Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað merkja orðin sjálfbær þróun?

Ólafur Páll Jónsson

Orðið sjálfbær er nýyrði í íslensku. Elsta dæmið sem Orðabók Háskólans á er úr Alfræðisafni AB sem út kom á árunum 1965 til 1968. Orðið er sett saman úr tveimur hlutum, sjálf- og -bær og minnir á hversdagslega orðið haldbær. Orðið sjálfbær er einkum notað í orðasambandinu sjálfbær þróun. Ýmsum hefur fundist þetta nýyrði og orðasambandið sjálfbær þróun heldur óþjált í málinu, eins og lesa má í eftirfarandi dæmi sem fengið er úr Morgunblaðinu (4/4 1995):
Maðurinn er hluti af ríki náttúrunnar og kristin siðfræði býður okkur að vera ráðsmenn guðs í þessu ríki. Ekki með yfirgangi, heldur til að viðhalda því af skynsemi og með hluttekningu. Í stefnuskrá núverandi ríkisstjórnar í umhverfismálum er þessu hlutverki gefið hið óþjála heiti: sjálfbær þróun.
Orðið þróun er einnig ungt í málinu. Elsta dæmi Orðabókar Háskólans er frá 1882 úr tímaritinu Skuld sem Jón Ólafsson ritstýrði:
orðið 'þróun' felur sjálft í sjer 'fram'-sóknina.

En þótt orðið þróun sé fremur ungt í málinu er það löngu orðið rótgróið og hefur tekið á sig ýmsar merkingar. Með þróun eigum við jafnan við einhverskonar framvindu. Sumir segja að framvindan verði að lúta tilteknum lögmálum svo að hún geti kallast þróun en aðrir segja að hún verði að vera í jákvæða átt og gera þá greinarmun á þróun og öfugþróun. Orðið þróun er notað jöfnum höndum sem þýðing á ensku orðunum development og evolution og við finnum það í samsettum orðum eins og þróunarkenning, þróunarhjálp og framþróun.

Orðasambandið sjálfbær þróun er þýðing á enska orðasambandinu sustainable development. Í skýrslunni Okkar sameiginlega framtíð (Our Common Future), sem samin var árið 1987 undir forystu Gro Harlem Brundtland, fyrrum forsætisráðherra Noregs, var hugtakið fyrst skilgreint:
Sjálfbær þróun er þróun sem fullnægir þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum.
Meginhugmyndin að baki sjálfbærri þróun, eða sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, er einföld og alls ekki ný af nálinni. Hún er tvíþætt, í fyrsta lagi að ganga ekki óhóflega á forða náttúrunnar heldur nýta auðlindir hennar á hófsaman hátt og þá helst þannig að þær nái að endurnýja sig. Þannig miðast sjálfbært skógarhögg við að planta nýjum trjám jafnharðan og höggvið er. Í öðru lagi felst í sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda að þær skuli ekki nýttar á þann hátt að af hljótist mengun eða að umhverfinu sé spillt á annan hátt. Í samræmi við þetta var eitt af meginmarkmiðum loftslagsráðstefnunnar í Río de Janeiro í Brasilíu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

En eins og áður sagði þá eru þessar hugmyndir alls ekki nýjar heldur hafa ýmsir þjóðflokkar gætt þess um aldir að nýta auðlindir sínar svo sem beitilönd og skóga á þann hátt að samhliða notkuninni sé búið í haginn fyrir komandi kynslóðir. Lýsandi fyrir þessa hugsun er orðatiltæki frá Kenýa:

Þú hefur ekki fengið landið til eignar frá foreldrum þínum; þú hefur það að láni frá börnum þínum.

Það sem er hins vegar nýtt í umræðunni og gerir sjálfbæra þróun að knýjandi máli á alþjóðavettvangi er að nú á dögum er mengun og auðlindanýting ekki lengur einkamál einstakra þjóða eða þjóðflokka vegna þess hve iðnaður og neysla manna er orðin orku- og auðlindafrek; það sem ein þjóð aðhefst getur haft veruleg áhrif á allar hinar.



Mynd: GlobalDimensions

Höfundur

Ólafur Páll Jónsson

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

20.8.2001

Spyrjandi

Ásmundur Ásmundsson

Tilvísun

Ólafur Páll Jónsson. „Hvað merkja orðin sjálfbær þróun?“ Vísindavefurinn, 20. ágúst 2001, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1840.

Ólafur Páll Jónsson. (2001, 20. ágúst). Hvað merkja orðin sjálfbær þróun? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1840

Ólafur Páll Jónsson. „Hvað merkja orðin sjálfbær þróun?“ Vísindavefurinn. 20. ágú. 2001. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1840>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað merkja orðin sjálfbær þróun?
Orðið sjálfbær er nýyrði í íslensku. Elsta dæmið sem Orðabók Háskólans á er úr Alfræðisafni AB sem út kom á árunum 1965 til 1968. Orðið er sett saman úr tveimur hlutum, sjálf- og -bær og minnir á hversdagslega orðið haldbær. Orðið sjálfbær er einkum notað í orðasambandinu sjálfbær þróun. Ýmsum hefur fundist þetta nýyrði og orðasambandið sjálfbær þróun heldur óþjált í málinu, eins og lesa má í eftirfarandi dæmi sem fengið er úr Morgunblaðinu (4/4 1995):

Maðurinn er hluti af ríki náttúrunnar og kristin siðfræði býður okkur að vera ráðsmenn guðs í þessu ríki. Ekki með yfirgangi, heldur til að viðhalda því af skynsemi og með hluttekningu. Í stefnuskrá núverandi ríkisstjórnar í umhverfismálum er þessu hlutverki gefið hið óþjála heiti: sjálfbær þróun.
Orðið þróun er einnig ungt í málinu. Elsta dæmi Orðabókar Háskólans er frá 1882 úr tímaritinu Skuld sem Jón Ólafsson ritstýrði:
orðið 'þróun' felur sjálft í sjer 'fram'-sóknina.

En þótt orðið þróun sé fremur ungt í málinu er það löngu orðið rótgróið og hefur tekið á sig ýmsar merkingar. Með þróun eigum við jafnan við einhverskonar framvindu. Sumir segja að framvindan verði að lúta tilteknum lögmálum svo að hún geti kallast þróun en aðrir segja að hún verði að vera í jákvæða átt og gera þá greinarmun á þróun og öfugþróun. Orðið þróun er notað jöfnum höndum sem þýðing á ensku orðunum development og evolution og við finnum það í samsettum orðum eins og þróunarkenning, þróunarhjálp og framþróun.

Orðasambandið sjálfbær þróun er þýðing á enska orðasambandinu sustainable development. Í skýrslunni Okkar sameiginlega framtíð (Our Common Future), sem samin var árið 1987 undir forystu Gro Harlem Brundtland, fyrrum forsætisráðherra Noregs, var hugtakið fyrst skilgreint:
Sjálfbær þróun er þróun sem fullnægir þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum.
Meginhugmyndin að baki sjálfbærri þróun, eða sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, er einföld og alls ekki ný af nálinni. Hún er tvíþætt, í fyrsta lagi að ganga ekki óhóflega á forða náttúrunnar heldur nýta auðlindir hennar á hófsaman hátt og þá helst þannig að þær nái að endurnýja sig. Þannig miðast sjálfbært skógarhögg við að planta nýjum trjám jafnharðan og höggvið er. Í öðru lagi felst í sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda að þær skuli ekki nýttar á þann hátt að af hljótist mengun eða að umhverfinu sé spillt á annan hátt. Í samræmi við þetta var eitt af meginmarkmiðum loftslagsráðstefnunnar í Río de Janeiro í Brasilíu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

En eins og áður sagði þá eru þessar hugmyndir alls ekki nýjar heldur hafa ýmsir þjóðflokkar gætt þess um aldir að nýta auðlindir sínar svo sem beitilönd og skóga á þann hátt að samhliða notkuninni sé búið í haginn fyrir komandi kynslóðir. Lýsandi fyrir þessa hugsun er orðatiltæki frá Kenýa:

Þú hefur ekki fengið landið til eignar frá foreldrum þínum; þú hefur það að láni frá börnum þínum.

Það sem er hins vegar nýtt í umræðunni og gerir sjálfbæra þróun að knýjandi máli á alþjóðavettvangi er að nú á dögum er mengun og auðlindanýting ekki lengur einkamál einstakra þjóða eða þjóðflokka vegna þess hve iðnaður og neysla manna er orðin orku- og auðlindafrek; það sem ein þjóð aðhefst getur haft veruleg áhrif á allar hinar.



Mynd: GlobalDimensions

...