu fyrir utan. Svo vitnað sé til greinar þar sem Adorno leitar svara við þeirri spurningu „hvort listin sé glaðvær“, þá er listin „eitthvað sem hefur flúið raunveruleikann en er engu að síður gegnsýrt af honum“, hún er í senn „glaðvær“, að því leyti að hún er vettvangur frjáls leiks, og þrungin alvöru, vegna þess að hún ber vott um þá samfélagslegu fjötra sem hún lokar á.

Frjáls hugveran sem birtist í listinni er ekki annað en draumsýn þeirrar hugveru sem er fangin í þéttriðnu neti firringar og hlutgervingar og er ofurseld lögmálum markaðarins. Innan hinnar síðkapítalísku þjóðfélagsgerðar hefur hugveran sömu stöðu og hver annar varningur – hlutgervingin felur í sér að einstaklingurinn verður eins og hver önnur eining í reiknilíkönum markaðshyggjunnar og hægt er að skipta honum út fyrir annan. En um leið býr listin yfir þjóðfélagslegu afli, að því leyti að hún er vettvangur útópískrar sýnar – innan sjálfstæðs sviðs hennar er unnt að bregða upp myndum af samfélagi sem grundvallast á öðrum lífsgildum en þjóðfélagið fyrir utan. Eins og Adorno kemst að orði í ritinu Ästhetische Theorie: „Í sérhverju ósviknu listaverki birtist eitthvað sem ekki er til“ (s. 127) – og þannig megnar listin ekki aðeins að bregða upp neikvæðri spegilmynd af þjóðfélaginu, heldur felur hún um leið í sér fyrirheit eða „draum“ um „heim þar sem hlutirnir væru öðruvísi“ („Ræða um ljóðlist og samfélag“, s. 191).

Í fagurfræði Adornos fléttast saman róttæk þjóðfélagsgagnrýni, söguspekileg ígrundun og ítarleg greining á þróun listrænna forma. Adorno andæfir þeirri viðteknu hugmynd að listaverkið sé vettvangur einstaklingsbundinnar tjáningar eða einkareynslu er sé ósnortin af mótun þjóðfélagsins. Fagurfræði hans er ekki síst sérstæð að því leyti, að hann leitar hins samfélagslega þáttar ekki í inntaki listaverksins eða glímu þess við umheiminn, heldur í sjálfu forminu. Þannig fléttar hann saman nákvæmri formgreiningu og efnishyggjulegri söguskoðun í margbrotinni túlkun á afurðum nútímamenningar og því sem kalla má „pólitík“ hins listræna forms.

Nokkrar heimildir:
  • Adorno, Theodor W. Ästhetische Theorie. Gesammelte Schriften, 7. bindi, ritstj. Rolf Tiedemann. Frankfurt am Main: Suhrkamp, 1997, s. 127.
  • ---. „Ist die Kunst heiter?“ Noten zur Literatur. Gesammelte Schriften, 11. bindi, ritstj. Rolf Tiedemann. Frankfurt am Main: Suhrkamp, 1997, s. 599-606.
  • --- og Max Horkheimer. „Menningariðnaður. Upplýsing sem múgsefjun“, þýð. Benedikt Hjartarson. Áfangar í kvikmyndafræðum, ritstj. Guðni Elísson. Reykjavík: Forlagið, 2003, s. 234-271.
  • ---. „Ræða um ljóðlist og samfélag“, þýð. Benedikt Hjartarson og Jón Bjarni Atlason. Ritið, 2/2011, s. 189-204.
  • Horkheimer, Max. „Traditionelle und kritische Theorie“, Traditionelle und kritische Theorie. Vier Aufsätze. Frankfurt am Main: Fischer Taschenbuch Verlag, 1970, s. 12-56.
  • Wiggershaus, Rolf. Die Frankfurter Schule. Geschichte. Theoretische Entwicklung. Politische Bedeutung. München: DTV, 1997.

Mynd:...