Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Út frá líffræðilegu sjónarmiði er megin tilgangur brjósta að framleiða mjólk fyrir afkvæmi þó þróun brjósta geti átt sér fleiri skýringar eins og nánar verður vikið að hér á eftir. Orðið kynfæri er aftur á móti samheiti fyrir æxlunarfæri eða getnaðarfæri samkvæmt Íslenskri orðabók (2002). Brjóst eru því ekki hluti kynfæranna þó þau séu oft á meðal mest áberandi kyneinkenna kvenna, nátengd kynímynd og jafnvel kynlífi.
Kvendýr allra spendýrategunda mynda mjólk sem fæðu fyrir ungviðið. Mjólkin myndast í sérstökum mjólkurkirtlum í spenunum og berst í munn ungviðis þegar það sýgur spenann eða geirvörtuna. Hjá flestum öðrum spendýrum en manninum eru spenarnir aðeins þrýstnir þegar mjólkurmyndun er í gangi. Konur eru aftur á móti alltaf með ávöl, útstæð brjóst þótt þau stækki að vísu við meðgöngu og eftir fæðingu barns.
Brjóstin sitja ofan á brjóstvöðvunum og ná oftast frá öðru rifbeini að því sjötta. Þau eru gerð úr fitu- og kirtlavef ásamt liðböndum. Að utan er brjóstið þakið húð og hefur hvort brjóst eina geirvörtu, en umhverfis hana er vörtubaugur sem getur verið allt frá því að vera bleikur yfir í dökkbrúnn á lit. Inni í brjóstinu eru nokkrir fitukirtlar og stærri mjólkurkirtlar myndaðir úr kirtilblöðrum. Mjólkin safnast í þær og berst við sog barns eftir mjólkurrásum út í geirvörtu. Hvort brjóst hefur 10-20 mjólkurrásir sem opnast út í geirvörtuna, og þess vegna má sjá nokkrar bunur af mjólk koma samtímis út úr geirvörtunni þegar kona gefur barni sínu brjóst.
Undir eðlilegum kringumstæðum fara brjóst ekki að stækka fyrr en í upphafi kynþroskaskeiðs hjá stúlkum og gerist það vegna áhrifa kvenkynhormóna. Fyrir kynþroska hafa stúlkur og drengir sams konar brjóst. Það eru sem sagt einnig mjólkurkirtlar í brjóstum karla. Þeir þroskast hins vegar aldrei undir eðlilegum kringumstæðum, en mjólkurkirtlar þroskast ekki fyrr en á meðgöngu. Þó eru þekkt einstök dæmi þess að brjóst þroskist meðal karla og einnig kemur fyrir að mjólkurmyndun fari í gang hjá báðum kynjum sem aukaverkun ákveðinna lyfja, til að mynda sumra geðlyfja, eða vegna mikillar líkamlegrar streitu eða kvilla í innkirtlum.
Sú spurning vaknar hvers vegna brjóst séu aðeins áberandi hjá kvenkyni mannsins en ekki hjá öðrum spendýrum. Það virðist vera einhver önnur ástæða fyrir þessu en mjólkurmyndun, þar sem mjólkurmyndun gengur ekki síður hjá öðrum kvenspendýrum án áberandi brjósta. Ýmsar kenningar hafa verið settar fram um þetta efni. Það er til dæmis útbreidd skoðun meðal líffræðinga að ytri gerð brjóstanna hafi líklega þróast sem síðkomið kyneinkenni til að laða að karlmenn. Ein kenning byggir á þeirri staðreynd að ólíkt flestum öðrum prímötum sýna konur ekki greinileg, líkamleg einkenni þegar þær hafa egglos. Kenningin gengur svo út á að við þróun manna hafi þeir smám saman farið að bregðast við minna áberandi merkjum um egglos. Þegar tími eggloss í tíðahring konu nálgast eykst magn estrógena í líkama hennar sem veldur því meðal annars að brjóstin þrútna svolítið. Náttúruval hafi því ef til vill orðið í átt að þrýstnari brjóstum þar sem karlmenn myndu frekar laðast að konum með þrýstin brjóst því þær væru líklegri til að vera með egglos, og þannig líklegra að mökun með þeim leiddi til getnaðar. Þetta hefði svo aftur aukið líkur kvenna með þrýstnari brjóst til að eignast afkvæmi.
Það er útbreidd skoðun meðal líffræðinga að ytri gerð brjóstanna hafi líklega þróast sem síðkomið kyneinkenni til að laða að karlmenn.
Dýrafræðingurinn Desmond Morris setti fram þá umdeildu kenningu fyrir hálfri öld eða svo að þróun brjósta kvenna hafi verið í þeim tilgangi að „herma eftir“ rasskinnum þeirra. Hann rökstuddi þetta með því að þegar maður og kona makast eru þau venjulega augliti til auglitis, á meðan helsta mökunarstelling annarra prímata er að karldýrið nálgast kvendýrið aftan frá og blasa þá rasskinnar þess við. Samkvæmt honum voru því brjóstin síðkomið kyneinkenni framan á konum, sem jók líkur á mökun þegar forfeður okkar mættust augliti til auglitis.
Enn aðrir telja að lögun brjósta hafi þróast á þennan hátt þar sem hún dragi úr líkum á því að ungbarn sem sýgur brjóstið kafni í leiðinni. Börn hafa ekki framstæðan kjálka eins og forfeður okkar og aðrir prímatar, og því er hugsanlegt að flatt brjóst hefði getað hindrað flæði lofts inn í nef barna. Samkvæmt þessari kenningu stækkaði brjóstið eftir því sem kjálkinn minnkaði til að koma í veg fyrir köfnun.
Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um brjóst eða móðurmjólk, til dæmis:
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Eru brjóst kynfæri eða eru þau bara til að gefa börnum mjólk?“ Vísindavefurinn, 21. ágúst 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6138.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2006, 21. ágúst). Eru brjóst kynfæri eða eru þau bara til að gefa börnum mjólk? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6138
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Eru brjóst kynfæri eða eru þau bara til að gefa börnum mjólk?“ Vísindavefurinn. 21. ágú. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6138>.