Þessar hryllilegu myndir ásóttu mig allt mitt líf, og fengu mig til að hugsa um hvernig ég gæti fundið leiðir til að berjast gegn bakteríum, þessum hræðilegu óvinum mannkynsins sem drápu svo lævíslega ...3Eftir stríð sneri hann aftur í háskólann og útskrifaðist með gráðu í læknisfræði árið 1921. Eftir háskólanámið var hann skipaður lektor í meinafræði við háskólann í Greifswald (1924) og ári seinna gengdi hann sömu stöðu við háskólann í Münster (1925). Árið 1925 giftist hann Gertrude Strube og saman eignuðust þau fjögur börn - þrjá syni og eina dóttur. Á árunum 1927-1929 tók Domagk sér frí frá háskólanum er hann var ráðinn af lyfjafræðideild þýska efnafyrirtækisins I.G.Farben-industrie í Wuppertal-Elberfeld til að stýra rannsóknum. I.G.Farben var á þessum tíma efnaiðnaðarsamsteypa og fjórða stærsta fyrirtækið á þessu sviði í heiminum. Það var samsett úr fjölmörgum þýskum fyrirtækjum þar á meðal fyrrverandi Bayer-fyrirtækinu sem er hvað þekktast fyrir að hafa framleitt acetylsalicylic acid eða vörumerkið Aspirín frá því 1899 og fyrirtækjum sem höfðu framleitt tilbúin litarefni. Þýski efnaiðnaðurinn var allsráðandi á heimsmarkaði fyrir tilbúin litarefni. I.G.Farben átti líka 42,5% í fyrirtækinu sem framleiddi Zyklon B, eiturefnið sem notað var í gasklefunum í Auschwitz og öðrum útrýmingarbúðum nasista. Litarefni voru mjög mikilvæg í þróun efnafræðinnar og urðu einnig mjög mikilvæg leið til að rannsaka bakteríur. Bakteríur voru litaðar svo þær sæjust undir smásjá. Vísindamönnum datt þess vegna í hug að ef hægt væri að nota litarefni til að lita bakteríurnar þá væri kannski hægt að setja saman við þau eitur til að drepa þær. Það var það sem þeir voru að prófa þegar Domagk fann undraefnið.4 Árið 1929 byggði fyrirtækið nýja rannsóknarstofu fyrir meinafræðilegar rannsóknir og bakteríufræði og var Domagk skipaður forstjóri rannsóknastofunnar. Domagk hafði verið nemandi þýska vísindamannsins og Nóbelsverðlaunahafans Paul Erlich. Hvattur áfram af verkum hans, ásamt reynslu sinni frá stríðsárunum, beindi Domagk rannsóknum sínum að því að finna bakteríudrepandi efni, fyrst "in vitro" (í tilraunaglösum) og svo "in vivo" eða á lifandi lífverum eins og músum og kanínum.5 Hann leitaði kerfisbundið að litarefnum sem gætu drepið smitandi örverur í líkamanum án þess að skaða hann. Domagk var líkt og Erlich mjög nákvæmur, vandvirkur og einbeittur í vísindarannsóknum sínum. Eftir að hafa prófað þúsundir mögulegra bakteríuskæðra efna, uppgötvaði Domagk loks árið 1932, rautt litarefni (azo-litarefni) sem kallað var "prontosil rubrum". Prontosil eins og lyfið var síðan skráð, kom í veg fyrir að streptókokka- og klasakokkabakteríur (sem eru valdar að fjölda sýkinga í manninum) gætu fjölgað sér í músum og kanínum án þess að skaða dýrin. Síðar var fundið út að Prontosil er afleiða súlfonamíðs (p-aminobenzenesulphonamide). Af ókunnum ástæðum beið Domagk með að birta niðurstöður sínar í þrjú ár. Hann var ekki viss um að Prontosil sem virkaði vel á mýs, virkaði jafnvel á manneskjur, fyrr en dag einn árið 1935 að 6 ára gömul dóttir hans, Hildegarde, stakk sig á óhreinni nál og sýktist af mjög alvarlegri streptókokkasýkingu. Hún var mjög mjög veik og var í lífshættu. Domagk sem hafði engu að tapa gaf henni stóran skammt af Prontosil og hún náði fullum bata, en hlaut varanlega rauðleita bletti á húð vegna lyfsins. Rauða litarefnið Prontosil var fyrsta súlfalyfið í súlfonamíð sýklalyfjunum og ruddi brautina fyrir byltingu í bakteríuskæðum lyfjum.
Domagk birti loks niðurstöður sínar í greininni Ein Beitrag zur Chemotherapie der bakteriellen Infektionen árið 1935 í þýska tímaritinu Deutsche medezinische Wocherschrift. Næstu ár á eftir var sjálfstæðum rannsóknum á þessari tegund af bakteríuskæðum efnablöndum haldið áfram í ýmsum löndum og staðfestu þær fyrri niðurstöður. Þær rannsóknir leiddu einnig í ljós að súlfalyfið drepur ekki bakteríuna heldur kemur í veg fyrir að hún fjölgi sér með því að hamla efnaskiptum. Vísindamenn fundu út að lyfið var áhrifaríkt gegn streptókokkasýkingum eins og heilahimnubólgu og barnsfararsótt. Önnur súlfonamíð sýklalyf voru þróuð í kjölfarið sem björguðu mörgum mannslífum og gáfu mannkyninu von um að hægt væri að lækna smitsjúkdóma. Þessi lyf voru til dæmis sulfanilamide, sulfapyridine, sulfathiazole, og sulfadiazine, en sum þessara lyfja eru ekki lengur gefin mönnum. Verk Domagks gáfu því læknisfræðinni sem og skurðlækningum fjölda vopna í baráttunni gegn smitsjúkdómum. En tilkoma penisilíns í síðari heimsstyrjöldinni, sem reyndist vera mun áhrifaríkara í baráttunni gegn bakteríum, sneri athygli manna burtu frá Prontosil og súlfalyfjunum. Árið 1939 var Domagk veitt Nóbelsverðlaun í lífeðlis- og læknisfræði í viðurkenningarskyni fyrir uppgötvun sína á bakteríuskæðum eiginleikum Prontosils. Hann þáði verðlaunin upphaflega, en var neyddur til að hafna þeim þar sem Adolf Hitler hafði bannað þýskum vísindamönnum að taka við Nóbelsverðlaununum með því að hóta þeim handtöku og jafnvel fangelsun. Ástæðan var sú að Nóbelsverðlaunanefndin hafði reitt þýsk yfirvöld til reiði með því að veita Nóbelsverðlaunin árið 1935 til Carls von Ossietzky sem var róttækur þýskur friðarsinni. Eftir að Domagk þáði verðlaunin handtók Gestapó-lögreglan hann, setti hann í fangelsi í viku og neyddi hann til að senda bréf til Nóbelsverðlaunanefndarinnar og hafna verðlaununum.6 Eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar árið 1947 þáði Domagk loks heiðurspeninginn, en verðlaunaféð hafði verið látið renna aftur í sjóð Nóbelsstofnunarinnar. Domagk var sýndur margs konar heiður á ferli sínum, hann var gerður að heiðursdoktor fjölda háskóla um víða veröld, veittar orður og gerður heiðursmeðlimur vísindafélaga. Á síðari hluta starfsferils síns sneri Domagk athygli sinni í leit að nýju sýklalyfi gegn berklum (antitubercular) og þróaði lyfin Conteben og Neoteben sem virkuðu mjög vel gegn sjúkdómnum. En æðsta markmið efnalækninga taldi Domagk vera að lækna og ná stjórn á krabbameini og hann var sannfærður um að það yrði mögulegt í framtíðinni. Árið 1958 fór hann á eftirlaun og sneri þá til gamla háskólans síns í Münster, þar sem hann helgaði tíma sínum í rannsóknir á krabbameini. Auk þess stytti hann sér stundir við listmálun. Domagk lést af völdum hjartaáfalls 24. apríl 1964. Tilvísanir:
- 1 Chemical Heritage Foundation.
- 2 Nobelprize.org.
- 3 E. Grundmann, Gerhardt Domagk: the first man to triumph over infectious diseases, Lift Verlag, Münster, 2004, bls. 14.
- 4 Thomas Hager, The Demon Under the Microscope, Broadway Books; 28 Aug 2007.
- 5 what-when-how.
- 6 Chemical Heritage Foundation.
- Mynd af Domagk: Nobelprize.org. Sótt 23. 8. 2011.
- Domagk við vísindastörf: Universität Greifswald. Sótt 23. 8. 2011.