Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var György Lukács og fyrir hvað er hann þekktur?

Benedikt Hjartarson

Ungverski heimspekingurinn og bókmenntafræðingurinn György eða Georg Lukács (1885-1971) var einn áhrifamesti og umdeildasti fræðimaður marxískrar hefðar á tuttugustu öld. Þekktastur er Lukács fyrir endurskoðun sína á undirstöðukenningum marxískrar þjóðfélagsgreiningar, kenningar sínar um skáldsöguna og skrif sín um raunsæishefðina í bókmenntum.

Fyrstu greinar Lukács um bókmenntir birtust á ungversku, en fyrsta lykilrit hans, Die Seele und die Formen (Sál og form), birtist á þýsku 1911. Með útgáfu verksins rötuðu skrif Lukács inn í umhverfi sem þau voru að hluta til sprottin úr, enda má hér greina skýr ummerki þeirrar hefðar lífheimspeki sem Lukács kynntist í Berlín á árunum 1909-1910, þegar hann var meðal annars nemandi heimspekingsins og félagsfræðingsins Georgs Simmel. Verkið er skýr birtingarmynd þeirrar vitundar um kreppu borgaralegrar menningar sem var áberandi á meðal evrópskra menntamanna á upphafsárum tuttugustu aldar. Titillinn skírskotar til viðvarandi átaka á milli innra lífs og formsköpunar, þar sem maðurinn leitast árangurslaust við að finna sínu innra lífi tjáningarform. Verkið kallast á við þekkta greiningu Simmels á „harmleik menningarinnar“, þar sem lífið leitar stöðugt í ný form, sem það síðan brýtur niður til að leita annarra.

Árið 1916 kom út ritið Theorie des Romans (Kenning um skáldsöguna). Þar fjallar Lukács um þróunarferil skáldsögunnar, sem hann rekur allt frá söguljóðum Hómers, um verk Dantes og Cervantes, til skáldsagna Goethes, Flauberts og Dostojevskijs. Verkinu lýsti Lukács síðar sem afurð „rómantísks andkapítalisma“ er vísaði veginn til marxískrar fagurfræði og söguskoðunar í síðari verkum sínum. Að mati Lukács er skáldsagan knúin áfram af einskonar heimþrá, söguhetjurnar eru leitendur sem reyna að fóta sig í veröld sem er orðin þeim framandi. Líf mannsins í heiminum er orðið að ráðgátu og jafnvel áþján, líkt og endurspeglast með skýrum hætti í lífi Dons Kíkóta, sem Lukács lítur á sem einskonar erkitýpu hinnar nýju söguhetju, er reynir árangurslaust að sætta sína innri köllun og umheiminn. Kyrrstæð heimsmynd söguljóðsins hefur vikið fyrir ólgandi heimsmynd nútímans og þrotlausri leit söguhetjunnar að samastað í sundruðum heimi.

Hin marxísku hvörf á ferlinum verða þegar Lukács gengur í Ungverska kommúnistaflokkinn árið 1918, á tímum mikils pólitísks umróts. Eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar og hrun Habsborgarveldisins árið 1918 var Ungverska alþýðulýðveldið stofnað en í marsmánuði 1919 stofnuðu sósíaldemókratar og kommúnistar Ráðsstjórnarlýðveldi í landinu og fékk Lukács stöðu Alþýðufulltrúa menningar- og menntamála. Ráðsstjórnarlýðveldið var brotið á bak aftur eftir nokkra mánuði og Lukács flúði til Vínarborgar. Í framhaldinu helgaði hann krafta sína hinni kommúnísku baráttu, auk þess sem hann birti nokkrar pólitískar greinar og vann að útgáfu síns áhrifamesta rits.

Með útgáfu Geschichte und Klassenbewußtsein (Saga og stéttarvitund) árið 1923 varð Lukács einn þeirra lykilhöfunda sem lögðu grunn að fræðahefð sem oft er kennd við vestrænan eða gagnrýninn marxisma. Áhrif verksins má meðal annars rekja til skrifa þeirra höfunda sem kenndir eru við Frankfurt-skólann eða gagnrýna kenningu, þar á meðal Theodors W. Adorno, Herberts Marcuse, Jürgens Habermas og Peters Bürger. Hugtakið vestrænn marxismi vísar til aðgreiningar þessarar fræðahefðar frá rétttrúnaðarmarxisma, sem byggði á kreddufastri trú á þá söguskoðun og þjóðfélagsgreiningu sem var ríkjandi í Sovétríkjunum. Í ritinu leggur Lukács megináherslu á að hverfa aftur til uppruna hinnar marxísku aðferðar og sækir í því skyni einkum til Hegels.

Sérstaða verksins felst í samþættingu nýkantisma, lífheimspeki og marxískra fræða, sem er fléttað saman í greiningu á borgaralegri þjóðfélagsgerð. Í stað þess að einblína á samhengi stéttaátaka beinir Lukács sjónum að menningarlegu ástandi hins borgaralega nútímasamfélags. Gagnrýni hans snýr að því ferli rökvæðingar sem þýski félagsfræðingurinn Max Weber hafði fjallað um í skrifum sínum. Lukács lýsir því hvernig rökvæðingin leiðir til verkaskiptingar, sérhæfingar, stéttskiptingar og firringar, þar sem einstaklingnum er fengið skýrt afmarkað hlutverk í framleiðslukerfinu og skortir alla heildarmynd af þjóðfélaginu. Þessu ferli, sem leiðir til þess að einstaklingurinn er metinn alfarið út frá hlutverki sínu innan framleiðsluferlisins og hægt er að skipta honum út fyrir annan, lýsti Lukács sem hlutgervingu. Niðurstaðan var að hans mati þjóðfélagsgerð sem er í eðli sínu alræðissinnuð og teygir sig inn á öll svið þjóðfélags og menningar. Gildi verksins felst ekki síst í því hvernig Lukács losar um stéttarhugtakið og lítur á ástand firringarinnar sem einskonar lífsskilyrði mannsins í borgaralegu markaðsþjóðfélagi. Maðurinn lifir líkt og í búri, fanginn í hugmyndafræði sem útilokar skilning hans á eigin stöðu. Endurskoðun Lukács á hinni marxísku hefð varð fljótt fyrir harkalegri gagnrýni og Lukács átti eftir að fordæma þetta æskuverk sitt nokkrum sinnum á síðari árum.

Lukács flúði Þýskaland eftir að nasistar komust til valda árið 1933 og hélt til Moskvu, þar sem hann sendi í kjölfarið frá sér nokkrar lykilgreinar um raunsæishefðina í bókmenntum. Ritgerðir hans frá fjórða áratugnum áttu mikilvægan þátt í mótun marxískrar fagurfræði, en þær liggja að mörgu leyti á sérstæðum mörkum, þar sem Lukács tekur í senn gagnrýna afstöðu til þeirra strauma framsækinna nútímabókmennta sem oft eru kenndir við módernisma og þeirra krafna um sósíalískt raunsæi sem voru ríkjandi innan Sovétríkjanna. Gagnrýni Lukács á módernismann beindist að verkum höfunda eins og Franz Kafka, Samuels Beckett og James Joyce, sem hann taldi vera skilgetið afkvæmi borgaralegrar menningar á hnignunarskeiði, er hefði gefið sig heimsmynd upplausnar og firringar á vald. Gegn þessum bókmenntum tefldi Lukács hefð „hins mikla raunsæis“, en helsti fulltrúi hennar í samtímanum var að hans mati Thomas Mann. Frá sjónarhorni Lukács lá hefð hins „mikla raunsæis“ um verk borgaralegra höfunda, sem höfðu megnað að gefa skýra heildarmynd af þróun þjóðfélagsins, óháð þeim pólitísku skoðunum sem lágu verkunum til grundvallar. Lykillinn að hlutlægri speglun þjóðfélagsins var að mati Lukács sjálf aðferð raunsæisins, sem leiddi til þess að verkin gátu sigrast á stéttarstöðu höfundarins og gefið sanna mynd af þjóðfélaginu – ólíkt verkum hinna módernísku höfunda, sem Lukács taldi ófær um að sjá í gegnum hugmyndafræðilega hulu borgarastéttarinnar. Eitt þekktasta verk Lukács um skáldsöguna og tengsl hennar við hefð raunsæisins, Der historische Roman (Sögulega skáldsagan), kom út árið 1937.

Harðasta gagnrýni Lukács á módernismann kom fram í svokallaðri „expressjónismadeilu“, sem fór fram á síðum tímaritsins Das Wort á árunum 1937-1938. Tekist var á um afstöðuna til expressjónismans, sem hafði verið áberandi í þýsku bókmennta- og menningarlífi áratugina á undan, en deilendurnir litu ýmist á fagurfræði stefnunnar sem mikilvægt framlag til gagnrýni á borgaralegt nútímaþjóðfélag eða – líkt og Lukács – sem birtingarmynd andrökhyggju er hefði leitt inn í nasismann. Á meðal höfunda sem brugðust til varnar fyrir expressjónismann voru Ernst Bloch, Herwarth Walden og Bertolt Brecht.

Frá Búdapest þar sem Lukács sendi frá sér hið umdeilda rit Tortíming skynseminnar (Die Zerstörung der Vernunft).

Lukács sneri aftur til Búdapestar 1944 og fékk prófessorsstöðu í fagurfræði og menningarsögu við Búdapestarháskóla ári síðar. Á næstu árum sendi hann frá sér fjölda ritgerða, auk umdeildasta rits síns, Die Zerstörung der Vernunft (Tortíming skynseminnar). Í þessu riti frá 1954 dregur Lukács upp mynd af órofa hefð borgaralegrar andrökhyggju, sem hann taldi undanfara nasismans. Lukács rekur þessa hefð frá skrifum Alfreds Rosenberg um verk höfunda á borð við Max Weber, Georg Simmel og Wilhelm Dilthey, aftur til heimspeki Nietzsches og Schellings. Andstæðupólarnir eru skýrir: Lukács teflir saman upplýsingunni og hefð andupplýsingar er hafi grafið undan þeirri skynsemi sem mannsæmandi þjóðfélag verði að byggja á. Ritið er harkalegt í gagnrýni sinni og beinist að hluta til gegn fyrri áhrifavöldum Lukács, sem hann lýsir sem málpípum heimsvaldastefnunnar.

Eftir uppreisnina í Ungverjalandi 1956 tók Lukács sæti sem menningarmálaráðherra í stjórn Imres Nagy. Eftir að Sovétmenn börðu uppreisnina niður með hervaldi nokkrum mánuðum síðar var Lukács sendur í útlegð til Rúmeníu. Hann sneri aftur til Búdapestar 1957 og við tók tímabil vægðarlausrar sjálfsgagnrýni, þegar Lukács sá sig knúinn til að afturkalla mörg af sínum fyrri skrifum. Á lokaskeiði höfundarferilsins vann Lukács meðal annars að viðamiklu riti um fagurfræði, sem hann hafði unnið að með hléum um áratuga skeið, auk þess sem hann lagði grunn að kenningum um marxíska verufræði og siðfræði.

Nokkrar heimildir:
  • Ástráður Eysteinsson. „Baráttan um raunsæið. Um módernisma, raunsæi og hefð“. Umbrot. Bókmenntir og nútími. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1999, s. 30-55.
  • Bahr, Ehrhard. Georg Lukács. Berlín: Colloquium, 1970.
  • Dannemann, Rüdiger. Georg Lukács zur Einführung. Hamborg: Junius, 1997.
  • Jay, Martin. Marxism and Totality. The Adventures of a Concept from Lukács to Habermas. Berkeley, Los Angeles: University of California Press, 1984.
  • Schmitt, Hans-Jürgen (ritstj.). Der Streit mit Georg Lukács. Frankfurt am Main: Suhrkamp, 1978.
  • Vésteinn Lúðvíksson. „Georg Lukács og hnignun raunsæisins“. Tímarit Máls og menningar, 3-4/1970, s. 206-268.

Myndir:

Höfundur

aðjúnkt í almennri bókmenntafræði við HÍ

Útgáfudagur

24.6.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Benedikt Hjartarson. „Hver var György Lukács og fyrir hvað er hann þekktur?“ Vísindavefurinn, 24. júní 2011, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60100.

Benedikt Hjartarson. (2011, 24. júní). Hver var György Lukács og fyrir hvað er hann þekktur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60100

Benedikt Hjartarson. „Hver var György Lukács og fyrir hvað er hann þekktur?“ Vísindavefurinn. 24. jún. 2011. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60100>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var György Lukács og fyrir hvað er hann þekktur?
Ungverski heimspekingurinn og bókmenntafræðingurinn György eða Georg Lukács (1885-1971) var einn áhrifamesti og umdeildasti fræðimaður marxískrar hefðar á tuttugustu öld. Þekktastur er Lukács fyrir endurskoðun sína á undirstöðukenningum marxískrar þjóðfélagsgreiningar, kenningar sínar um skáldsöguna og skrif sín um raunsæishefðina í bókmenntum.

Fyrstu greinar Lukács um bókmenntir birtust á ungversku, en fyrsta lykilrit hans, Die Seele und die Formen (Sál og form), birtist á þýsku 1911. Með útgáfu verksins rötuðu skrif Lukács inn í umhverfi sem þau voru að hluta til sprottin úr, enda má hér greina skýr ummerki þeirrar hefðar lífheimspeki sem Lukács kynntist í Berlín á árunum 1909-1910, þegar hann var meðal annars nemandi heimspekingsins og félagsfræðingsins Georgs Simmel. Verkið er skýr birtingarmynd þeirrar vitundar um kreppu borgaralegrar menningar sem var áberandi á meðal evrópskra menntamanna á upphafsárum tuttugustu aldar. Titillinn skírskotar til viðvarandi átaka á milli innra lífs og formsköpunar, þar sem maðurinn leitast árangurslaust við að finna sínu innra lífi tjáningarform. Verkið kallast á við þekkta greiningu Simmels á „harmleik menningarinnar“, þar sem lífið leitar stöðugt í ný form, sem það síðan brýtur niður til að leita annarra.

Árið 1916 kom út ritið Theorie des Romans (Kenning um skáldsöguna). Þar fjallar Lukács um þróunarferil skáldsögunnar, sem hann rekur allt frá söguljóðum Hómers, um verk Dantes og Cervantes, til skáldsagna Goethes, Flauberts og Dostojevskijs. Verkinu lýsti Lukács síðar sem afurð „rómantísks andkapítalisma“ er vísaði veginn til marxískrar fagurfræði og söguskoðunar í síðari verkum sínum. Að mati Lukács er skáldsagan knúin áfram af einskonar heimþrá, söguhetjurnar eru leitendur sem reyna að fóta sig í veröld sem er orðin þeim framandi. Líf mannsins í heiminum er orðið að ráðgátu og jafnvel áþján, líkt og endurspeglast með skýrum hætti í lífi Dons Kíkóta, sem Lukács lítur á sem einskonar erkitýpu hinnar nýju söguhetju, er reynir árangurslaust að sætta sína innri köllun og umheiminn. Kyrrstæð heimsmynd söguljóðsins hefur vikið fyrir ólgandi heimsmynd nútímans og þrotlausri leit söguhetjunnar að samastað í sundruðum heimi.

Hin marxísku hvörf á ferlinum verða þegar Lukács gengur í Ungverska kommúnistaflokkinn árið 1918, á tímum mikils pólitísks umróts. Eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar og hrun Habsborgarveldisins árið 1918 var Ungverska alþýðulýðveldið stofnað en í marsmánuði 1919 stofnuðu sósíaldemókratar og kommúnistar Ráðsstjórnarlýðveldi í landinu og fékk Lukács stöðu Alþýðufulltrúa menningar- og menntamála. Ráðsstjórnarlýðveldið var brotið á bak aftur eftir nokkra mánuði og Lukács flúði til Vínarborgar. Í framhaldinu helgaði hann krafta sína hinni kommúnísku baráttu, auk þess sem hann birti nokkrar pólitískar greinar og vann að útgáfu síns áhrifamesta rits.

Með útgáfu Geschichte und Klassenbewußtsein (Saga og stéttarvitund) árið 1923 varð Lukács einn þeirra lykilhöfunda sem lögðu grunn að fræðahefð sem oft er kennd við vestrænan eða gagnrýninn marxisma. Áhrif verksins má meðal annars rekja til skrifa þeirra höfunda sem kenndir eru við Frankfurt-skólann eða gagnrýna kenningu, þar á meðal Theodors W. Adorno, Herberts Marcuse, Jürgens Habermas og Peters Bürger. Hugtakið vestrænn marxismi vísar til aðgreiningar þessarar fræðahefðar frá rétttrúnaðarmarxisma, sem byggði á kreddufastri trú á þá söguskoðun og þjóðfélagsgreiningu sem var ríkjandi í Sovétríkjunum. Í ritinu leggur Lukács megináherslu á að hverfa aftur til uppruna hinnar marxísku aðferðar og sækir í því skyni einkum til Hegels.

Sérstaða verksins felst í samþættingu nýkantisma, lífheimspeki og marxískra fræða, sem er fléttað saman í greiningu á borgaralegri þjóðfélagsgerð. Í stað þess að einblína á samhengi stéttaátaka beinir Lukács sjónum að menningarlegu ástandi hins borgaralega nútímasamfélags. Gagnrýni hans snýr að því ferli rökvæðingar sem þýski félagsfræðingurinn Max Weber hafði fjallað um í skrifum sínum. Lukács lýsir því hvernig rökvæðingin leiðir til verkaskiptingar, sérhæfingar, stéttskiptingar og firringar, þar sem einstaklingnum er fengið skýrt afmarkað hlutverk í framleiðslukerfinu og skortir alla heildarmynd af þjóðfélaginu. Þessu ferli, sem leiðir til þess að einstaklingurinn er metinn alfarið út frá hlutverki sínu innan framleiðsluferlisins og hægt er að skipta honum út fyrir annan, lýsti Lukács sem hlutgervingu. Niðurstaðan var að hans mati þjóðfélagsgerð sem er í eðli sínu alræðissinnuð og teygir sig inn á öll svið þjóðfélags og menningar. Gildi verksins felst ekki síst í því hvernig Lukács losar um stéttarhugtakið og lítur á ástand firringarinnar sem einskonar lífsskilyrði mannsins í borgaralegu markaðsþjóðfélagi. Maðurinn lifir líkt og í búri, fanginn í hugmyndafræði sem útilokar skilning hans á eigin stöðu. Endurskoðun Lukács á hinni marxísku hefð varð fljótt fyrir harkalegri gagnrýni og Lukács átti eftir að fordæma þetta æskuverk sitt nokkrum sinnum á síðari árum.

Lukács flúði Þýskaland eftir að nasistar komust til valda árið 1933 og hélt til Moskvu, þar sem hann sendi í kjölfarið frá sér nokkrar lykilgreinar um raunsæishefðina í bókmenntum. Ritgerðir hans frá fjórða áratugnum áttu mikilvægan þátt í mótun marxískrar fagurfræði, en þær liggja að mörgu leyti á sérstæðum mörkum, þar sem Lukács tekur í senn gagnrýna afstöðu til þeirra strauma framsækinna nútímabókmennta sem oft eru kenndir við módernisma og þeirra krafna um sósíalískt raunsæi sem voru ríkjandi innan Sovétríkjanna. Gagnrýni Lukács á módernismann beindist að verkum höfunda eins og Franz Kafka, Samuels Beckett og James Joyce, sem hann taldi vera skilgetið afkvæmi borgaralegrar menningar á hnignunarskeiði, er hefði gefið sig heimsmynd upplausnar og firringar á vald. Gegn þessum bókmenntum tefldi Lukács hefð „hins mikla raunsæis“, en helsti fulltrúi hennar í samtímanum var að hans mati Thomas Mann. Frá sjónarhorni Lukács lá hefð hins „mikla raunsæis“ um verk borgaralegra höfunda, sem höfðu megnað að gefa skýra heildarmynd af þróun þjóðfélagsins, óháð þeim pólitísku skoðunum sem lágu verkunum til grundvallar. Lykillinn að hlutlægri speglun þjóðfélagsins var að mati Lukács sjálf aðferð raunsæisins, sem leiddi til þess að verkin gátu sigrast á stéttarstöðu höfundarins og gefið sanna mynd af þjóðfélaginu – ólíkt verkum hinna módernísku höfunda, sem Lukács taldi ófær um að sjá í gegnum hugmyndafræðilega hulu borgarastéttarinnar. Eitt þekktasta verk Lukács um skáldsöguna og tengsl hennar við hefð raunsæisins, Der historische Roman (Sögulega skáldsagan), kom út árið 1937.

Harðasta gagnrýni Lukács á módernismann kom fram í svokallaðri „expressjónismadeilu“, sem fór fram á síðum tímaritsins Das Wort á árunum 1937-1938. Tekist var á um afstöðuna til expressjónismans, sem hafði verið áberandi í þýsku bókmennta- og menningarlífi áratugina á undan, en deilendurnir litu ýmist á fagurfræði stefnunnar sem mikilvægt framlag til gagnrýni á borgaralegt nútímaþjóðfélag eða – líkt og Lukács – sem birtingarmynd andrökhyggju er hefði leitt inn í nasismann. Á meðal höfunda sem brugðust til varnar fyrir expressjónismann voru Ernst Bloch, Herwarth Walden og Bertolt Brecht.

Frá Búdapest þar sem Lukács sendi frá sér hið umdeilda rit Tortíming skynseminnar (Die Zerstörung der Vernunft).

Lukács sneri aftur til Búdapestar 1944 og fékk prófessorsstöðu í fagurfræði og menningarsögu við Búdapestarháskóla ári síðar. Á næstu árum sendi hann frá sér fjölda ritgerða, auk umdeildasta rits síns, Die Zerstörung der Vernunft (Tortíming skynseminnar). Í þessu riti frá 1954 dregur Lukács upp mynd af órofa hefð borgaralegrar andrökhyggju, sem hann taldi undanfara nasismans. Lukács rekur þessa hefð frá skrifum Alfreds Rosenberg um verk höfunda á borð við Max Weber, Georg Simmel og Wilhelm Dilthey, aftur til heimspeki Nietzsches og Schellings. Andstæðupólarnir eru skýrir: Lukács teflir saman upplýsingunni og hefð andupplýsingar er hafi grafið undan þeirri skynsemi sem mannsæmandi þjóðfélag verði að byggja á. Ritið er harkalegt í gagnrýni sinni og beinist að hluta til gegn fyrri áhrifavöldum Lukács, sem hann lýsir sem málpípum heimsvaldastefnunnar.

Eftir uppreisnina í Ungverjalandi 1956 tók Lukács sæti sem menningarmálaráðherra í stjórn Imres Nagy. Eftir að Sovétmenn börðu uppreisnina niður með hervaldi nokkrum mánuðum síðar var Lukács sendur í útlegð til Rúmeníu. Hann sneri aftur til Búdapestar 1957 og við tók tímabil vægðarlausrar sjálfsgagnrýni, þegar Lukács sá sig knúinn til að afturkalla mörg af sínum fyrri skrifum. Á lokaskeiði höfundarferilsins vann Lukács meðal annars að viðamiklu riti um fagurfræði, sem hann hafði unnið að með hléum um áratuga skeið, auk þess sem hann lagði grunn að kenningum um marxíska verufræði og siðfræði.

Nokkrar heimildir:
  • Ástráður Eysteinsson. „Baráttan um raunsæið. Um módernisma, raunsæi og hefð“. Umbrot. Bókmenntir og nútími. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1999, s. 30-55.
  • Bahr, Ehrhard. Georg Lukács. Berlín: Colloquium, 1970.
  • Dannemann, Rüdiger. Georg Lukács zur Einführung. Hamborg: Junius, 1997.
  • Jay, Martin. Marxism and Totality. The Adventures of a Concept from Lukács to Habermas. Berkeley, Los Angeles: University of California Press, 1984.
  • Schmitt, Hans-Jürgen (ritstj.). Der Streit mit Georg Lukács. Frankfurt am Main: Suhrkamp, 1978.
  • Vésteinn Lúðvíksson. „Georg Lukács og hnignun raunsæisins“. Tímarit Máls og menningar, 3-4/1970, s. 206-268.

Myndir:...