Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum sem sólin fylgir á næturhimninum og sjást því stundum í Ljóninu. Skærasta stjarnan í Ljónsmerkinu, Regúlus, er örskammt frá sólbaugnum og sést því oft á svipuðum stað og hnettir sólkerfisins. Loftsteinadrífan Leonítar er kennd við Ljónið sem nefnast Leo á latínu. Leonítar eiga rætur að rekja til halastjörnunnar Tempel-Tuttle. Drífan nær hámarki 17.-18. nóvember og virðist geislapunktur stjörnuhrapanna vera við stjörnuna Algíebu í sigðinni fremst í Ljónsmerkinu. Ljósrákirnar geta birst víða á himninum út frá stjörnunni. Leonítar eru án efa þekktasta loftsteinadrífan en ástæða þessarar miklu frægðar er sú að á um það bil 33 ára fresti fer jörðin í gegnum sérlega þéttan hluta af rykslóða Tempel-Tuttle halastjörnunnar. Árið 1833 var einstaklega mikil loftsteinahríð og gátu áhorfendur sér þess til að sést hefðu um 100 þúsund stjörnuhröp á einni klukkustund! Síðasta öfluga leonítahryðjan kom árið 1966. Ljónið tekur að sjást að kvöldlagi upp úr áramótunum og er á kvöldhimninum fram í apríl. Það er í suðaustri klukkan tíu að kvöldi í mars. Sem fyrr segir mynda fremstu stjörnurnar í Ljóninu áberandi mynstur á himninum og sér fólk út úr því ýmist sigð, speglað spurningamerki eða sjóræningjakrók. Auðveldast er að finna Ljónið á vorhimninum með því að leita að sigðinni fyrir neðan Karlsvagninn í Stórabirni. Í grískum goðsögum segir frá kappanum Herkúlesi sem þarf að leysa tólf þrautir. Í fyrstu þrautinni drepur hann ljón sem síðan var sett upp á himininn. Um 52 stjörnur í Ljóninu sjást með berum augum. Björtustu stjörnurnar eru Regúlus, Denebóla og Algíeba. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvernig lítur stjörnumerkið Vogin út?
- Hvernig lítur stjörnumerkið Fiskarnir út?
- Hvar er hægt að sjá stjörnumerkið Hrútinn og hvað getið þið sagt mér um það?
- Hvernig lítur stjörnumerkið Pegasus út?
- Hvernig lítur stjörnumerkið Tvíburarnir út?
- Hvaða stjörnur og stjörnumerki sjást á himninum seinni hluta vetrar?