Er orðið "ánamaðkur" dregið af heiti dvergsins Ána í Völuspá? Áni og Ánar eru nefndir samhliða og Ánar var nefndur faðir jarðarinnar.Í Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndals segir að orðið ánamaðkur/ánumaðkur sé afbökun á ámumaðkur. Ámumaðkur er dregið af orðinu áma sem hér merkir það sama og ámusótt og á ekkert skylt með ámum sem öl er geymt í. Ámusótt er annað heiti yfir heimakomu sem er smitandi húðsjúkdómur. Ámusjúkir eru rjóðir í andliti, hafa sótthita og finna fyrir eymslum. Áður fyrr var sóttin algeng og leiddi oft til blóðeitrunar. Ámusótt er læknanleg með sýklalyfjum.
- Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, Orðabók Háskólans, Reykjavík, 1989.
- Íslenska alfræðiorðabókin, Örn og Örlygur, Reykjavík 1990.
- Pexels.com. (Sótt 6.9.2022).