Hrúturinn er talið fyrsta merki dýrahringsins þó að staðreyndin sé sú að með framrás vorpunktsins sé fiskamerkið það í raun. Í grísku goðafræðinni var hrúturinn klæddur gullna reyfinu og Hermes, sendiboði guðanna, sendi hann til að bjarga tveim börnum konungsins í Þessalóníku frá brjálaðri stjúpmóður sinni. Hrúturinn gat flogið og var að bera börnin á öruggan stað þegar stúlkan, Helle, missti jafnvægið, féll til jarðar og lést. Drengurinn Frixus komst á öruggan stað og í þakklætisvott fórnaði hann hrútnum fyrir guðina og var gullna reyfinu komið fyrir í heilagri gröf. Það var síðar fjarlægt af Jasoni og fylgismönnum hans. Þrátt fyrir að hrúturinn sé lítið stjörnumerki er fremur auðvelt að þekkja það á himninum. Merkið er við hlið nautsins í vestri og fiskanna í austri; fyrir ofan það eru Perseifur, þríhyrningurinn og Andrómeda en fyrir neðan er hvalurinn. Ekki er mikið um áhugaverð fyrirbæri í hrútsmerkinu. Björtustu stjörnurnar Hamal (alfa), Sheratan (beta) og Mesartim (gamma) mynda saman nokkuð áberandi þríeyki. Mesartim er fallegt tvístirni sem reyndar er ekki hægt að aðskilja í handsjónauka en auðvelt með stjörnusjónauka. Í merkinu er einnig þyrilvetrarbrautin NGC 772 sem nokkuð auðvelt er að greina í stjörnusjónauka, en hún er af tíunda birtustigi. Heimildir:
- Moore, Patrick og Tirion, Wil. Cambridge Guide to Stars and Planets. Cambridge University Press, Cambridge, Bretland, 1997.
- Discovery Channel Handbook. Night Sky. Discovery Books, New York, Bandaríkin, 1999.