Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Max Weber og hvert var framlag hans til félagsvísinda?

Þorbjörn Broddason

Þýski félagsfræðingurinn Max Weber fæddist 2. apríl 1864 og lést úr lungnabólgu 14. júní 1920. Þrátt fyrir tiltölulega skamma ævi er vísindalegt framlag Webers slíkt að hann telst, ásamt Karli Marx og Émile Durkheim, einn merkasti frumkvöðull nútímafélagsvísinda. Skrif hans spanna vítt svið og hafa, auk risahlutverks hans innan félagsfræðinnar, auðgað hugsun og eflt þekkingu á vettvangi hagfræði, lögfræði, trúarbragðafræði, stjórnmálafræði og sagnfræði.

Í glímunni við grundvallarspurningar, hvort heldur um eðli þjóðfélagsins eða forsendur vísindalegrar hugsunar og aðferðar, leita nútímafélagsfræðingar beint og óbeint, meðvitað og ómeðvitað, í arf Webers. Styrkur hans lá í óhemjubreiðum þekkingargrunni, hæfileikanum til að greina margslungna áhrifaþætti í stað einfaldra skýringa, og ástríðufullri vinnusemi; glímdi hann þó við erfiðan sjúkdóm, sem dró mjög úr vinnuþreki hans um árabil og gerði hann raunar óvinnufæran um nærri 4 ára skeið.

Eitt þekktasta rit Webers er Siðfræði mótmælenda og andi auðhyggjunnar (Die protestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus) (1905). Þar tekst hann á hendur að sýna hvernig hin meinta andúð strangtrúarmótmælenda á söfnun jarðneskra gæða hafi í raun verið hvati auðsöfnunar og kveikja auðhyggjunnar. Að mati Webers varð tilkoma auðhyggjunnar í Evrópu ekki eingöngu skýrð með tilvísun í efnahagsleg öfl eða tækniframfarir heldur átti hún að verulegu leyti rætur í guðfræði Kalvíns þar sem höfuðatriði var sáluhjálp í krafti útvalningar.

Þótt ekki hafi skort gagnrýni á þessa bók þá er hún enn, meira en hundrað árum eftir útkomu sína, glæsilegur vitnisburður um hið varanlega erindi, sem kenningar Webers eiga við félagsvísindi okkar daga. Eftir útkomu Siðfræði mótmælenda tók Weber upp þráðinn að nýju og liggur eftir hann röð ritgerða um félagsfræði trúarbragða. Hann féll hins vegar frá í miðjum klíðum þegar hann var búinn að skrifa um hin fornu trúarbrögð Kínverja, Indverja og gyðinga en átti eftir að fjalla á sambærilegan hátt um íslam og frumkristni.

Lykilhugtaki, sem rakið er til Webers og hann nefndi Idealtypus, má lýsa sem verkfæri, sem félagsfræðingar hafa æ síðan nýtt sér og grípa til daglega. Idealtypus, sem á íslensku hefur fengið heitið kjörmynd, má lýsa á þessa leið: Kjörmynd er hugarsmíð um tiltekið fyrirbæri, sem rannsakandinn kemur sér upp og hefur síðan sem viðmið til að ganga úr skugga um samsvörun eða frávik í raunverulegum tilvikum. Mikilvægt er að hafa í huga að kjörmynd vísar alls ekki til siðferðilegra gilda. Við getum dregið upp kjörmynd af fyrirbæri, sem er okkur mjög á móti skapi. Einnig er brýnt að gera sér grein fyrir að raunveruleikinn (raunmyndin) getur naumast nokkurn tíma samsvarað kjörmyndinni fullkomlega.

Weber lét mjög til sín taka á sviði félagsfræði stjórnmála. Í ritgerðinni Starf stjórnmálamannsins (Politik als Beruf) (1919), sem upphaflega var flutt sem annar af tveimur fyrirlestrum yfir stúdentum í München byltingarveturinn 1918-1919, skilgreinir hann ríkið á eftirfarandi hátt:
Ríki er það samfélag manna, sem gerir viðurkennda kröfu til einkaréttar til að beita réttmætu ofbeldi. Og krafan á við um tiltekið svæði; það er hluti af skilgreiningunni (Weber, 1919/1973/1996 (þýðing Helga Skúla Kjartanssonar)).
Þessi skilgreining er síðan óaðskiljanlegur þáttur félagsfræðilegrar hugsunar á Vesturlöndum. Weber skilgreindi vald sem hæfileikann til að koma vilja sínum til leiðar óháð vilja annarra. Honum var hins vegar manna best ljóst að mannleg samskipti byggjast sjaldnast á nakinni líkamlegri þvingun heldur miklu fremur á gagnkvæmum skilningi og samþykki. Hann lýsti þrem kjörmyndum viðurkennds valds, sem æ síðan hafa verið stjórnmálafræðingum og félagsfræðingum hugfólgnar. Ekki þarf þó að orðlengja um að erfitt gæti reynst að finna raunmynd, sem svaraði fullkomlega til einhverrar þessara þriggja kjörmynda.

Í fyrsta lagi má nefna náðarvald. Slíkt vald er bundið tilteknum einstaklingi, sem blæs fylgjendum sínum í brjóst slíkri hrifningu og trausti að þeir eiga jafnvel til að eigna honum yfirnáttúrulega eiginleika. Vald náðarforingjans er óhjákvæmilega tímabundið; þegar hann fellur frá eða glatar trausti skjólstæðinga sinna af öðrum ástæðum gerist annað af tvennu: hreyfingin, sem hann hefur skapað líður undir lok eða valdið fær nýja birtingarmynd.

Í öðru lagi er hefðarvald, sem flyst milli kynslóða innan sama valdahóps, oftast fjölskyldu. Valdið helst óbreytt, kyrrstaða ríkir og öllum félagslegum breytingum er haldið í skefjum. Hefðarforinginn fylgir venjum fyrirrennara sinna en er þó vís með að beita valdi sínu af geðþótta og ósamkvæmni. Náðarvald getur þróast yfir í hefðarvald.

Loks er regluvaldið, sem er grundvallað á formlegum, oftast skriflegum, lögum. Hlýðni og hollusta er ekki bundin tilteknum einstaklingum heldur kerfi skriflegra fyrirmæla, sem allir þegnar þjóðfélagsins eru bundnir af og hafa komið sér saman um með einum eða öðrum hætti. Þessi kjörmynd, misheilleg þó, birtist í iðnvæddum lýðræðisríkjum okkar daga.

Webers er umfram allt minnst fyrir stórvirki hans á sviði fræðimennskunnar en sjálfur brann hann af áhuga á þátttöku í brýnum viðfangsefnum samtíðar sinnar og er ljóst af einkabréfum hans og öðrum heimildum að hann hugleiddi allt frá unga aldri að láta til sín taka í þjóðlífinu. Hann greindi af skarpskyggni þann háska, sem stjórnarhættir Bismarcks höfðu leitt yfir þýsku þjóðina og var óvæginn gagnrýnandi stefnu Vilhjálms II. keisara þar sem dómgreindarleysi bættist við valdhrokann og ofríkið sem járnkanslarinn kaldrifjaði innleiddi.

Weber var kallaður ásamt öðrum til að semja stjórnarskrá Weimarlýðveldisins, en hann hafði áður reynt með litlum árangri að hafa áhrif á Versalasamningana. Fullyrt er að Weber hafi átt þátt í að móta 48. grein stjórnarskrárinnar, sem veitti forsetanum rétt til að nema úr gildi ýmis grundvallarmannréttindi. Gripið var til þessarar greinar eftir þinghúsbrunann í febrúar 1933 og var þess síðan skammt að bíða að Þriðja ríki Hitlers risi á rústum Weimarlýðveldisins.

Mjög ómaklega hefur Max Weber verið núið því um nasir eftir andlátið að hafa rutt nazistum brautina með fylgi sínu við þessa umræddu stjórnarskrárgrein. Vissulega sýndi sig að henni mátti misbeita en hins vegar er fráleitt að hugsa sér að Hitler hefði látið annað orðalag í stjórnarskránni hindra sig í því ætlunarverki sínu að veita lýðræðinu og þingræðinu náðarstunguna. Weber var frjálslyndur lýðræðissinni, gyðingahatur var eitur í hans beinum og hann hefði aldrei lagt myrkraöflum nazismans lið. Honum hefði hins vegar ekki orðið skotaskuld úr að skýra og skilgreina þau félagslegu, sögulegu, efnahagslegu og pólitísku öfl, sem knúðu fram ragnarök þýsku þjóðarinnar á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar.

Hér hefur aðeins verið stiklað á fáeinum þáttum í hinu mikla lífsverki Max Webers. Samhengið í ævistarfi hans verður naumast skynjað af þessum sundurlausu brotum. Svo vel vill hins vegar til að verk hans eru aðgengileg, bæði á frummálinu og í enskum þýðingum. Þau eru vissulega ekki öll auðveld aflestrar, en einnig eru til afbragðsgóðar samantektir og greiningar á framlagi hans til fræðanna. Af svo miklu er að taka að engin leið er að forgangsraða örfáum þeirra inn í það rými, sem hér er til umráða. Eins rits skal þó getið. Árið 1973 gaf Hið íslenska bókmenntafélag út bók sem kölluð var Mennt og máttur. Hún hefur að geyma fyrirlestrana tvo frá München, Starf fræðimannsins (Wissenschaft als Beruf) og Starf stjórnmálamannsins (Politik als Beruf) í vandaðri þýðingu Helga Skúla Kjartanssonar. Auk þess er þar að finna ákaflega fróðlegan inngang eftir Sigurð Líndal þar sem meðal annars er gerð velheppnuð tilraun til að tengja kenningar Webers við íslenska stjórnmálasögu nítjándu og tuttugustu aldar.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Spurning Oddnýjar Láru hljóðaði svona:
Hvað eru kjörmyndir Max Webers og hvernig er hægt að útskýra þær betur?

Höfundur

Þorbjörn Broddason

prófessor emeritus í félagsfræði við HÍ

Útgáfudagur

25.1.2011

Spyrjandi

Hrefna Tómasdóttir, Oddný Lára, Gunnar Freyr Þorleifsson

Tilvísun

Þorbjörn Broddason. „Hver var Max Weber og hvert var framlag hans til félagsvísinda?“ Vísindavefurinn, 25. janúar 2011, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7598.

Þorbjörn Broddason. (2011, 25. janúar). Hver var Max Weber og hvert var framlag hans til félagsvísinda? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7598

Þorbjörn Broddason. „Hver var Max Weber og hvert var framlag hans til félagsvísinda?“ Vísindavefurinn. 25. jan. 2011. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=7598>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Max Weber og hvert var framlag hans til félagsvísinda?
Þýski félagsfræðingurinn Max Weber fæddist 2. apríl 1864 og lést úr lungnabólgu 14. júní 1920. Þrátt fyrir tiltölulega skamma ævi er vísindalegt framlag Webers slíkt að hann telst, ásamt Karli Marx og Émile Durkheim, einn merkasti frumkvöðull nútímafélagsvísinda. Skrif hans spanna vítt svið og hafa, auk risahlutverks hans innan félagsfræðinnar, auðgað hugsun og eflt þekkingu á vettvangi hagfræði, lögfræði, trúarbragðafræði, stjórnmálafræði og sagnfræði.

Í glímunni við grundvallarspurningar, hvort heldur um eðli þjóðfélagsins eða forsendur vísindalegrar hugsunar og aðferðar, leita nútímafélagsfræðingar beint og óbeint, meðvitað og ómeðvitað, í arf Webers. Styrkur hans lá í óhemjubreiðum þekkingargrunni, hæfileikanum til að greina margslungna áhrifaþætti í stað einfaldra skýringa, og ástríðufullri vinnusemi; glímdi hann þó við erfiðan sjúkdóm, sem dró mjög úr vinnuþreki hans um árabil og gerði hann raunar óvinnufæran um nærri 4 ára skeið.

Eitt þekktasta rit Webers er Siðfræði mótmælenda og andi auðhyggjunnar (Die protestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus) (1905). Þar tekst hann á hendur að sýna hvernig hin meinta andúð strangtrúarmótmælenda á söfnun jarðneskra gæða hafi í raun verið hvati auðsöfnunar og kveikja auðhyggjunnar. Að mati Webers varð tilkoma auðhyggjunnar í Evrópu ekki eingöngu skýrð með tilvísun í efnahagsleg öfl eða tækniframfarir heldur átti hún að verulegu leyti rætur í guðfræði Kalvíns þar sem höfuðatriði var sáluhjálp í krafti útvalningar.

Þótt ekki hafi skort gagnrýni á þessa bók þá er hún enn, meira en hundrað árum eftir útkomu sína, glæsilegur vitnisburður um hið varanlega erindi, sem kenningar Webers eiga við félagsvísindi okkar daga. Eftir útkomu Siðfræði mótmælenda tók Weber upp þráðinn að nýju og liggur eftir hann röð ritgerða um félagsfræði trúarbragða. Hann féll hins vegar frá í miðjum klíðum þegar hann var búinn að skrifa um hin fornu trúarbrögð Kínverja, Indverja og gyðinga en átti eftir að fjalla á sambærilegan hátt um íslam og frumkristni.

Lykilhugtaki, sem rakið er til Webers og hann nefndi Idealtypus, má lýsa sem verkfæri, sem félagsfræðingar hafa æ síðan nýtt sér og grípa til daglega. Idealtypus, sem á íslensku hefur fengið heitið kjörmynd, má lýsa á þessa leið: Kjörmynd er hugarsmíð um tiltekið fyrirbæri, sem rannsakandinn kemur sér upp og hefur síðan sem viðmið til að ganga úr skugga um samsvörun eða frávik í raunverulegum tilvikum. Mikilvægt er að hafa í huga að kjörmynd vísar alls ekki til siðferðilegra gilda. Við getum dregið upp kjörmynd af fyrirbæri, sem er okkur mjög á móti skapi. Einnig er brýnt að gera sér grein fyrir að raunveruleikinn (raunmyndin) getur naumast nokkurn tíma samsvarað kjörmyndinni fullkomlega.

Weber lét mjög til sín taka á sviði félagsfræði stjórnmála. Í ritgerðinni Starf stjórnmálamannsins (Politik als Beruf) (1919), sem upphaflega var flutt sem annar af tveimur fyrirlestrum yfir stúdentum í München byltingarveturinn 1918-1919, skilgreinir hann ríkið á eftirfarandi hátt:
Ríki er það samfélag manna, sem gerir viðurkennda kröfu til einkaréttar til að beita réttmætu ofbeldi. Og krafan á við um tiltekið svæði; það er hluti af skilgreiningunni (Weber, 1919/1973/1996 (þýðing Helga Skúla Kjartanssonar)).
Þessi skilgreining er síðan óaðskiljanlegur þáttur félagsfræðilegrar hugsunar á Vesturlöndum. Weber skilgreindi vald sem hæfileikann til að koma vilja sínum til leiðar óháð vilja annarra. Honum var hins vegar manna best ljóst að mannleg samskipti byggjast sjaldnast á nakinni líkamlegri þvingun heldur miklu fremur á gagnkvæmum skilningi og samþykki. Hann lýsti þrem kjörmyndum viðurkennds valds, sem æ síðan hafa verið stjórnmálafræðingum og félagsfræðingum hugfólgnar. Ekki þarf þó að orðlengja um að erfitt gæti reynst að finna raunmynd, sem svaraði fullkomlega til einhverrar þessara þriggja kjörmynda.

Í fyrsta lagi má nefna náðarvald. Slíkt vald er bundið tilteknum einstaklingi, sem blæs fylgjendum sínum í brjóst slíkri hrifningu og trausti að þeir eiga jafnvel til að eigna honum yfirnáttúrulega eiginleika. Vald náðarforingjans er óhjákvæmilega tímabundið; þegar hann fellur frá eða glatar trausti skjólstæðinga sinna af öðrum ástæðum gerist annað af tvennu: hreyfingin, sem hann hefur skapað líður undir lok eða valdið fær nýja birtingarmynd.

Í öðru lagi er hefðarvald, sem flyst milli kynslóða innan sama valdahóps, oftast fjölskyldu. Valdið helst óbreytt, kyrrstaða ríkir og öllum félagslegum breytingum er haldið í skefjum. Hefðarforinginn fylgir venjum fyrirrennara sinna en er þó vís með að beita valdi sínu af geðþótta og ósamkvæmni. Náðarvald getur þróast yfir í hefðarvald.

Loks er regluvaldið, sem er grundvallað á formlegum, oftast skriflegum, lögum. Hlýðni og hollusta er ekki bundin tilteknum einstaklingum heldur kerfi skriflegra fyrirmæla, sem allir þegnar þjóðfélagsins eru bundnir af og hafa komið sér saman um með einum eða öðrum hætti. Þessi kjörmynd, misheilleg þó, birtist í iðnvæddum lýðræðisríkjum okkar daga.

Webers er umfram allt minnst fyrir stórvirki hans á sviði fræðimennskunnar en sjálfur brann hann af áhuga á þátttöku í brýnum viðfangsefnum samtíðar sinnar og er ljóst af einkabréfum hans og öðrum heimildum að hann hugleiddi allt frá unga aldri að láta til sín taka í þjóðlífinu. Hann greindi af skarpskyggni þann háska, sem stjórnarhættir Bismarcks höfðu leitt yfir þýsku þjóðina og var óvæginn gagnrýnandi stefnu Vilhjálms II. keisara þar sem dómgreindarleysi bættist við valdhrokann og ofríkið sem járnkanslarinn kaldrifjaði innleiddi.

Weber var kallaður ásamt öðrum til að semja stjórnarskrá Weimarlýðveldisins, en hann hafði áður reynt með litlum árangri að hafa áhrif á Versalasamningana. Fullyrt er að Weber hafi átt þátt í að móta 48. grein stjórnarskrárinnar, sem veitti forsetanum rétt til að nema úr gildi ýmis grundvallarmannréttindi. Gripið var til þessarar greinar eftir þinghúsbrunann í febrúar 1933 og var þess síðan skammt að bíða að Þriðja ríki Hitlers risi á rústum Weimarlýðveldisins.

Mjög ómaklega hefur Max Weber verið núið því um nasir eftir andlátið að hafa rutt nazistum brautina með fylgi sínu við þessa umræddu stjórnarskrárgrein. Vissulega sýndi sig að henni mátti misbeita en hins vegar er fráleitt að hugsa sér að Hitler hefði látið annað orðalag í stjórnarskránni hindra sig í því ætlunarverki sínu að veita lýðræðinu og þingræðinu náðarstunguna. Weber var frjálslyndur lýðræðissinni, gyðingahatur var eitur í hans beinum og hann hefði aldrei lagt myrkraöflum nazismans lið. Honum hefði hins vegar ekki orðið skotaskuld úr að skýra og skilgreina þau félagslegu, sögulegu, efnahagslegu og pólitísku öfl, sem knúðu fram ragnarök þýsku þjóðarinnar á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar.

Hér hefur aðeins verið stiklað á fáeinum þáttum í hinu mikla lífsverki Max Webers. Samhengið í ævistarfi hans verður naumast skynjað af þessum sundurlausu brotum. Svo vel vill hins vegar til að verk hans eru aðgengileg, bæði á frummálinu og í enskum þýðingum. Þau eru vissulega ekki öll auðveld aflestrar, en einnig eru til afbragðsgóðar samantektir og greiningar á framlagi hans til fræðanna. Af svo miklu er að taka að engin leið er að forgangsraða örfáum þeirra inn í það rými, sem hér er til umráða. Eins rits skal þó getið. Árið 1973 gaf Hið íslenska bókmenntafélag út bók sem kölluð var Mennt og máttur. Hún hefur að geyma fyrirlestrana tvo frá München, Starf fræðimannsins (Wissenschaft als Beruf) og Starf stjórnmálamannsins (Politik als Beruf) í vandaðri þýðingu Helga Skúla Kjartanssonar. Auk þess er þar að finna ákaflega fróðlegan inngang eftir Sigurð Líndal þar sem meðal annars er gerð velheppnuð tilraun til að tengja kenningar Webers við íslenska stjórnmálasögu nítjándu og tuttugustu aldar.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Spurning Oddnýjar Láru hljóðaði svona:
Hvað eru kjörmyndir Max Webers og hvernig er hægt að útskýra þær betur?
...