

Næsti mikilvægi áfangi í sögu búðanna kom í kjölfar innrásarinnar í Sovétríkin. Í hugum nasista voru íbúarnir þar einskis virði, töldust ekki manneskjur og nasistar leituðu leiða til að rýma til fyrir Þjóðverjum. Í kjölfar innrásarhersins komu hópar SS-sveita, sem höfðu það eina markmið að drepa íbúana og þá fyrst og fremst gyðinga. Þetta var gert með því að skjóta fólk og koma líkunum fyrir í fjöldagröfum. Þetta átti fyrst í stað einkum við um karla en síðar líka konur og börn. Þessar aftökur öllu miklu álagi á gerendurna. Annað vandamál fylgdi líka framsókn Þjóðverja: fjöldi stríðsfanga. Fyrstu sovésku stríðsfangarnir voru sendir til Auschwitz þegar árið 1941 og sættu þeir enn verra harðræði en nokkur annar hópur innan búðanna. Þriðja atriðið sem hafði áhrif á þróun búðanna er útrýming fatlaðra í Þýskalandi en þúsundir fatlaðra einstaklinga voru myrtar í gasklefum (eða með sprautum og lyfjagjöf), sem komið var upp í ýmsum stofnunum. Og þar sem þessi aðferð gafst vel var farið að drepa fanga, sem ekki gátu lengur unnið, með þessari sömu aðferð en hún fólst í því að leiða útblástur úr bifreið inn í lokað hólf eða gasvagna.


Í fyrstu voru gyðingar drepnir hvort sem þeir voru vinnufærir eður ei en þegar mönnum varð ljóst mikilvægi vinnuaflsins var farið að velja úr sendingunum. Lestirnar komu á pallinn í Birkenau og þegar búið var að tæma þær var fólkið valið, ýmist sent til vinstri eða hægri, eftir því hvort það taldist vinnufært eða ekki. Lítil börn og gamalt fólk var umsvifalaust sent í gasklefana. Þann 7. október 1944 gerðu starfsmenn í gasklefunum (Sonderkommando) í Birkenau uppreisn sem barin var niður. Um svipað leyti varð breyting á afstöðu manna í Austur-Evrópu og hollusta við Þjóðverja fór minnkandi enda ljóst að þeir voru að tapa stríðinu. Þetta kom meðal annars fram í því að þjóðir eins og Ungverjar, hættu að senda gyðinga til Auschwitz því þeir vissu sem var að slíkt yrði ekki litið mildum augum að stríði loknu. Sovétmenn frelsuðu fangana í Auschwitz 27. janúar 1945. Talið er að af þeirri 1,3 milljónum manna sem sendar voru til Auschwitz hafi 1,1 milljón dáið þar. Í Auschwitz er nú safn. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Voru útrýmingarbúðir nasista í seinni heimsstyrjöldinni allar utan Þýskalands? eftir Pál Björnsson
- Hvernig völdu nasistar fólk til „starfa"“ í útrýmingarbúðunum? eftir Gísla Gunnarsson
- Eru til nákvæmar tölur yfir hvað Hitler drap marga til samans? eftir Gísla Gunnarsson
- Getur verið að færri gyðingar hafi dáið í helförinni en talið hefur verið? eftir Gísla Gunnarsson
- Komu „læknisrannsóknir“ dr. Mengeles heiminum að einhverju gagni? eftir Ulriku Andersson
- The Auschwitz album. The Story of a Transport. Israel Gutman og Bella Gutterman (ritstj.) Yad Vashem, Auschwitz-Birkenau State Museum 2002.
- Rees, Laurence: Auschwitz, the Naziz and the Final Solution. BBC Books 2005.
- Auschwitz-Birkenau State Museum
- Wikipedia: Extermination camp
- Kort af Póllandi: The World Factbook - þýtt og einfaldað af ritstjórn Vísindavefsins
- Mynd af dósum: Zyklon B á Wikipedia
- Mynd af hliðinu og Birkenau brautarpallinum: Auschwitz concentration camp á Wikipedia