Maðurinn er hluti af ríki náttúrunnar og kristin siðfræði býður okkur að vera ráðsmenn guðs í þessu ríki. Ekki með yfirgangi, heldur til að viðhalda því af skynsemi og með hluttekningu. Í stefnuskrá núverandi ríkisstjórnar í umhverfismálum er þessu hlutverki gefið hið óþjála heiti: sjálfbær þróun.Orðið þróun er einnig ungt í málinu. Elsta dæmi Orðabókar Háskólans er frá 1882 úr tímaritinu Skuld sem Jón Ólafsson ritstýrði:
orðið 'þróun' felur sjálft í sjer 'fram'-sóknina.En þótt orðið þróun sé fremur ungt í málinu er það löngu orðið rótgróið og hefur tekið á sig ýmsar merkingar. Með þróun eigum við jafnan við einhverskonar framvindu. Sumir segja að framvindan verði að lúta tilteknum lögmálum svo að hún geti kallast þróun en aðrir segja að hún verði að vera í jákvæða átt og gera þá greinarmun á þróun og öfugþróun. Orðið þróun er notað jöfnum höndum sem þýðing á ensku orðunum development og evolution og við finnum það í samsettum orðum eins og þróunarkenning, þróunarhjálp og framþróun. Orðasambandið sjálfbær þróun er þýðing á enska orðasambandinu sustainable development. Í skýrslunni Okkar sameiginlega framtíð (Our Common Future), sem samin var árið 1987 undir forystu Gro Harlem Brundtland, fyrrum forsætisráðherra Noregs, var hugtakið fyrst skilgreint:
Sjálfbær þróun er þróun sem fullnægir þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum.Meginhugmyndin að baki sjálfbærri þróun, eða sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, er einföld og alls ekki ný af nálinni. Hún er tvíþætt, í fyrsta lagi að ganga ekki óhóflega á forða náttúrunnar heldur nýta auðlindir hennar á hófsaman hátt og þá helst þannig að þær nái að endurnýja sig. Þannig miðast sjálfbært skógarhögg við að planta nýjum trjám jafnharðan og höggvið er. Í öðru lagi felst í sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda að þær skuli ekki nýttar á þann hátt að af hljótist mengun eða að umhverfinu sé spillt á annan hátt. Í samræmi við þetta var eitt af meginmarkmiðum loftslagsráðstefnunnar í Río de Janeiro í Brasilíu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. En eins og áður sagði þá eru þessar hugmyndir alls ekki nýjar heldur hafa ýmsir þjóðflokkar gætt þess um aldir að nýta auðlindir sínar svo sem beitilönd og skóga á þann hátt að samhliða notkuninni sé búið í haginn fyrir komandi kynslóðir. Lýsandi fyrir þessa hugsun er orðatiltæki frá Kenýa:
Þú hefur ekki fengið landið til eignar frá foreldrum þínum; þú hefur það að láni frá börnum þínum.Það sem er hins vegar nýtt í umræðunni og gerir sjálfbæra þróun að knýjandi máli á alþjóðavettvangi er að nú á dögum er mengun og auðlindanýting ekki lengur einkamál einstakra þjóða eða þjóðflokka vegna þess hve iðnaður og neysla manna er orðin orku- og auðlindafrek; það sem ein þjóð aðhefst getur haft veruleg áhrif á allar hinar.
Mynd: GlobalDimensions