Ekki mun vera til nein opinber skilgreining á orðinu líftækni en viss hugtök sem tengjast líftækninni hafa þó verið skilgreind í lögum um erfðabreyttar lífverur frá árinu 1996. Í riti um líftækni frá árinu 1984 eftir Guðna Á. Alfreðsson og fleiri er líftækni skilgreind sem „notkun lífvera, lífrænna kerfa eða lífrænna ferla í framleiðslu- eða þjónustugreinum“. Lengi vel fékkst líftæknin nær eingöngu við örverur, til dæmis við framleiðslu áfengs öls, mjólkurafurða og sýklalyfja, en á síðari árum hafa aðferðir líftækninnar einnig náð til plantna og dýra. Svo vill reyndar til að orðið líftækni (e. biotechnology) var fyrst notað árið 1917 um tilraun til að ala svín á gulrófum. Mjög hæpið er þó að telja það uppátæki til líftækni í nútímaskilningi. Líftæknin gekk í endurnýjun lífdaga með tilkomu erfðatækninnar á áttunda áratugi síðustu aldar. Í hugum margra er erfðatæknin nú hin eiginlega líftækni enda er varla nokkur grein líftækninnar ósnortin af henni. Svo vill til að orðið erfðatækni er skilgreint í fyrrnefndum lögum. Þar segir: „Erfðatækni er tækni sem notuð er til þess að einangra og umbreyta erfðaefni og flytja það inn í lifandi frumur eða veirur“. Það er því til góð opinber skilgreining á þessum mikilvæga þætti líftækninnar. Heimildir:
- Lög um erfðabreyttar lífverur, 1996
- Guðni Á. Alfreðsson, Jakob K. Kristjánsson og Guðmundur Eggertsson, 1984. Líftækni á Íslandi. Líffræðistofnun Háskólans. Fjölrit.
- B. R. Glick og J.J. Pasternak, 1994. Molecular Biotechnology. ASM Press, Washington, D. C.