Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvernig urðu stjörnumerki til og hver fann þau upp? (Eva Ýr Óttarsdóttir f. 1988)
Hvað er átt við þegar talað er um pólhverf stjörnumerki? (Hrönn Guðmundsdóttir f. 1985)
Hvað eru til mörg stjörnumerki og hvernig verða þau til? (Anna Lilja Óskarsdóttir f. 1987)
Hvernig er hægt að sjá stjörnumerki? (Björn Atli Axelsson f. 1988)
Er Óríon í útþenslu eins og önnur stjörnumerki? (Hrafn Árni Hrólfsson)
Allri himinhvelfingunni er skipt í 88 hluta sem við nefnum stjörnumerki. Hvert stjörnumerki er myndað af litlum stjörnuhópi sem, frá jörðu séð, sýnast tiltölulega nálægt hver annarri. Stjörnurnar í merkjunum tengjast yfirleitt ekkert innbyrðis enda er fjarlægðin milli stjarnanna og einnig til þeirra mjög mismunandi. Útlit merkjanna ræðst af hreyfingum stjarnanna sem mynda þau. Þessar stjörnur eru allar svo fjarlægar að hreyfing þeirra frá ári til árs er agnarlítil og sést yfirleitt ekki með berum augum og því köllum þær fastastjörnur. Á milljón árum getur hreyfing stjarnanna þó verið umtalsverð og ef við skoðum til dæmis hvernig Ljónsmerkið á eftir að líta út eftir milljón ár, sjáum við að Ljónið afmyndast. Merkið sem þá verður til minnir ef til vill heldur á útvarpssjónauka, sem verða þá væntanlega löngu úreltir. Þá verður hins vegar gaman að sjá hvernig stjörnuspekin metur persónuleika þess sem fæðist í útvarpssjónaukamerkinu.
Eins og áður segir er fjarlægðin milli stjarnanna í hverju merki mjög mismunandi. Ef við ferðumst nokkur hundruð eða þúsund ljósár út í geiminn og horfum á stjörnumerkið frá hlið, sjáum við allt aðra mynd af því en frá jörðu. Þá kemur í ljós að allar myndirnar á himninum eru tilviljanakenndar og því engin möguleiki á því að merkin geti haft áhrif á líf okkar. Þegar við tölum um að stjörnuþoka sé í ákveðnu merki, til dæmis Andrómeduþokan, er í raun átt við að hún sé fyrir aftan merkið frá jörðu séð.
Af stjörnumerkjunum 88 sjást 53 merki að öllu leyti eða að hluta frá Íslandi. Nokkur merkjanna eru pólhverf frá Íslandi séð, eins og Stóri-Björn og fleiri, en með því er átt við að þau rísa hvorki né setjast á himinhvelfingunni frá okkur séð, heldur hringsóla um himinpólinn.
Stjörnumerki himinsins eru ekki raunveruleg, en ímynduðu verurnar á himninum eiga líklega rætur að rekja til bænda og stjörnufræðinga sem höfðu hagnýt gildi fyrir merkin. Megintilgangur merkjanna var að segja hvaða stjörnur voru hvar á hverjum tíma. Bændur til forna notuðu merkin til þess að vita hvenær skyldi sá og hvenær taka ætti afraksturinn upp, því sum merki sjást aðeins á sérstökum tíma ársins. Til þess að aðstoða sig við að muna merkin var gott að búa til persónur sem þau minntu ef til vill á.
Þau merki sem við þekkjum í dag eru byggð á hópi 48 grískra persóna sem Kládíus Ptólmæos frá Alexandríu skráði í rit sitt Almagest um 150 e.Kr. Önnur menningarsamfélög höfðu sín merki eins og Forn-Egyptar og Kínverjar en Egyptar teiknuðu upp óvenjulegri merki á borð við kött og flóðhest svo dæmi séu tekin.
Rit Ptólmæosar inniheldur mikilvægustu stjörnumerkin sem sáust frá breiddargráðu Alexandríu, þar sem nú er Kaíró höfuðborg Egyptalands. Á meðal þeirra eru nokkur merki sem margir þekkja ef til vill, eins og til dæmis birnirnir tveir, Svanurinn, Herkúles, Vatnaskrímslið og Vatnsberinn ásamt merkjum Dýrahringsins. Í riti hans er einnig að finna nokkur smærri, óskýrari merki á borð við Folann og Örina.
Sagt hefur verið að himininn sé eins og goðfræðileg myndabók. Á himninum er nefnilega að finna persónur úr mörgum frægum goðsögum, til dæmis flestar persónurnar úr sögunum af Perseifi – þar á meðal sjávarskrímsli eitt sem þó er betur þekkt í dag sem meinlaus hvalur. Á himninum er líka að finna veiðimanninn mikla Óríon sem sest niður fyrir sjóndeildarhringinn og mundar kylfu sína í átt til Nautsins. Þegar Óríon sest, rís drápsvera hans Sporðdrekinn og beinir eiturodda sínum að honum; Herkúles liggur í norðri ásamt fórnarlambi sínu Ljóninu.
Stjörnumerki Ptólmæosar þöktu þó ekki allan himininn og milli þeirra voru skörð sem óhjákvæmilega varð að fylla. Menn bættu þá við nýjum merkjum, stundum með því að breyta upprunalegu mörkunum. Á síðustu árum 16. aldar bjuggu tveir hollenski sjófarendur, Pieter Drikszoon Keyser (1540-96) og Fredrick de Houtman (1571-1627), til tólf ný stjörnumerki á suðurhimininn, þar sem grísku stjörnufræðingarnir sáu ekki til. Hollenski kortagerðamaðurinn Petrus Plancius (1552-1622) bætti þremur merkjum við þau sem Grikkir þekktu og aðskildi hann stjörnurnar í Suðurkrossinum og Mannfáknum. Enn síðar varð að skipta suðurhimninum í fleiri merki og sum heitin bera óneitanlega keim af nútímanum; þar er til dæmis að finna Sjónaukann, Smásjána og Loftpumpuna. Á miðri 18. öld kláruðu menn svo að kortleggja suðurhimininn þegar franski stjörnufræðingurinn Nicolas de Lacaille (1713-63) bjó til fjórtán ný merki og skipti Argó Navis í þrjú merki; Kjölinn, Skutinn og Seglið en upprunalega merkið þótti ekki skynsamlegt.
Hinn merki þýski stjörnufræðingur Jóhannes Hevelíus (1611-87) lauk svo við að kortleggja norðurhimininn - eins og við þekkjum hann í dag - árið 1687. Hevelíus kynnti nokkrar nýjar myndir en af þeim þekkjast sjö enn í dag. Mörk Alþjóðasambands stjarnfræðinga voru svo samþykkt árið 1930 með örlitlum tilbreytingum.
Í gegnum aldirnar hefur oft verið stungið upp á breytingum á stjörnumerkjunum. Árið 1688 stakk til að mynda maður að nafni Erhard Weigel upp á því að stjörnumerkjunum skyldi breytt. Þau áttu að tákna skjaldarmerki hvers lands í Evrópu til heiðurs konungsfjölskyldunum. Þannig átti til dæmis Ljón og Einhyrningur að tákna England. Stjörnumerkin væru þá miklu flóknari en þau eru nú og sem betur fer var hlaupið frá þessari slæmu hugmynd.
En hvernig sjáum við merkin? Við sjáum vitaskuld ekki nein Ljón á himninum eða stóran björn heldur aðeins nokkrar stjörnur sem eiga að mynda útlínur þessara merkja. Merkin eru flest óljós, enda minna fæst þeirra á þær persónur sem þær eiga að tákna. Best er að píra augun á heiðskírri nóttu svo að aðeins björtustu stjörnurnar sjáist, en á þann hátt er auðveldara að sjá merkin. Svo er auðvitað tilvalið að kíkja á stjörnukort og reyna að sjá þannig merkin.
Auðvelt er að koma auga á útlínur stjörnumerkisins Óríons, Veiðimannsins, sem samanstanda af fjórum björtum stjörnum og er tvískipt af þremur stjörnum í miðju merkisins sem eiga að tákna belti Óríons. Úr beltinu hangir sverið Óríons og í miðju sverðsins er mikið ský úr gasi og ryki sem nefnist Sverðþokan. Í Sverðþokunni myndast stjörnur sem þróast hratt og enda líf sitt í miklum sprengingum á milljónum ára. Ef við notum tölvulíkön og reiknum okkur áfram inn í framtíðina sjáum við stjörnurnar í þokunni blikka líkt og eldflugur að nóttu til. Í tölvulíkaninu sjáum við einnig útlínur merkisins breytast líkt og útlínur annarra merkja þannig að eftir milljónir ára prýðir enginn Veiðimaður næturhimininn.
Skoðið einnig skyld svör:
Sævar Helgi Bragason. „Hvað eru til mörg stjörnumerki í himinhvolfinu?“ Vísindavefurinn, 26. júní 2002, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2532.
Sævar Helgi Bragason. (2002, 26. júní). Hvað eru til mörg stjörnumerki í himinhvolfinu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2532
Sævar Helgi Bragason. „Hvað eru til mörg stjörnumerki í himinhvolfinu?“ Vísindavefurinn. 26. jún. 2002. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2532>.