Það er til dæmis útbreidd skoðun meðal líffræðinga að ytri gerð brjóstanna hafi líklega þróast sem síðkomið kyneinkenni til að laða að karlmenn. Ein kenning byggir á þeirri staðreynd að ólíkt flestum öðrum prímötum sýna konur ekki greinileg, líkamleg einkenni þegar þær hafa egglos. Kenningin gengur svo út á að við þróun manna hafi þeir smám saman farið að bregðast við minna áberandi merkjum um egglos. Þegar tími eggloss í tíðahring konu nálgast eykst magn estrógena í líkama hennar sem veldur því meðal annars að brjóstin þrútna svolítið. Náttúruval hafi því ef til vill orðið í átt að þrýstnari brjóstum þar sem karlmenn myndu frekar laðast að konum með þrýstin brjóst því þær væru líklegri til að vera með egglos, og þannig líklegra að mökun með þeim leiddi til getnaðar. Þetta hefði svo aftur aukið líkur kvenna með þrýstnari brjóst til að eignast afkvæmi.
Brjóst eru mun meira áberandi hjá kvenkyni manna en hjá öðrum spendýrum.
- Eru brjóst kynfæri eða eru þau bara til að gefa börnum mjólk? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hvernig þróuðust spenar á spendýrum? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvers vegna hylja konur brjóstin á Vesturlöndum en ekki sums staðar í Afríku? eftir Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur
- Mynd af brjóstum er af Stationæry.
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.