Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Voru stóumenn skeytingarlausir um allt nema dygðina?

Geir Þ. Þórarinsson

Stóumenn kenndu að ekkert væri gott nema dygðin og ekkert væri illt nema löstur, eins og lesa má um í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er stóuspeki? En voru þeir þá skeytingarlausir um allt annað? Svarið við þeirri spurningu er nei. Enda þótt einungis dygðin hafi raunverulegt gildi (axia) og sé eftirsóknarverð í sjálfri sér og þótt einungis löstur hafi raunverulega neikvætt gildi (apaxia) og sé varasamur í sjálfum sér, hafa þó aðrir hlutir, sem samkvæmt kenningunni hafa hlutlaust gildi, samt eins konar valgildi (axia eklektike). Þannig er ákjósanlegra að velja hvaðeina sem stuðlar að áframhaldandi dygðugu líferni, til dæmis góða heilsu enda samræmist það eðli okkar sem skynsemisveru; það er til dæmis ákjósanlegra fyrir stóumann að borða hollan mat í hófi heldur en að neita sér um hann. Samt hefur matur, ánægjan sem hlýst af því að borða hann eða jafnvel heilsuhreystið sem hollt mataræði stuðlar að, ekkert gildi í sjálfu sér.

En langflestir vaða villu og reyk í þessum efnum samkvæmt kenningum stóumanna. Langflest okkar telja að ýmislegt sé í sjálfu sér eftirsóknarvert eða varhugavert, gott eða slæmt þótt það sé ekki svo og misskilningurinn veldur í okkur geðshræringum sem stóumenn töldu vera sjúklegt ástand. Skoðum nánar hvernig þetta sjúklega ástand kemur til.

Stóumenn kenndu að öll okkar reynsla og þekking og allar athafnir okkar eigi upphaf sitt í því hvernig við skynjum heiminn. Þeir voru eins konar raunhyggjumenn og töldu að hugurinn væri við fæðingu eins og óskrifað blað óskrifað blað sem skynjunin fyllir út og mótar. Í fyrstu stjórnast athafnir barna af eðlishvötum en hægt og rólega myndum við okkur hugtök en hugtakakerfið sem við búum yfir má segja að sé í vissum skilningi formgerð mannlegrar skynsemi; stóumenn töldu að hún væri ekki fullþroskuð fyrr en um 14 ára aldur en fram að þeim aldri eru börn ekki í ýtrasta skilningi skynsemisverur. En skynreynslan heldur áfram að móta mannshugann og því ríður á að það verði í samræmi við eðli okkar sem skynsemisverur.

Skynjun okkar birtir okkur skynmyndir (fantasiai) og þegar skynmynd birtist okkur beitum við skynseminni og samþykkjum hana eða höfnum henni: allt okkar sálarlíf (þegar við höfum náð fullorðinsaldri) er beiting skynseminnar. Skynmyndir eru af tvennum toga: Sumar eru sannrænar þannig að þegar við samþykkjum þær verður til í okkur skoðun (doxa) eða jafnvel þekking og við höldum að það sem birtist okkur sé satt; ef ég til dæmis heyri vin minn kalla á mig í næsta herbergi og samþykki þessa skynmynd, þá hef ég myndað mér þá skoðun að vinur minn sé í næsta herbergi að kalla á mig og held þar með að hann sé þar að kalla á mig en ef ég hafna skynmyndinni, þá held ég ekki að hann sé að kalla á mig.

Aðrar skynmyndir eru á hinn bóginn hvatrænar þannig að þegar við samþykkjum þær verður til í okkur hvöt (horme) sem mun ávallt leiða til einhverrar athafnar. Til dæmis gæti birst mér skynmynd af súkkulaðiköku sem ég ætti að borða; það er beinlínis hluti af því hvernig skynmyndin birtist mér – nákvæmlega hvernig hann tengist skynmyndinni er umdeilt túlkunaratriði. Ef ég samþykki skynmyndina, þá verður til í mér hvöt sem leiðir til þess að ég borða kökuna en ef ég hafna skynmyndinni verður hvötin ekki til og ég læt kökuna vera.

Ein tegund hvata er geðshræringar (paþe) en samkvæmt stóuspeki eru þær óhóflegar hvatir sem byggja á röngu gildismati. Það er að segja geðshræring verður til þegar hvöt verður óhóflega sterk vegna rangrar skoðunar sem við höfum um að eitthvað hafi gildi sem hefur það ekki; með öðrum orðum þegar við höldum að eitthvað sé gott þótt það sé ekki raunverulega gott eða að eitthvað sé slæmt þótt það sé ekki raunverulega slæmt. Samkvæmt kenningunni eru fjórar megin geðshræringar sem aðrar geðshræringar eru afbrigði af: löngun, ótti, ánægja og sorg eða vanlíðan. Löngun er geðshræring sem stafar af því að halda ranglega að eitthvað sem mun gerast sé gott en ótti stafar af því að halda ranglega að eitthvað sem mun gerast sé slæmt. Ánægja stafar af því að halda ranglega að eitthvað sem við höfum sé gott en sorg eða vanlíðan stafar af því að halda ranglega að eitthvað sem við höfum sé slæmt.

Stóumenn sögðu að við hefðum ákveðna meðfædda tilhneigingu til þess að sækjast eftir góðri heilsu, auðævum og virðingu. En þessir hlutir hafa ekki raunverulegt gildi í sjálfum sér og óhófleg eftirsókn í þá veldur okkur mikilli óhamingju. Geðshræringar eru óheilbrigðar vegna þess að þær eru ekki í samræmi við náttúruna, það er að segja í samræmi við mannlega náttúru sem innsta eðli skynsemisvera, enda byggja þær á röngu gildismati og rangri beitingu skynseminnar því þá höfum við gefið röngum skynmyndum samþykki okkar. Við ættum að gera okkar besta til þess að losa okkur við geðshræringar og þjálfa gildismat okkar þannig að hættum að mynda okkur rangar skoðanir og óheilbrigðar hvatir sem keyra úr hófi fram.

Þegar við lærum að samþykkja einungis réttar skynmyndir öðlumst við óhagganlega þekkingu í stað skoðana og myndum réttar hvatir í stað óheilbrigðra og óhóflegra hvata; þá lifum við í samræmi við náttúru okkar og verðum dygðug en dygðin er það mynstur hegðunar sem leiðir af hneigð sem er fullkomlega í samræmi við rétta beitingu skynseminnar. Aftur á móti er ekkert millistig milli dygðar og lastar og einungis vitringurinn er dygðugur en svo nefndu stóumenn fyrirmynd sína.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Ítarefni:
  • Algra, K., J. Barnes, J. Mansfeld og M. Schofield (ritstj.), The Cambridge History of Hellenistic Philosophy (Cambridge: Cambridge University Press, 1999).
  • Graver, M.R., Stoicism and Emotion (Chicago: University of Chicago Press, 2007).
  • Inwood, B. (ritstj.), The Cambridge Companion to the Stoics (Cambridge: Cambridge University Press, 2003).
  • Long, A.A., Hellenistic Philosophy: Stoics, Epicureans, Sceptics, 2. útg. (Berkeley og Los Angeles: University of California Press, 1986).
  • Sharples, R.W., Stoics, Epicureans and Sceptics: An Introduction to Hellenistic Philosophy (London: Routledge, 1996).

Mynd:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

5.3.2010

Spyrjandi

Erla Rún Rúnarsdóttir, f. 1991, Ritstjórn

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Voru stóumenn skeytingarlausir um allt nema dygðina?“ Vísindavefurinn, 5. mars 2010, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=55585.

Geir Þ. Þórarinsson. (2010, 5. mars). Voru stóumenn skeytingarlausir um allt nema dygðina? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=55585

Geir Þ. Þórarinsson. „Voru stóumenn skeytingarlausir um allt nema dygðina?“ Vísindavefurinn. 5. mar. 2010. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=55585>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Voru stóumenn skeytingarlausir um allt nema dygðina?
Stóumenn kenndu að ekkert væri gott nema dygðin og ekkert væri illt nema löstur, eins og lesa má um í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er stóuspeki? En voru þeir þá skeytingarlausir um allt annað? Svarið við þeirri spurningu er nei. Enda þótt einungis dygðin hafi raunverulegt gildi (axia) og sé eftirsóknarverð í sjálfri sér og þótt einungis löstur hafi raunverulega neikvætt gildi (apaxia) og sé varasamur í sjálfum sér, hafa þó aðrir hlutir, sem samkvæmt kenningunni hafa hlutlaust gildi, samt eins konar valgildi (axia eklektike). Þannig er ákjósanlegra að velja hvaðeina sem stuðlar að áframhaldandi dygðugu líferni, til dæmis góða heilsu enda samræmist það eðli okkar sem skynsemisveru; það er til dæmis ákjósanlegra fyrir stóumann að borða hollan mat í hófi heldur en að neita sér um hann. Samt hefur matur, ánægjan sem hlýst af því að borða hann eða jafnvel heilsuhreystið sem hollt mataræði stuðlar að, ekkert gildi í sjálfu sér.

En langflestir vaða villu og reyk í þessum efnum samkvæmt kenningum stóumanna. Langflest okkar telja að ýmislegt sé í sjálfu sér eftirsóknarvert eða varhugavert, gott eða slæmt þótt það sé ekki svo og misskilningurinn veldur í okkur geðshræringum sem stóumenn töldu vera sjúklegt ástand. Skoðum nánar hvernig þetta sjúklega ástand kemur til.

Stóumenn kenndu að öll okkar reynsla og þekking og allar athafnir okkar eigi upphaf sitt í því hvernig við skynjum heiminn. Þeir voru eins konar raunhyggjumenn og töldu að hugurinn væri við fæðingu eins og óskrifað blað óskrifað blað sem skynjunin fyllir út og mótar. Í fyrstu stjórnast athafnir barna af eðlishvötum en hægt og rólega myndum við okkur hugtök en hugtakakerfið sem við búum yfir má segja að sé í vissum skilningi formgerð mannlegrar skynsemi; stóumenn töldu að hún væri ekki fullþroskuð fyrr en um 14 ára aldur en fram að þeim aldri eru börn ekki í ýtrasta skilningi skynsemisverur. En skynreynslan heldur áfram að móta mannshugann og því ríður á að það verði í samræmi við eðli okkar sem skynsemisverur.

Skynjun okkar birtir okkur skynmyndir (fantasiai) og þegar skynmynd birtist okkur beitum við skynseminni og samþykkjum hana eða höfnum henni: allt okkar sálarlíf (þegar við höfum náð fullorðinsaldri) er beiting skynseminnar. Skynmyndir eru af tvennum toga: Sumar eru sannrænar þannig að þegar við samþykkjum þær verður til í okkur skoðun (doxa) eða jafnvel þekking og við höldum að það sem birtist okkur sé satt; ef ég til dæmis heyri vin minn kalla á mig í næsta herbergi og samþykki þessa skynmynd, þá hef ég myndað mér þá skoðun að vinur minn sé í næsta herbergi að kalla á mig og held þar með að hann sé þar að kalla á mig en ef ég hafna skynmyndinni, þá held ég ekki að hann sé að kalla á mig.

Aðrar skynmyndir eru á hinn bóginn hvatrænar þannig að þegar við samþykkjum þær verður til í okkur hvöt (horme) sem mun ávallt leiða til einhverrar athafnar. Til dæmis gæti birst mér skynmynd af súkkulaðiköku sem ég ætti að borða; það er beinlínis hluti af því hvernig skynmyndin birtist mér – nákvæmlega hvernig hann tengist skynmyndinni er umdeilt túlkunaratriði. Ef ég samþykki skynmyndina, þá verður til í mér hvöt sem leiðir til þess að ég borða kökuna en ef ég hafna skynmyndinni verður hvötin ekki til og ég læt kökuna vera.

Ein tegund hvata er geðshræringar (paþe) en samkvæmt stóuspeki eru þær óhóflegar hvatir sem byggja á röngu gildismati. Það er að segja geðshræring verður til þegar hvöt verður óhóflega sterk vegna rangrar skoðunar sem við höfum um að eitthvað hafi gildi sem hefur það ekki; með öðrum orðum þegar við höldum að eitthvað sé gott þótt það sé ekki raunverulega gott eða að eitthvað sé slæmt þótt það sé ekki raunverulega slæmt. Samkvæmt kenningunni eru fjórar megin geðshræringar sem aðrar geðshræringar eru afbrigði af: löngun, ótti, ánægja og sorg eða vanlíðan. Löngun er geðshræring sem stafar af því að halda ranglega að eitthvað sem mun gerast sé gott en ótti stafar af því að halda ranglega að eitthvað sem mun gerast sé slæmt. Ánægja stafar af því að halda ranglega að eitthvað sem við höfum sé gott en sorg eða vanlíðan stafar af því að halda ranglega að eitthvað sem við höfum sé slæmt.

Stóumenn sögðu að við hefðum ákveðna meðfædda tilhneigingu til þess að sækjast eftir góðri heilsu, auðævum og virðingu. En þessir hlutir hafa ekki raunverulegt gildi í sjálfum sér og óhófleg eftirsókn í þá veldur okkur mikilli óhamingju. Geðshræringar eru óheilbrigðar vegna þess að þær eru ekki í samræmi við náttúruna, það er að segja í samræmi við mannlega náttúru sem innsta eðli skynsemisvera, enda byggja þær á röngu gildismati og rangri beitingu skynseminnar því þá höfum við gefið röngum skynmyndum samþykki okkar. Við ættum að gera okkar besta til þess að losa okkur við geðshræringar og þjálfa gildismat okkar þannig að hættum að mynda okkur rangar skoðanir og óheilbrigðar hvatir sem keyra úr hófi fram.

Þegar við lærum að samþykkja einungis réttar skynmyndir öðlumst við óhagganlega þekkingu í stað skoðana og myndum réttar hvatir í stað óheilbrigðra og óhóflegra hvata; þá lifum við í samræmi við náttúru okkar og verðum dygðug en dygðin er það mynstur hegðunar sem leiðir af hneigð sem er fullkomlega í samræmi við rétta beitingu skynseminnar. Aftur á móti er ekkert millistig milli dygðar og lastar og einungis vitringurinn er dygðugur en svo nefndu stóumenn fyrirmynd sína.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Ítarefni:
  • Algra, K., J. Barnes, J. Mansfeld og M. Schofield (ritstj.), The Cambridge History of Hellenistic Philosophy (Cambridge: Cambridge University Press, 1999).
  • Graver, M.R., Stoicism and Emotion (Chicago: University of Chicago Press, 2007).
  • Inwood, B. (ritstj.), The Cambridge Companion to the Stoics (Cambridge: Cambridge University Press, 2003).
  • Long, A.A., Hellenistic Philosophy: Stoics, Epicureans, Sceptics, 2. útg. (Berkeley og Los Angeles: University of California Press, 1986).
  • Sharples, R.W., Stoics, Epicureans and Sceptics: An Introduction to Hellenistic Philosophy (London: Routledge, 1996).

Mynd:

...