Við Íslendingar munum hafa orðið einna síðastir Evrópuþjóða til að setja sérstök lög um náttúruvernd árið 1956. Kannski má segja að færra hafi rekið á eftir hér en annars staðar, og strjálbýli og hægfara tæknivæðing hafi hlíft okkur við stórslysum öðrum en gróður- og jarðvegseyðingunni. (bls. 120)Þótt Íslendingar hafi ekki fengið eiginlega náttúruverndarlöggjöf fyrr en árið 1956 höfðu áður verið sett ýmis lög um friðun, einkum friðun tiltekinna dýrategunda og stjórn veiða og nytja.
Horft úr Skaftafelli yfir á Öræfajökul
Snæfellsjökull var gerður að þjóðgarði árið 2001
Ég er þeirrar skoðunar, að meginatriðin í þessum lögum séu mjög til bóta, og í heild sinni ná þau lengra og til fleiri atriða en fyrri löggjöf. Þó eru lög þessi að því leyti svipuð hinum fyrri, að þau taka fyrst og fremst til menningarlegra og félagslegra þátta náttúruverndar, en mjög almennt og takmarkað er fjallað um mengun og hagræna náttúruvernd, og vantar enn tilfinnanlega samræmda löggjöf um þá þætti.Náttúruvernd á Íslandi – Hvernig er staðan í dag? Á sjöunda áratug 20. aldar óx náttúruvernd fylgi á Íslandi eins og stofnun ýmissa félaga um náttúruvernd er til vitnis um. Árið 1969 var stofnað félagasamband um landgræðslu og náttúruvernd, Landvernd, sem flest stærri náttúruverndarsamtök áttu aðild að. Fyrsta félagið sem eingöngu helgaði sig náttúruvernd og byggði á aðild almennings var Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi (SUNN), stofnuð árið 1970. Síðar voru stofnuð svipuð samtök á Austurlandi (NAUST) og svo fleiri félög víða um land á næstu árum. Náttúruverndarsamtök Íslands voru að lokum stofnsett árið 1997.
Þingvellir voru fyrsti þjóðgarður Íslands
Verndarflokkur | Fjöldi svæða | Stærð í km2 | % Íslands |
Þjóðgarðar | 3 | 1.940 | 1,8 |
Friðlönd | 37 | 2.825 | 2,7 |
Náttúruvætti | 34 | 293 | 0,3 |
Fólkvangar | 13 | 396 | 0,4 |
Vernduð búsvæði | 1 | 0,017 | 0 |
Samtals | 88 | 5.471 | 5,2 |
Svæði vernduð með sérlögum | 3 | 7.601 | 4,6 |
Samtals | 91 | 13.073 | 9,8 |
Alþjóðlegir samningar
Auk íslenskra laga um náttúruvernd er Ísland aðili að ýmsum alþjóðlegum samþykktum sem lúta að friðun landsvæða, dýra og plantna. Sem dæmi má nefna að þrjú svæði eru friðuð samkvæmt Ramsarsáttmálanum um friðun votlendis frá árinu 1990, en svæðin eru Þjórsárver (1990), Grunnafjörður í Borgarfirði (1996) og hluti Mývatns og Laxár (1977),. Einnig má nefna Bernarsamninginn um villtar plöntur og dýr, ýmsa samninga um hafvernd og rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Lista yfir alþjóðlega samninga um umhverfis- og náttúruvernd er að finna á heimasíðu Umhverfisráðuneytisins.
Heimildir og frekara lesefni
-
Bækur
- Hjörleifur Guttormsson, Vistkreppa eða náttúruvernd, Mál og menning, Reykjavík 1974.
- Náttúra norðursins: Náttúruvernd á Norðurlöndum á 20. öld, Norðurlandaráð, Kaupmannahöfn 2003.
- Guðmundur Páll Ólafsson, Um víðerni Snæfells, Mál og menning, Reykjavík 2003.
- Ólafur Páll Jónsson, „Undir hælum athafnamanna“,Ritið, 2. hefti 2004.
- Hver er ástæðan fyrir því að Snæfellsjökull var gerður að þjóðgarði? eftir Guðbjörgu Gunnarsdóttir.
- Hver eru markmið Ríósáttmálans? eftir Auði H. Ingólfsdóttur.
- Hvað er umhverfi? eftir Ólaf Pál Jónsson.
- Hvað merkja orðin sjálfbær þróun? eftir Ólaf Pál Jónsson.
- Hvaða steintegundir eru friðlýstar á Íslandi? Má taka hrafntinnu, silfurberg og jaspis ef þeir eru ekki á friðlýstu svæði? eftir Hauk Þór Haraldsson.
- Hvað getið þið sagt mér um Staðardagskrá 21? eftir Arnheiði Hjörleifsdóttur og Stefán Gíslason.
- Hvað er langt í að ósonlagið þynnist það mikið að það verði hættulegt að vera úti? eftir Sigrúnu Karlsdóttur.