Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Margaret Mead og hvert var hennar framlag til mannfræðinnar?

Helga Björnsdóttir

Margaret Mead sem með sanni má kalla eina af mæðrum mannfræðinnar, fæddist 16. desember 1901 í Fíladelfíu í Bandaríkjunum, elst fjögurra systkina. Móðirin var félagsfræðingur að mennt og faðirinn prófessor í hagfræði við háskólann í Pennsylvaníu. Mead lauk meistaraprófi í sálfræði frá Barnard College og stundaði doktorsnám við Columbia-háskólann þar sem hún skráði sig meðal annars í námskeið í mannfræði hjá Franz Boas (1858-1942) og aðstoðarkonu hans Ruth Benedict (1887-1948). Eftir það einbeitti hún sér að mannfræði og lauk doktorsprófi 1929.

Þó sjaldan sé vitnað til verka Mead í dag hafði hún umtalsverð áhrif á mannfræðina. Hún var frumkvöðull í mannfræðilegum rannsóknum á barnæsku, uppeldisaðferðum, kynhlutverkum og áhrifum þeirra á samfélag og menningu. Þá var hún brautryðjandi í notkun ljósmynda og kvikmynda við söfnun gagna á vettvangi og gerði óhikað tilraunir með framsetningu á texta löngu áður en slíkt komst á dagskrá innan mannfræði og annarra fræðigreina.

Árið 1925 hélt Mead til eyjarinnar Tau í Samóa-eyjaklasanum til árs rannsóknardvalar þar sem hún beindi einkum sjónum að stúlkum á eyjunum og þroskaferli unglingsáranna. Niðurstöðurnar birtust í bókinni Coming of Age in Samoa: A Psychological Study of Primitive Youth for Western Civilisation (1928) en þar benti Mead á að ýmis vandamál tengd uppvexti og unglingsárum, sem á þeim tíma voru álitin eðlilegir fylgifiskar unglingsáranna í heimalandi hennar Bandaríkjunum, væru í raun menningarlega sköpuð og háð umhverfi og aðstæðum hverju sinni. Að hennar mati var kynþroski stúlkna á Samóaeyjum og yfirfærsla frá unglingi yfir í fullorðna konu áreynslu- og átakalítil og án nokkurra tilfinningalegra vandkvæða. Hún taldi að bandarískt samfélag gæti lært mikið af því að kynna sér uppeldisaðferðir á Samóaeyjum. Bókin vakti strax mikla athygli og varð mjög vinsæl − ekki síst meðal almennings enda gerði Mead sér ætíð far um að skrifa texta sem allir ættu gott með að skilja.

Árin 1928-1930 dvaldi hún við rannsóknir hjá Manus-fólkinu á Admiralty-eyjum undan ströndum Nýju-Gíneu. Rannsóknarefnið að þessu sinni var fjölskyldulíf og hugmyndir fólksins um kynlíf, hjónaband, barnauppeldi og hið yfirnáttúrlega, en þar taldi hún sig sjá athyglisverða hliðstæður við margt í samfélögum á Vesturlöndum. Niðurstöðurnar birtust í bókinni Growing up in New Guinea (1930) og þar benti hún meðal annars á að vestrænar hugmyndir um að svokallað frumstætt fólk væri á þroskastigi barna, ættu ekki við rök að styðjast.



Mynd frá um 1926. Margaret Mead á milli tveggja ungra stúlkna á Samóaeyjum.

Bókin Sex and Temperament in Three Primitive Societies (1935) byggir á rannsókn sem Mead gerði á árunum 1931 til 1933 er hún dvaldi hjá Tchambuli-, Arapesh- og Mundugumor-fólkinu á Nýju-Gíneu en þar skoðaði hún meðal annars kynhlutverk og þátt þeirra í menningunni. Að hennar mati fólst munurinn á ólíkum birtingarmyndum karllægra og kvenlægra einkenna í þessum þremur samfélögum, í ólíkri menningu og samfélagsgerð en byggði ekki á líffræðilegum mun kynjanna.

Árið 1936 fór Mead til þriggja ára dvalar á Balí með þáverandi eiginmanni sínum, mannfræðingnum Gregory Bateson (1904-1980). Í gagnasöfnun á vettvangi notuðust þau við ljósmyndir og kvikmyndir sem þá var nýjung. Þannig skrásettu þau meðal annars tengsl foreldra og barna, innvígsluathafnir og vinnu listamanna auk þess sem þau söfnuðu fjölda listaverka eftir innfædda listamenn. Afrakstur rannsóknarinnar birtist í bókinni Balinese Character: A Photographic Analysis (1942) og í kjölfarið fylgdi svo kvikmyndin Trance and Dance in Bali (1952).

Sem fræðikona var Mead ekki óumdeild. Kunnust er gagnrýni ástralska mannfræðingsins Derek Freeman (1916-2001) á þá mynd sem Mead dró upp af lífi unglingsstúlkna á Samóaeyjunum sem Freeman taldi vera rómantíska glansmynd sem ætti sér litla sem enga stoð í veruleikanum. Sjálfur dvaldi hann við rannsóknir á eyjunum og að hans mati einkenndist líf ungmenna þar engu síður en annars staðar af tilfinningalegu streitu og ofbeldi. Síðari tíma mannfræðingar hafa bent á að þó túlkun Mead sé um margt einföldun á tilverunni þá byggi staðhæfingar Freemans á líffræðilegri smættunarhyggju og þannig hafi hvorugt þeirra í raun rétt fyrir sér.

Mead var ákaflega vinsæl fræðikona í Bandaríkjunum og til marks um það þá útnefndi tímaritið Time hana “Mother of the World” árið 1969. Hún var óþreytandi að kynna, ekki bara sínar eigin hugmyndir, um samfélagið, fjölskyldu, barnæsku og tengsl kynjanna og hlutverk, heldur einnig mannfræðinga sem slíka. En þó vinsældir hennar meðal almennings sem greinarhöfundar í tímaritum á borð við The Nation, The New York Times og Redbook, sem fyrirlesara og sem þátttakanda í útvarps- og síðar sjónvarpsþáttum, hafi verið miklar þá stóðu þær þó í raun í vegi fyrir að hún væri alltaf samþykkt af sínu eigin fræðasamfélagi. Þannig hafa femíniskir mannfræðingar bent á að Mead, líkt og mörgum samtíðarkonum hennar innan mannfræðinnar, hafi ekki hlotnast sá fræðilegi frami sem henni bar innan mannfræðisamfélagsins. Ástæðuna telja þær vera að finna í vali hennar og áhuga á rannsóknarefnum eins og barnæsku, unglingsárum og kynþroska, hjónabandi og fjölskyldu. Allt eru þetta rannsóknarefni sem karllægur hugsunarháttur mannfræðinnar hefur til skamms tíma álitið vera kvenleg og því lítt verðug sem alvarleg rannsóknarefni mannfræðinga. Þannig talaði mannfræðingurinn A. C. Haddon (1855-1940) um verk Mead sem “observation of a lady novelist” og E. E. Evans-Pritchard (1902-1973) vísaði til verka hennar sem kvenlegra “rustling-of-the-wind-in-the-palm-trees”-skrifa.

Mead var frábær rannsakandi og afkastamikil fræðikona. Á árunum 1925-1975 birtust eftir hana rúmlega 1.300 ritverk af ýmsu tagi, þar á meðal eitt verk sem er minna þekkt en mörg önnur en þó vel þess virði að á það sé bent. Það er bókin Rap on Race (1971) sem inniheldur samtal Mead og bandaríska rithöfundarins James Baldwin (1924-1987). Póstmódernísk sjónarhorn höfðu margvísleg áhrif innan mannfræðinnar og meðal annars er hugmyndin um hinn margradda texta sem gerir ólíkum sjónarhornum jafnhátt undir höfði þaðan komin. Mead, sem var mikill og góður stílisti, orti ljóð og skrifaði mikið um rannsóknir sínar og reynslu, hafði sjálft gert tilraunir í þessa átt með texta en í samtalsbók þeirra Baldwins er þetta form nýtt til hins ýtrasta á listilegan hátt.

Mead starfaði lengst af sem safnvörður við American Museum of Natural History í New York og sinnti kennslu við ýmsar stofnanir. Hún lést árið 1978.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

Bækur og greinar um Margaret Mead og rannsóknir hennar:

  • Bateson, M.C. (1984). With a daughter’s eye: A memoir of Margaret Mead and Gregory Bateson. New York: William Morrow.
  • Caffey, M. og Francis, P.A. (ritstjórar) (2006). To cherish the life of the world: Selected letters of Margaret Mead. New York: Basic Books.
  • Feinberg, R. (1988). Margaret Mead and Samoa: Coming of Age in fact and fiction. American Anthropologist 90: 656–663.
  • Foerstel, L, og Gilliam, A. (ritstjórar) (1992). Confronting the Margaret Mead legacy: Scholarship, empire and the South Pacific. Philadelphia: Temple University Press.
  • Freeman, D. (1999) The fateful hoaxing of Margaret Mead: A historical analysis of her Samoan research. Boulder: Westview Press.
  • Howard, J. (1984). Margaret Mead: A life. New York: Simon and Schuster.
  • Mead, M. (1972). Blackberry winter: My earlier years. New York: William Morrow.

Höfundur

doktorsnemi í mannfræði

Útgáfudagur

26.4.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Helga Björnsdóttir. „Hver var Margaret Mead og hvert var hennar framlag til mannfræðinnar?“ Vísindavefurinn, 26. apríl 2011, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=59299.

Helga Björnsdóttir. (2011, 26. apríl). Hver var Margaret Mead og hvert var hennar framlag til mannfræðinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=59299

Helga Björnsdóttir. „Hver var Margaret Mead og hvert var hennar framlag til mannfræðinnar?“ Vísindavefurinn. 26. apr. 2011. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=59299>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Margaret Mead og hvert var hennar framlag til mannfræðinnar?
Margaret Mead sem með sanni má kalla eina af mæðrum mannfræðinnar, fæddist 16. desember 1901 í Fíladelfíu í Bandaríkjunum, elst fjögurra systkina. Móðirin var félagsfræðingur að mennt og faðirinn prófessor í hagfræði við háskólann í Pennsylvaníu. Mead lauk meistaraprófi í sálfræði frá Barnard College og stundaði doktorsnám við Columbia-háskólann þar sem hún skráði sig meðal annars í námskeið í mannfræði hjá Franz Boas (1858-1942) og aðstoðarkonu hans Ruth Benedict (1887-1948). Eftir það einbeitti hún sér að mannfræði og lauk doktorsprófi 1929.

Þó sjaldan sé vitnað til verka Mead í dag hafði hún umtalsverð áhrif á mannfræðina. Hún var frumkvöðull í mannfræðilegum rannsóknum á barnæsku, uppeldisaðferðum, kynhlutverkum og áhrifum þeirra á samfélag og menningu. Þá var hún brautryðjandi í notkun ljósmynda og kvikmynda við söfnun gagna á vettvangi og gerði óhikað tilraunir með framsetningu á texta löngu áður en slíkt komst á dagskrá innan mannfræði og annarra fræðigreina.

Árið 1925 hélt Mead til eyjarinnar Tau í Samóa-eyjaklasanum til árs rannsóknardvalar þar sem hún beindi einkum sjónum að stúlkum á eyjunum og þroskaferli unglingsáranna. Niðurstöðurnar birtust í bókinni Coming of Age in Samoa: A Psychological Study of Primitive Youth for Western Civilisation (1928) en þar benti Mead á að ýmis vandamál tengd uppvexti og unglingsárum, sem á þeim tíma voru álitin eðlilegir fylgifiskar unglingsáranna í heimalandi hennar Bandaríkjunum, væru í raun menningarlega sköpuð og háð umhverfi og aðstæðum hverju sinni. Að hennar mati var kynþroski stúlkna á Samóaeyjum og yfirfærsla frá unglingi yfir í fullorðna konu áreynslu- og átakalítil og án nokkurra tilfinningalegra vandkvæða. Hún taldi að bandarískt samfélag gæti lært mikið af því að kynna sér uppeldisaðferðir á Samóaeyjum. Bókin vakti strax mikla athygli og varð mjög vinsæl − ekki síst meðal almennings enda gerði Mead sér ætíð far um að skrifa texta sem allir ættu gott með að skilja.

Árin 1928-1930 dvaldi hún við rannsóknir hjá Manus-fólkinu á Admiralty-eyjum undan ströndum Nýju-Gíneu. Rannsóknarefnið að þessu sinni var fjölskyldulíf og hugmyndir fólksins um kynlíf, hjónaband, barnauppeldi og hið yfirnáttúrlega, en þar taldi hún sig sjá athyglisverða hliðstæður við margt í samfélögum á Vesturlöndum. Niðurstöðurnar birtust í bókinni Growing up in New Guinea (1930) og þar benti hún meðal annars á að vestrænar hugmyndir um að svokallað frumstætt fólk væri á þroskastigi barna, ættu ekki við rök að styðjast.



Mynd frá um 1926. Margaret Mead á milli tveggja ungra stúlkna á Samóaeyjum.

Bókin Sex and Temperament in Three Primitive Societies (1935) byggir á rannsókn sem Mead gerði á árunum 1931 til 1933 er hún dvaldi hjá Tchambuli-, Arapesh- og Mundugumor-fólkinu á Nýju-Gíneu en þar skoðaði hún meðal annars kynhlutverk og þátt þeirra í menningunni. Að hennar mati fólst munurinn á ólíkum birtingarmyndum karllægra og kvenlægra einkenna í þessum þremur samfélögum, í ólíkri menningu og samfélagsgerð en byggði ekki á líffræðilegum mun kynjanna.

Árið 1936 fór Mead til þriggja ára dvalar á Balí með þáverandi eiginmanni sínum, mannfræðingnum Gregory Bateson (1904-1980). Í gagnasöfnun á vettvangi notuðust þau við ljósmyndir og kvikmyndir sem þá var nýjung. Þannig skrásettu þau meðal annars tengsl foreldra og barna, innvígsluathafnir og vinnu listamanna auk þess sem þau söfnuðu fjölda listaverka eftir innfædda listamenn. Afrakstur rannsóknarinnar birtist í bókinni Balinese Character: A Photographic Analysis (1942) og í kjölfarið fylgdi svo kvikmyndin Trance and Dance in Bali (1952).

Sem fræðikona var Mead ekki óumdeild. Kunnust er gagnrýni ástralska mannfræðingsins Derek Freeman (1916-2001) á þá mynd sem Mead dró upp af lífi unglingsstúlkna á Samóaeyjunum sem Freeman taldi vera rómantíska glansmynd sem ætti sér litla sem enga stoð í veruleikanum. Sjálfur dvaldi hann við rannsóknir á eyjunum og að hans mati einkenndist líf ungmenna þar engu síður en annars staðar af tilfinningalegu streitu og ofbeldi. Síðari tíma mannfræðingar hafa bent á að þó túlkun Mead sé um margt einföldun á tilverunni þá byggi staðhæfingar Freemans á líffræðilegri smættunarhyggju og þannig hafi hvorugt þeirra í raun rétt fyrir sér.

Mead var ákaflega vinsæl fræðikona í Bandaríkjunum og til marks um það þá útnefndi tímaritið Time hana “Mother of the World” árið 1969. Hún var óþreytandi að kynna, ekki bara sínar eigin hugmyndir, um samfélagið, fjölskyldu, barnæsku og tengsl kynjanna og hlutverk, heldur einnig mannfræðinga sem slíka. En þó vinsældir hennar meðal almennings sem greinarhöfundar í tímaritum á borð við The Nation, The New York Times og Redbook, sem fyrirlesara og sem þátttakanda í útvarps- og síðar sjónvarpsþáttum, hafi verið miklar þá stóðu þær þó í raun í vegi fyrir að hún væri alltaf samþykkt af sínu eigin fræðasamfélagi. Þannig hafa femíniskir mannfræðingar bent á að Mead, líkt og mörgum samtíðarkonum hennar innan mannfræðinnar, hafi ekki hlotnast sá fræðilegi frami sem henni bar innan mannfræðisamfélagsins. Ástæðuna telja þær vera að finna í vali hennar og áhuga á rannsóknarefnum eins og barnæsku, unglingsárum og kynþroska, hjónabandi og fjölskyldu. Allt eru þetta rannsóknarefni sem karllægur hugsunarháttur mannfræðinnar hefur til skamms tíma álitið vera kvenleg og því lítt verðug sem alvarleg rannsóknarefni mannfræðinga. Þannig talaði mannfræðingurinn A. C. Haddon (1855-1940) um verk Mead sem “observation of a lady novelist” og E. E. Evans-Pritchard (1902-1973) vísaði til verka hennar sem kvenlegra “rustling-of-the-wind-in-the-palm-trees”-skrifa.

Mead var frábær rannsakandi og afkastamikil fræðikona. Á árunum 1925-1975 birtust eftir hana rúmlega 1.300 ritverk af ýmsu tagi, þar á meðal eitt verk sem er minna þekkt en mörg önnur en þó vel þess virði að á það sé bent. Það er bókin Rap on Race (1971) sem inniheldur samtal Mead og bandaríska rithöfundarins James Baldwin (1924-1987). Póstmódernísk sjónarhorn höfðu margvísleg áhrif innan mannfræðinnar og meðal annars er hugmyndin um hinn margradda texta sem gerir ólíkum sjónarhornum jafnhátt undir höfði þaðan komin. Mead, sem var mikill og góður stílisti, orti ljóð og skrifaði mikið um rannsóknir sínar og reynslu, hafði sjálft gert tilraunir í þessa átt með texta en í samtalsbók þeirra Baldwins er þetta form nýtt til hins ýtrasta á listilegan hátt.

Mead starfaði lengst af sem safnvörður við American Museum of Natural History í New York og sinnti kennslu við ýmsar stofnanir. Hún lést árið 1978.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

Bækur og greinar um Margaret Mead og rannsóknir hennar:

  • Bateson, M.C. (1984). With a daughter’s eye: A memoir of Margaret Mead and Gregory Bateson. New York: William Morrow.
  • Caffey, M. og Francis, P.A. (ritstjórar) (2006). To cherish the life of the world: Selected letters of Margaret Mead. New York: Basic Books.
  • Feinberg, R. (1988). Margaret Mead and Samoa: Coming of Age in fact and fiction. American Anthropologist 90: 656–663.
  • Foerstel, L, og Gilliam, A. (ritstjórar) (1992). Confronting the Margaret Mead legacy: Scholarship, empire and the South Pacific. Philadelphia: Temple University Press.
  • Freeman, D. (1999) The fateful hoaxing of Margaret Mead: A historical analysis of her Samoan research. Boulder: Westview Press.
  • Howard, J. (1984). Margaret Mead: A life. New York: Simon and Schuster.
  • Mead, M. (1972). Blackberry winter: My earlier years. New York: William Morrow.
...