Eitthvað er tegundafjöldi ættkvíslarinnar á reiki þar sem breytileiki innan tegundar er vel þekktur vegna seltu og bakteríuflóru í umhverfi þeirra. Alls hafa verið tilgreindar í vísindagreinum 43 tegundir. Tubifex-ormar finnast um alla jörð og við ólík skilyrði. Bæði í ferskvatni og straumvatni, í sjó og í óseyrum og öðrum stöðum þar sem umtalsverðar sveiflur verða í seltustyrk. Tubifex-ánar snúa hausnum ofan í leirbotninn þar sem þeir éta meðal annars bakteríur og rotnandi lífrænar fæðuagnir. Áninn er hjúpaður einhvers konar röri sem hann gerir úr slími (e. mucus) og leirögnum. Upp úr botninum er afturendi hans sem hann sveiflar í takt til að auka vatnsstraum um sig og um leið súrefnisupptöku. Þekkt er að ef súrefnisinnihald vatns fellur fikrar hann sig sífellt lengra út í vatnsmassann til að auka það flatarmál sem hann hefur til að ná í súrefni. Tubifex-ánar halda sig saman í einhvers konar sambúi (e. colony). Fjöldinn getur orðið svo mikill að úr fjarlægð litast botninn rauður. Meðal annars er slíkt þekkt í hinni kunnu Thames-á sem rennur í gegnum Lundúnir á Englandi. Þar hafa þeir verið taldir í tugum þúsunda á hverjum fermetra botns á sumum svæðum. Röraánar eru mikilvæg fæða margra ferskvatnsfiska, svo sem hornsíla (Gasterosteus aculeatus) hér á landi. Frekara lesefni af Vísindavefnum:
- Er orðið "ánamaðkur" dregið af heiti dvergsins Ána í Völuspá? eftir JGÞ
- Hvað geta ánamaðkar orðið stórir? eftir JGÞ
- Af hverju breytist maðkur í tvo maðka ef maður klípur hann í sundur? Gildir þetta um alla orma? eftir Arnþór Garðarsson
- Hvers vegna leita ánamaðkar út á gangstéttir og götur í rigningu? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvernig fjölga ánamaðkar sér? eftir Jón Má Halldórsson
- Drepast ormar í frosti? eftir Jón Má Halldórsson
- Af hverju verða ánamaðkar stundum ljósir? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvernig líta ormar út að innan? eftir Jón Má Halldórsson
- Arrate, Jesús Angel; Rodriguez, Pilar og Martinez-Madrid. 2004. Tubifex tubifex chronic toxicity test using artificial sediment: methodological issues. Limnetica 23(1-2): 25-36.
- Burton, Maurice. 2002. The International Wildlife Encyclopedia. Marshall Cavendish, 2800 bls.
- P.K.. Goel. 2006. Water Pollution - Causes, Effects & Control. New Age International, 432 bls.
- Wikipedia.com - Tubifex tubifex. Sótt 21.6.2010.