Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Vegna framfara læknavísinda á síðustu áratugum hafa lyfjameðferðir og skurðaðgerðir á fóstrum orðið mögulegar í vissum tilvikum. Auðveldara og öruggara er en áður að ná til fósturs í móðurkviði og má til dæmis veita hormónum og ýmsum næringarefnum sem fóstur skortir í legi og komast hjá ýmsum óstarfhæfum efnaferlum. Einnig eru nú til betri og nákvæmari aðgerðir til að greina líffærafræði fósturs og frávik þar á.
Meðferð á fóstrum á uppruna sinn árið 1963 þegar nýsjálenski skurðlæknirinn Sir William Liley gaf blóð til fósturs með nýburablóðrauðalos (e. erythroblastoisis fetalis). Fyrsta velheppnaða skurðaðgerðin á fóstri var síðan gerð árið 1981 í háskólanum í Kaliforníu, eftir vandlegar prófanir á dýrum.
Vegna mikillar áhættu, bæði fyrir fóstur og móður, þurfa ströng skilyrði að vera uppfyllt til þess að aðgerð sé framkvæmd á fóstri. Fæst þau frávik sem greinast hjá fóstrum í legi nægja til þess að inngrip sé gert. Skilyrði fyrir því að aðgerð sé framkvæmd er að fóstrið hafi eðlilega litningagerð (e. karyotype), utan eins einangraðs fráviks sem gæti valdið dauða, alvarlegri fötlun eða ólæknanlegs skaða ef ekkert væri að gert. Ekki er gripið til aðgerðar ef hún gæti verið tilgangslaus eða ef frávikið hefur svo lítil áhrif á fóstrið að aðgerð eftir fæðingu mundi gera sama gagn. Nauðsynlegt er að gera líkamsskoðun á móður fyrir aðgerð og tryggja að áhætta fyrir hana sé lítil. Allar aðgerðir þurfa að vera vandlega prófaðar á dýrum og í stýrðum tilraunum (e. controlled trials).
Opin skurðaðgerð á fóstri er einungis framkvæmd að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og vegna sérstakra fósturgalla.
Skurðaðgerðir á fóstrum eru framkvæmdar á sérstökum fósturmeðferðarheimilum þar sem margir fagmenn koma að máli. Til að stuðla að öryggi fósturs er aðgerð yfirleitt framkvæmd á öðrum þriðjungi meðgöngu, sé það mögulegt, til þess að komast hjá mögulegum vanskapandi áhrifum svæfingalyfja. Nákvæmt eftirlit með bæði fóstri og móður er nauðsynlegt meðan á aðgerð stendur og í nokkurn tíma eftir á. Fylgst er með samdrætti í legvöðva og innanlegsþrýstingi, blóðþrýstingi móður, heilarafriti (EEG), púlsi og styrk lofttegunda í blóði. Einnig er fylgst með súrefnismettun hemóglóbíns í blóði fósturs, hjartslátti, heilarafriti og styrk lofttegunda í blóði. Auk þess er líkamshita fósturs viðhaldið með stöðugri áveitu sódíumklóríðs, fylgst er vel með að fóstrið verði fyrir eins lítilli útsetningu við andrúmsloft og mögulegt er og hækkuðum umhverfishita.
Sem stendur eru þrjár aðferðir notaðar við inngripsmeðferð á fóstri:
Ísetning blöðrulíknarbelgshjáveitu, og í sumum tilvikum brjóstholslíknarbelgshjáveitu, er gerð á fóstrum frá 16. viku meðgöngu fram að þeim tíma sem lungnaþroski gerir aðgerð eftir fæðingu að betri kosti. Fylgikvillar þessarar aðgerðar eru óskilvirkni, far (e. migration) og klofinn kviður (e. gastroschisis) af læknisvöldum.
Ljósþráðatækni má nota þegar tengdir eru saman naflastrengir í tvíburum þar sem hjarta vantar (e. acardiac), í sumum ljóshleypingum (e. photocoagulation) samtengdra æða í blóðgjöf milli tvíbura og í brottnámi aftari loku þvagrásar. Aðgerðin er framkvæmd inni í legi með notkun holsjár og krefst mun minni legskurðar en opin skurðaðgerð. Nauðsynlegt er að nota kviðarholsómskoðun (e. transabdominal ultrasonography) auk holsjárinnar til þess að staðsetja holsting (e. trocar) og holpípur (e. cannula). Gallar þessarar tækni snúa að hættu á blæðingum, rofi á himnum og belghimnubólgu (e. chorioamnionitis). Einnig getur verið erfitt að ná til fósturs vegna staðsetningar þess í legi og vegna vatnslegs (e. polyhydramnios).
Opin skurðaðgerð á fóstrum er sem stendur framkvæmd í völdum miðstöðvum í þeim tilfellum þar sem greining á fráviki með þekktar slæmar horfur vegur þyngra en áhætta vegna aðgerðar fyrir móður og fóstur. Hætta á belghimnubólgu, ótímabærum hríðum og skaða á fóstri fylgir flestum aðgerðum af þessu tagi.
Ofantaldar aðferðir eru við hæfi ef nokkrir ákveðnir fósturgallar koma við sögu, að því gefnu að önnur skilyrði fyrir aðgerð á fóstri séu uppfyllt. Dæmi um slík frávik eru hindrun í þvagleiðara (e. obstructive uropathy, UTO), vatnshöfuð (e. hydrocephalus), fleiðruútflæði (e. pleural effusion), ójafnt blóðflæði milli tvíbura (e. twin-to-twin transfusion syndrome), líknarbelgsdregilsheilkenni (e. amniotic band syndrome), meðfæddur þindarhaull (e. congenital diaphragmatic hernia), meðfædd hindrun í efri öndunarvegi, mengis- og mænuhaull (e. myolomeningocele) og fjölkímsæxli við spjald- og rófubein (e. sacrococcygeal teratoma).
Sífelldar framfarir verða í læknisfræði bæði við greiningu fósturkvilla og í mögulegri meðferð. Í ljósi þessa verða skurðaðgerðir á fóstrum sífellt raunhæfari og öruggari kostur. Með framförum á sviði ónæmisfræði og líftækni munu genameðferðir einnig veita nýja möguleika á meðferð. Þetta er þó mjög viðkvæmur vettvangur og allar framfarir þurfa að nást með vandasömum hætti þar sem gætt er að jafnvægi milli kosta og þeirrar áhættu sem fylgir fyrir bæði fóstur og móður.
Heimildir: