Með sjógúlpnum berst fjöldinn allur af smáum lífverum upp í hvalinn. Því næst þrýstir hann vatninu út á milli skíðanna en fæðan situr eftir á skíðunum, hvalurinn notar svo tunguna til að ná fæðunni af skíðunum og til að kyngja henni. Reyðarhvalir geta með þessu móti viðhaldið straumlínulöguðum líkama, sem hentar vel þegar þeir synda og það er aðeins á því augnabliki sem þeir ná sér í fæðu að þeir margfalda rúmmál líkama síns. Skíðishvali af sléttbakaætt (Balaenidae), það er norðhvalur og sléttbakar, skortir rengi en þeir hafa aftur á móti gríðarstóran kjaft og ákaflega löng skíði. Þessi líkamlegu eiginleikar gera það að verkum að norðhvalurinn og sléttbakarnir eru mun þunglamalegri og hægari á sundi en reyðarhvalir. Í stað þess að þenja kjaftinn út, líkt og reyðarhvalir, þá synda hvalir af sléttbakaætt um með opinn kjaftinn og sía þannig smáar sjávarlífverur úr sjónum.
Flestir reyðarhvalir eru lítt matvandir og sækja meira eða minna í það sem að kjafti kemur. Steypireyðurin er þó undantekning frá þessu því hún er vandlát á fæðu og sækir fyrst og fremst í krabbaflær (til dæmis Copepoda og Euphausiacea). Hinar hvalaættirnar eru líkt og steypireyðurin mjög sérhæfðar í fæðuvali. Sléttbakaættin og smásléttbakaættin nærast nær eingöngu á krabbaflóm. Smásléttbakaættin telur aðeins eina tegund, það er smásléttbakur, hann er líkt og sléttbakar og sandlægjur, án rengis. Mjög lítið er vitað um þennan dularafulla smáskíðishval en hann hefur aðeins fundist við suðurheimskautið. Fjórða ætt skíðishvala, sandlægjuættin, telur einnig aðeins eina tegund. Þessi ætt er talin útdauð í Norður-Atlantshafi og finnst nær eingöngu í Kyrrahafinu. Ólíkt öðrum skíðishvölum nærist sandlægjan eingöngu á botndýrum, þá helst marflóm. Þær veiðir hún með því að róta upp í sandbotninum með skoltinum og sía svo marflærnar úr upprótinu.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvert er helsta einkenni skíðishvala og hvað eru til margar tegundir af þeim? eftir Eddu Elísabetu Magnúsdóttur. Í því svari er einnig að finna heimildaskrá.
- Af hverju ferðast skíðishvalir hafsvæða á milli til að makast og bera kálfa? eftir Eddu Elísabetu Magnúsdóttur
- Af hverju eru skíðishvalir ekki jafnfélagslyndir og tannhvalir? eftir Eddu Elísabetu Magnúsdóttur
- Hvernig geta skíðishvalir étið fisk? eftir Jón Má Halldórsson
- Eru hvalir í útrýmingarhættu í dag? eftir Jón Má Halldórsson
- Hversu mikið af fiski éta hvalir? eftir Jakob Jakobsson
- Underwater Times - Sótt 28.05.10
- National Geographic Society - Sótt 28.05.10
- Wordpress - Sótt 28.05.10