Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvernig kemur brjóstamjólk í veg fyrir að ungbörn veikist?
Er móðurmjólkin hollari en kúamjólk eða þurrmjólk?
Móðurmjólk er fullkomin fæða fyrir ungbörn. Í henni eru (í hárréttum hlutföllum) öll þau næringarefni sem ungbörn þarfnast, það er sykrur, prótín, fita, vítamín og steinefni. Það næringarefni sem helst skortir í móðurmjólk er járn. Járnbirgðir í heilbrigðum nýburum við fæðingu duga þeim aftur á móti allt til átta mánaða aldurs. Sjálfsagt er að gefa börnum járnríkt fæði eftir það.
Sykurinn í brjóstamjólk er mjólkursykur sem er þess eðlis að hann skemmir ekki tennur. Móðurmjólk inniheldur einnig meltingarensím sem gera hana auðmelta og hormón sem öll ungbörn þurfa á að halda til að vaxa og þroskast.
Mótefni og önnur efni ónæmiskerfisins finnast einnig í móðurmjólk og gefa nýburum aukið viðnám gegn sýkingum. Rannsóknir hafa sýnt að brjóstagjöf ver barnið gegn sýkingum í öndunarfærum og meltingarfærum eða dregur að minnsta kosti úr alvarleika þeirra. Í töflum yfir þau efni ónæmiskerfisins sem finnast í móðurmjólk er langur listi efna sem vinna gegn fjölda bakteríu- og veirusýkinga, auk þess að vinna gegn algengri sveppasýkingu (þrusku).
Efnasamsetning móðurmjólkur breytist á fyrstu dögum eftir fæðinguna í samræmi við þarfir barnsins. Fyrsta mjólkin sem kemur í brjóstin er svokölluð broddmjólk. Hún er fitusnauð en rík af sykrum og prótínum og einnig mótefnum. Broddmjólk er mjög auðveld í meltingu og virkar svolítið leysandi. Það hjálpar ungbarninu að hafa fyrstu hægðir sínar sem stuðlar að þveiti gallrauðu úr líkamanum og dregur þar með úr hættu á gulu.
Auk þess inniheldur broddmjólk mikið af lifandi frumum, hvítfrumum, sem verja barnið gegn mörgum skaðlegum fyrirbærum. Broddmjólkin virkar reyndar sem náttúrulegt og 100% árangursríkt bóluefni.
Broddmjólk hefur enn einu mikilvægu hlutverki að gegna og tengist það meltingarvegi barnsins. Smáþarmar nýbura eru mjög gegndræpir. Broddmjólkin lokar götunum með því að þekja meltingarveginn að innan með lagi sem hindrar för flestra framandi efna í gegn. Þetta er talið koma í veg fyrir að fæða sem móðirin hefur neytt hafi hugsanleg slæm áhrif á barnið.
Yfirleitt hefst framleiðsla á þroskaðri mjólk í kringum þriðja eða fjórða dag eftir fæðingu. Mjólkurmagnið eykst í kjölfarið og mjólkin verður þynnri og ljósari á lit í samanburði við broddmjólkina. Þótt magn mótefna í þroskaðri mjólk sé minna en í broddmjólk kemur það ekki að sök þar sem barnið innbyrðir miklu meiri mjólk en áður. Svo lengi sem barn drekkur móðurmjólk fær það ónæmisvörn gegn mörgum tegundum veiru- og bakteríusjúkdóma.
Kúamjólk hentar ekki ungbörnum yngri en ársgömlum. Börn geta fengið ofnæmi fyrir mjólkurafurðum fái þau kúamjólk of snemma. Sem dæmi um mun á móðurmjólk og kúamjólk má nefna að kúamjólk inniheldur um það bil þrefalt meira magn af prótínum en móðurmjólkin og fjórfalt meira af kalki, enda vaxtarhraði kálfa mun meiri en barna. Þótt kúamjólkin innihaldi flest sömu efnin og móðurmjólkin eru þau ekki í sama magni. Auk þess skortir kúamjólk ónæmisþættina sem verja ungbörnin þar til þeirra eigið ónæmiskerfi hefur náð að þroskast.
Þurrmjólkurduft ætlað ungbörnum er stundum gert úr fitusnauðri kúamjólk, mjólkurprótínum eða sojaprótínum. Sömu annmarkar eru á þessari mjólk og kúamjólkinni. Til þess að sinna næringarþörfum ungbarna með þurrmjólk þarf að bæta í hana sykrum, fitu, steinefnum og vítamínum. Hins vegar er aldrei hægt að bæta í hana mótefnunum sem eru í móðurmjólk. Engin þurrmjólk getur því komið að öllu leyti í staðinn fyrir móðurmjólkina.
Heimildir og myndir:
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvaða efni eru í móðurmjólk?“ Vísindavefurinn, 1. mars 2004, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4030.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2004, 1. mars). Hvaða efni eru í móðurmjólk? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4030
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvaða efni eru í móðurmjólk?“ Vísindavefurinn. 1. mar. 2004. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4030>.