Upphaf Staðardagskrárstarfsins hér á landi má rekja til ársins 1996 þegar Egilsstaðabær tók þátt í norrænu verkefni, sem hafði það að markmiði að búa til fyrirmynd að „umhverfisáætlun“ fyrir fámenn sveitarfélög. Í lok þessa verkefnis efndu Norræna ráðherranefndin, Umhverfisráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga til umhverfisráðstefnu á Egilsstöðum 9.-10. júní 1997. Þar kom fram sterkur vilji hjá sveitarfélögum til að hefjast handa við að uppfylla ákvæði Ríósamþykktarinnar, og var því beint til Umhverfisráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga að bjóða fram aðstoð til að auðvelda sveitarfélögunum þetta starf. Í mars 1998 gengu sambandið og ráðuneytið síðan frá samningi um sameiginlegt átak til að aðstoða íslensk sveitarfélög við að koma sér upp Staðardagskrá 21. Verkefnið hófst formlega í byrjun október sama ár með ráðningu Stefáns Gíslasonar, umhverfisstjórnunarfræðings, sem verkefnisstjóra. Þá hafði 31 sveitarfélag sótt um þátttöku í verkefninu. Í dag hafa rúmlega 50 íslensk sveitarfélög hafist handa við gerð Staðardagskrár, og í þessum sveitarfélögum búa rúmlega 90% þjóðarinnar. Þar af hafa 16 sveitarfélög, með um 200.000 íbúa, samþykkt fyrstu útgáfu Staðardagskrár 21 fyrir sitt sveitarfélag og 32 hafa samþykkt svokallaða Ólafsvíkuryfirlýsingu. Með samþykkt hennar skuldbinda sveitarfélög sig til að leggja sitt af mörkum til sjálfbærrar þróunar, meðal annars með því að virkja íbúa, félagasamtök og aðila atvinnulífsins til öflugrar þátttöku í verkefnum sem tengjast Staðardagskrá 21 og með því að hafa markmiðið um sjálfbæra þróun að leiðarljósi við gerð skipulagsáætlana, sem og við aðra ákvarðanatöku um málefni sveitarfélagsins. Fagleg aðstoð verður áfram veitt sveitarfélögum á Íslandi við gerð og eftirfylgni Staðardagskrár, að minnsta kosti til ársloka 2005. Að lokum má benda á að velferð komandi kynslóða verður aldrei tryggð nema með sameiginlegu átaki allra. Vissulega gegna stjórnvöld þar mikilvægu hlutverki, bæði landsstjórnir og sveitarstjórnir, en aðrir hópar bera líka ábyrgð í þessu sambandi, þar á meðal almenningur og frjáls félagasamtök, einstök fyrirtæki, einstakar atvinnugreinar og samtök atvinnulífsins, jafnt innanlands sem á fjölþjóðlegum vettvangi. Frumkvæði margra og nýting þeirrar þekkingar sem fyrir er, eru forsendur framfara og þar með forsendur velferðar. Allir hópar samfélagsins geta stuðlað að sjálfbærri þróun. Framtíð þeirra veltur á að vel takist til.
Hlekkir:
- Staðardagskrá 21 á Íslandi
- Ólafsvíkuryfirlýsingin
- Merki Staðardagskrár 21 af vef Reykjanesbæjar
- Mynd af vef dönsku ríkisstjórnarinnar, Denmark's national strategy for sustainable development
Á Vísindavefnum:
- Auður Ingólfsdóttir: Hver eru markmið Ríósáttmálans?
- Ólafur Páll Jónsson: Hvað merkja orðin sjálfbær þróun?