Auðveldast er að finna Meyjuna með því að draga bogalínu í framhaldi af handfangi Karlsvagnsins. Hún lendir á Arktúrusi í Hjarðmanninum og liggur síðan niður að Spíku í Meyjunni. Á myndum sést Meyjan oft halda á körfu af grjónum og er stjarnan Spíka (Axið) í körfunni. Uppruni stjörnumerkisins er óþekktur en gæti tengst frjósemi. Meyjan hefur í aldanna rás táknað margar kvengyðjur og goðmögn, svo sem Ísisi, Ístar, Aþenu, Heru, Persefónu og jafnvel Maríu mey. Um 58 stjörnur í Meyjarmerkinu sjást með berum augum. Þeirra á meðal eru:
- Spíka eða Axið (α (alfa) Virginis), bjartasta stjarnan í Meyjunni og 15. bjartasta stjarnan á næturhimninum. Hún er með sýndarbirtustigið +1,0 í um 260 ljósára fjarlægð frá jörðu. Svo virðist sem Spíka sé fimmstirni en tvær stjarnanna eru langbjartastar. Önnur er um 8 sinnum breiðari og 11 sinnum massameiri en sólin. Hin stjarnan er 4 sinnum breiðari og 7 sinnum massameiri. Talið er að Spíka hafi hjálpað stjörnufræðingnum Hipparkosi að uppgötva framsókn vorpunktsins (sem færist smám saman á himninum frá einu stjörnumerki til annars). Meira en þúsund árum síðar notaði Nikulás Kóperníkus Spíku við rannsóknir á sama fyrirbæri.
- Porrima (γ (gamma) Virginis) sem er auðvelt að finna fyrir ofan Spíku (hægra megin). Nafn hennar er dregið af rómverskri spágyðju, ólíkt flestum stjörnuheitum sem komin eru úr arabísku. Porrima er eitt fegursta tvístirni næturhiminsins í 38 ljósara fjarlægð frá sólu. Stjörnurnar tvær eru mjög áþekkar með birtustig +3,5 (samanlagt birtustig þeirra á næturhimninum er +2,75). Þær eru báðar gular og um 50% massameiri en sólin. Brautir stjarnanna um sameiginlega þyngdarmiðju eru mjög ílangar og er umferðartíminn 171 ár. Þar sem þær eru tiltölulega nálægt sólinni og brautirnar með mikla sporöskjulögun er unnt að greina breytingu á hornbilinu á milli þeirra á minna en einni mannsævi. Árið 2007 voru þær eins nálægt hvor annarri og mögulegt er á himninum og skildu einungis 3 bogasekúndur á milli þeirra.
- Vindemiatrix (ε (epsilon) Virginis) sem er þriðja bjartasta stjarnan í Meyjunni með birtustigið +2,8. Nafn hennar tengist landbúnaði en þegar hún sást á himninum var kominn tími til þess að safna saman uppskerunni. Stjarnan er um 12 sinnum breiðari en sólin. Hún er óvanalega björt uppspretta röntgengeisla sem bendir til mikillar segulvirkni á yfirborðinu.
Hér er einnig svarað spurningunni:
Hvernig lítur stjörnumerkið Meyjan út?