Ólíkt tannhvölum lifa skíðishvalir yfirleitt í frekar lausmótuðum samfélögum. Hópar hnúfubaka eru til að mynda síbreytilegir. Sömu dýrin hópa sig alls ekki alltaf saman heldur virðist hópamyndunin vera nokkuð tilviljanakennd á sama svæðinu hverju sinni. Hóparnir halda stutt saman, frá einni klukkustund og upp í nokkra daga. Þó eru til dæmi um stöðugri hópa en þau eru fátíð. Sést hefur til hnúfubaka í Norður-Atlantshafinu vinna saman að fæðuöflun og það sama má segja um langreyða og norðhvali (Balaena mysticetus). Líklegt má telja að það sama gildi um fleiri tegundir skíðishvala sem ekki hafa enn verið rannsakaðar í þessu samhengi. Í Skjálfandaflóa hafa náðst upptökur af samskiptahljóðum hnúfubaka við veiðar. Hnúfubakar gefa hljóðmerkin gjarnan frá sér þegar nokkur dýr vinna saman að veiðunum. Á sama svæði hafa einnig náðst upptökur af samskiptahljóðum steypireyða yfir sumartímann. Hvort steypireyðarnar eru þá að vinna saman að fæðuöflun, skiptast á upplýsingum um staðsetningu annarra streypireyða eða að tryggja sér yfirráðasvæði, er ekki vitað. Þó er ljóst að steypireyðarnar eiga í ákveðnum samskiptum sín á milli á fæðusvæðum sínum. Á æxlunarsvæðum hnúfubaka og örsjaldan á fæðusvæðum, mynda karldýrin hópa sem keppa við aðra karlhópa um aðgang að kvendýrum, rétt eins og höfrungar gera.
Ólík kúm tannhvala eru kvendýr skíðishvala að jafnaði stærri en karldýr sömu tegundar. Ekki er vitað til þess að kvendýr skíðishvala hjálpist að við umönnun kálfanna. Þær þurfa því að treysta á eigin líkamsburði til að vernda kálfinn sinn. Kálfurinn er háður móður sinni fyrstu 4–11 mánuðina. Þá nærist hann eingöngu á móðurmjólkinni. Mjólkin er einstaklega næringarrík og feit og kálfurinn margfaldar þyngd sína á nokkrum mánuðum. Þegar hann hefur náð ákveðinni stærð og þyngd er hann tilbúinn að fylgja móður sinni á fæðustöðvar á kaldari hafsvæðum, svo sem í Norður-Atlantshafi. Mikilvægt er að kálfurinn nái að margfalda líkamsstærð sína fyrstu mánuðina til að þola ferðalagið. Þegar á fæðustöðvarnar kemur fer mest allur tími móðurinnar í að nærast sjálf og því verður kálfurinn mun berskjaldaðri fyrir ýmsum hættum. Þá kemur líkamsstærð kálfsins sér vel þar sem aðrir hvalir eru ekki til staðar til að líta eftir honum líkt og gengur og gerist á meðal tannhvala. Frekara lesefni á Vísindavefnum eftir sama höfund:
- Hvernig er félagskerfi tannhvala?
- Af hverju ferðast skíðishvalir hafsvæða á milli til að makast og bera kálfa?
- Hvert er helsta einkenni skíðishvala og hvað eru til margar tegundir af þeim?
- Hvernig éta skíðishvalir og á hverju lifa þeir aðallega?
- Af hverju eru skíðishvalir ekki jafnfélagslyndir og tannhvalir?
- Baird, R. W. (2000) The killer whale: Foraging specializations and group hunting. In: Cetacean societies: Field studies of dolphins and whales, eds., J. Mann, R. C. Connor, P. L. Tyack & H. Whitehead. University of Chicago Press.
- Clapham, P. J. (1993) Social organization of humpback whales on a North Atlantic feeding ground. Symposia of the Zoological Society (London) 66:131–45.
- Connor, R. C., Mann, J., Tyack, P. L. & Whitehead, H. 1998. Social evolution in toothed whales. Trends in Ecology and Evolution 13:228–32.
- Edda Elísabet Magnúsdóttir, Rasmussen, M.H., and Lammers, M.O. 2010. Combining visual and fixed passive acoustic methods to measure annual variability of cetacean occurrence at the NE-coast of Iceland. Lecture at the 159th Meeting of the Acoustical Society of America, Baltimore, Maryland, 19. - 23. April 2010.
- Rendell, L. & Whitehead, H. 2001. Culture in whales and dolphins. Behavioural and brain science 24:309 – 382.
- Tershy, B. R. 1992. Body size, diet, habitat use and social behavior of Balenoptera whales in the Gulf of California. Journal of Mammalogy 73:477 – 486.
- Whitehead, H. & Weilgart, L. 2000. The sperm whale: social females and roving males. In: Cetacean Societies, eds., J. Mann, R. C. Connor, P. Tyack & H. Whitehead. University of Chicago Press.
- Weinrich, M. T., Rosenbaum, H., Baker, C. S., Blackmer, A. L and Whitehead, H. 2006. The Influence of Maternal Lineages on Social Affiliations among Humpback Whales (Megaptera novaeangliae) on Their Feeding Grounds in the Southern Gulf of Maine. Journal of Heridity 97:226 – 234.
- Divetrip.com. © Copyright Amos Nachoum. Sótt 19.10.2010.