Holugeitungur og trjágeitungur (Vespula germanica) hafa komið sér vel fyrir víða um land. Tegundirnar teljast vera ágengar víða um heim þar sem þær hafa breiðst út og vinna tjón í ýmsum atvinnugreinum, svo sem í ávaxtarækt og býflugnarækt. Holugeitungur á það til að leita í býflugnabú og ræna hunangi úr því. Nýsjálenskar rannsóknir hafa sýnt að holugeitungar hafa eyðilagt eða skaddað verulega allt að 10% hunangsbúa þar í landi en holugeitungur er tiltölulega nýlegur landnemi þar. Auk þess hefur hann komið sér fyrir í vistkerfinu og valdið umtalsverðri röskun á fæðukeðjunni, þar sem hann étur skordýr í samkeppni við aðra náttúrlega afræningja, bæði skordýr og fugla. Fyrir utan vistfræðilegt og efnahagslegt tjón sem holugeitungurinn veldur þar og víðar getur hann verið hættulegur mönnum. Nýsjálenskur skordýrafræðingur framkvæmdi rannsókn á fæðuvali geitunga á tveimur stöðum á suðurey Nýja-Sjálands. Geitungar sem voru á leið í búið voru fangaðir í gildrur og kannað var hvað þeir höfðu í kjaftinum. Um var að ræða söfnun þerna, bæði meðal trjágeitunga og holugeitunga og niðurstöðurnar bornar saman.
Alls var 7225 flugum safnað og reyndust 11,5% vera með einhverja fæðu ættaða úr dýraríkinu og 5,4% voru með viðaragnir. Af þeim sem voru með dýr í kjaftinum (hjá báðum tegundum og á báðum stöðum) voru tvívængjur (diptera) algengasta fæðan. Því næst komu fiðrildalirfur (Lepidoptera) og svo áttfætlur (Aranaea). Það er ljóst að ofangreindar geitungategundir eru skæðir afræningjar í heimi landhryggleysingja og sjálfsagt efst í fæðukeðjunni (e. apex predator) í þeim vistkerfum þar sem þeir finnast. Líklega lenda einhverjir í köngulóarvef stórra köngulóa en sennilega er ekkert dýr sem er sérhæfður afræningi á þessar geitungategundir. Maðurinn er líklega helsti óvinur geitunga! Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvaðan kemur nafnið geitungur? eftir Gísla Má Gíslason
- Hvað er til margar tegundir af geitungum á Íslandi og hvernig líta þeir út? eftir Jón Má Halldórsson
- Deyja geitungar þegar þeir stinga og eru stungurnar hættulegar fólki? eftir Gísla Má Gíslason og Margréti Björk Sigurðardóttur
- Í dag var mjög stór geitungur inni á heimili okkar, er þetta ný tegund? eftir Jón Má Halldórsson
- Harris, R.J. og E.H. Oliver. Prey diets and population densities of the wasps Vespula vulgaris and V. germanica in scrubland pastures. New Zealand Journal of Ecology 17(1): 5-12. New Zealand Ecological Society. 1993
- Harris, RJ Diet of the wasps Vespula vulgaris and V. germanica in honeydew beech forest of the South Island, New Zealand. New Zealand Journal of Zoology Vol. 18, no. 2, pp. 159-169. 1991.
- Wikipedia.com - Vespula vulgaris. Sótt 6.8.2010.
- Wikipedia.com - Vespula germanica. Sótt 6.8.2010.