Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Árið 1992 stóðu Sameinuðu þjóðirnar fyrir leiðtogafundi í Rio de Janero undir heitinu „Ráðstefna um umhverfi og þróun“. Í daglegu tali er ráðstefnan kölluð „Ríófundurinn“ (The Rio Summit). Hann telst tímamótafundur, ekki aðeins sökum þess að þetta var einn stærsti fundur sem alþjóðasamfélagið hefur staðið fyrir, heldur ekki síður vegna þeirra samninga og samþykkta sem hann skilaði.
Ekki er hægt að tala um einn „Ríósáttmála“ heldur er um nokkra samninga og samþykktir að ræða. Eftirfarandi samningar og samþykktir voru gerðar:
Ríóyfirlýsingin um umhverfi og þróun (The Rio Declaration on Environment and Development)
Áætlun 21 (Agenda 21)
Meginreglur fyrir skógrækt (Forest Principles)
Rammasamningur um loftslagsbreytingar (Framework Convention on Climate Change – FCCC)
Samningur um líffræðilega fjölbreytni (Convention on Biological Diversity –CBD)
Mikilvægt er að gera greinarmun milli pólitískra samþykkta (númer 1, 2 og 3) og alþjóðlegra samninga sem leggja þjóðréttarlegar skuldbindingar á þau ríki sem fullgilda samninga (númer 4 og 5).
Ríóyfirlýsingin hefur að geyma 27 meginreglur í umhverfismálum. Dæmi um sjónarmið sem þar eru viðurkennd eru varúðarreglan og mengunarbótareglan. Varúðarreglan (precautionary principle) kveður á um að þegar vísindaleg óvissa sé til staðar um afleiðingar framkvæmda fyrir umhverfið, skuli náttúran njóta vafans. Með öðrum orðum: Ekki er talið nauðsynlegt að sanna með óyggjandi hætti að náttúran beri skaða af, heldur liggi sönnunarbyrðin fremur hjá framkvæmdaraðila sem eigi að sýna fram á að framkvæmdin valdi ekki skaða. Mengunarbótareglan (Polluter Pays Principle) felur í sér að sá sem er valdur að mengun skal jafnframt bera kostnað vegna þess tjóns sem af hlýst.
Dagskrá 21 er mörghundruð síðna framkvæmdaáætlun sem er ætlað að vera einskonar leiðarvísir fyrir ríkisstjórnir heims þar sem tekið er á efnahagslegum þáttum, félagslegum þáttum og umhverfis- og auðlindastjórnun. Áætlunin er ekki bindandi á sama hátt og alþjóðlegir samningar en hefur pólitískt vægi. Tilvist hennar hefur því verið mikill styrkur þeim sem berjast fyrir auknu vægi umhverfismála í stefnumörkun þjóða og vísa þeir iðulega í framkvæmdaáætlunina máli sínu til stuðnings. Þá hafa fjölmörg ríki útfært dagskrá 21, bæði á landsvísu og á sveitarstjórnarstiginu.
Meginreglur fyrir skógrækt er samþykkt sem var lögð fram sem einskonar málamiðlun til bráðabirgða þar sem ekki tókst að ná samkomulagi um texta fyrir alþjóðlegan samning um skóga heimsins. Þar sem skóglendi er lítið á Íslandi hefur þessi samþykkt lítið verið til umræðu hér á landi.
Tveir bindandi samningar voru samþykktir í Ríó: Rammasamningur um loftslagsbreytingar og Samningur um líffræðilega fjölbreytni. Ísland hefur fullgilt báða þessa samninga. Markmið loftslagssamningsins er að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar af mannavöldum. Ríki sem eru aðilar skuldbinda sig til að koma upp bókhaldi yfir útstreymi gróðurhúsalofttegunda og í samningnum er það almenna markmið að útblástur gróðurhúsalofttegunda aukist ekki frá því sem var árið 1990. Árið 1997 var skrifað undir bókun við samninginn, Kyótóbókunina, þar sem samþykktar eru fram ákveðin markmið varðandi útblástur gróðurhúsalofttegunda og sett ákveðin tímamörk til að ná fram þeim markmiðum. Ísland hefur fullgilt bókunina en hún hefur þó ekki enn gengið í gildi. Markmið samnings um líffræðilega fjölbreytni er, eins og nafnið bendir til, verndun líffræðilegrar fjölbreytni en sá samningur felur meðal annars í sér þá skuldbindingu að gera landsáætlun um verndun líffræðilegrar fjölbreytni.
Árið 2002 voru tíu ár liðin frá Ríófundinum og að því tilefni var efnt til annars leiðtogafundar. Sá fundur var haldinn í Jóhannesarborg undir yfirskriftinni „Sjálfbær þróun“. Umræðan á þeim fundi snerist ekki um að bæta við nýjum samþykktum og samningum, heldur fremur um hvernig hægt væri að koma í framkvæmd mörgum þeim fögru fyrirheitum sem er að finna í dagskrá 21 og öðrum samþykktum Ríófundarins. Áhersluatriðin voru útrýming fátæktar, aðgangur að hreinu vatni, sjálfbær framleiðsla og neysla, aukin áhersla á notkun endurnýjanlegra auðlinda og framleiðsla á efnum sem eru ekki hættuleg umhverfinu.
Heimildir og mynd:
Grænskinna. Umhverfismál í brennidepli. Ritstjóri: Auður H Ingólfsdóttir. Mál og menning, 2002
Auður H. Ingólfsdóttir. „Hver eru markmið Ríósáttmálans?“ Vísindavefurinn, 13. mars 2003, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3234.
Auður H. Ingólfsdóttir. (2003, 13. mars). Hver eru markmið Ríósáttmálans? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3234
Auður H. Ingólfsdóttir. „Hver eru markmið Ríósáttmálans?“ Vísindavefurinn. 13. mar. 2003. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3234>.