Kenningin í Parísarhandritunum hvílir á tvenns konar meginforsendum, annars vegar á heimspekilegri manneðlishugmynd sem byggist á ákveðinni túlkun á almennustu þáttum mannlegrar vinnu, hins vegar á tilteknum sögulegum staðreyndum um vinnuhætti auðmagnsskipulagsins. Manneðlið er að hyggju Marx ekki tilbúin staðreynd, safn nauðsynlegra eiginleika, flokkur sem einstaklingarnir eru svo felldir undir. Vissulega er maðurinn hluti náttúrunnar, en með fyrirhöfn, ef svo má segja, því aðeins að hann leggi vinnu af mörkum: Hann setur sér mark, ákveðna umbreytingu náttúrulegra verunda til nytsamlegs horfs, svo að hann fái svalað þörfum sínum. Þetta mætti nefna nytjahorf vinnunnar. En tilgengi vinnuathafna mannsins byggist á forsendum um orsakasambönd og hæfni mannsins til að halda hvers kyns tilfinningum, löngunum eða ytra áreiti í skefjum, svo að hann fái hagað athöfnum sínum á lögbundinn hátt til samræmis við markmið sem hann setur sér sjálfur; hann getur ekki verið eitt með löngun sinni eins og dýrin þegar þau uppfylla sínar óyfirveguðu þarfir. Raunar er þessi hæfni (eða þroski) ekki aðeins forsenda vinnunnar, heldur einnig afsprengi hennar. Með vinnu sinni ummyndar maðurinn því ekki aðeins “ytri” náttúruleg viðföng vinnunnar, heldur og sjálfan sig og sitt eðli, sína “innri” náttúru. Þetta séreðli, eða mennskuhorf vinnunnar, má til einföldunar greina í tvennt: annars vegar bætir hinn vinnandi maður þekkingu sína og færni, vex að þroska og manndómi; hins vegar er vinnan, þessi sérkennilegi háttur mannsins á því að afla sér viðurværis og komast af sem náttúruvera, jafnframt ákveðinn háttur hans á því að skapa og endurskapa afstæður sínar til annarra manna; vinnan byggir ævinlega á einhverju þjóðfélagslegu skipulagi og forsendum.
Firring vinnunnar
Í París tók Marx að lesa þjóðhagfræði, en taldi fræðilegum aðferðum hennar ábótavant í grundvallaratriðum og niðurstöðurnar því ófullnægjandi. Þjóðhagfræðin fjallaði á næsta gagnrýnislausan hátt um þær mikilvægu staðreyndir sem fyrir henni verða, ekki síst einkaeign á framleiðslutækjum og afurðum. Afhjúpun Marx á firringu vinnunnar er jafnframt gagnrýni þjóðhagfræðinnar, og leiðir í ljós hvernig hinar dauðu staðreyndir hagfræðinganna eru raunar sögulega sprottnar mannasetningar en ekki tímalaus lögbundin sannindi. Til að byrja með velur hann ósköp einfalda og óumdeilda staðreynd úr forða þjóðhagfræðinnar: Verkamaðurinn á ekki afurð vinnu sinnar, hún rennur til auðmagnsins. Verkamaðurinn skapar verðmæti, “reisir hallir, en býr í hreysi”. Þetta má orða svo að
Firringarkenning Marx býður heim margháttuðum og svo alvarlegum aðfinnslum að hún getur vart talist nýtileg í greiningu á samtímanum. Ljóst virðist að í kenningunni er firna mikið undir. Sköpunargeta mannsins er hugsuð í ljósi vinnunnar og af því leiðir að framleiðslugetan verður eins konar myndhverfing sköpunargetunnar. Þá er tilgengislíkanið háð orsakasamböndum og þar með verufræði sem fær vart staðist nánari athugun; hún virðist auk þess stangast á við mikilsverð atriði í verufræðilegri afstöðu Marx að öðru leyti. Vinnuna skoðar Marx loks sem eins konar lykil félagslegra afstæðna á hverjum tíma, en einnig breytilegt frumatriði sem hnikar þeim afstæðum til á löngum tíma; ekkert af þessu stenst gagnrýni. Á hinn bóginn hafa hugmyndir Marx lengi reynst frjó uppspretta fræðilegra umræðna og nýsköpunar, og þær voru tvímælalaust stórt skref til gagnrýnins, sögulegs skilnings á afstæðum sem mönnum hafði verið tamt að náttúrugera eða hlutgera. Og raunar eru þeir fullmargir sem gera það enn í dag. Heimildir
Marx, Æskuverk. Úr Þýsk-frönskum árbókum, með inngangi og skýringum eftir Ottó Másson, Hið íslenska bókmenntafélag, [væntanleg haustið 2002]. Aðdragandi Parísarhandritanna. Marx, Parísarhandritin, ýmsar útg. Marx, Auðmagnið, 1. bindi, ýmsar útg. Ottó Másson, Vinna og frelsi. Um samhengið í hugsun Karls Marx, BA-ritgerð í heimspeki, HÍ 1997. Einkum kaflar 3.2-3.3. C. J. Arthur, Dialectics of Labour, Oxford 1986. Einstaklega vönduð greining á Parísarhandritum Marx. István Mészáros, Marx’s Theory of Alienation, London 1975 [4. útg.]. (Ítarleg og gagnleg framsetning á firringarkenningunni, rituð í fullvissu um að Marx hafi ævinlega og allsstaðar rétt fyrir sér). Cornelius Castoriadis, The Imaginary Institution of Society, Oxford 1987. (1. hluti bókarinnar er einhver beittasta gagnrýni sem fram hefur komið á arfleifð Marx).
Mynd af Karl Marx: Lucidcafé.com
Mynd úr kvikmyndinni Modern Times: imdb.com (Internet Movie Database)