Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Til að svara þessari spurningu skulum við fyrst hugsa okkur einfalt dæmi: Maður ekur á ofsahraða niður brekku en neðst í brekkunni er kröpp beygja. Vegna þess hvað maðurinn ekur hratt er fyrirsjáanlegt af öllum kringumstæðum að hann muni ekki ná beygjunni; með öðrum orðum er hægt að spá fyrir um að hann muni aka út af. En þegar maðurinn svo ekur út af virðist ekkert athugavert við að segja að hann beri ábyrgð á því hvernig fór.
Hér höfum við lítið dæmi þar sem hægt var að spá fyrir um tiltekna athöfn, en samt sem áður ber gerandinn fulla ábyrgð á því sem gerðist. Í fljótu bragði virðist því ekkert því til fyrirstöðu að athafnir okkar séu fyrirsegjanlegar en að við berum ábyrgð á þeim engu að síður.
Í þessu dæmi er fyrirsegjanlegt að ökumaðurinn muni fara útaf. Miðað við hraða bílsins, viðnám dekkjanna við veginn og aðrar kringumstæður þá getur bíllinn ekki annað en farið útaf. Við segjum að lögmál eðlisfræðinnar útiloki aðra möguleika. Bílstjórinn á því ekki neitt val í stöðunni, og þess vegna er einmitt hægt að spá fyrir um hvað muni gerast. En við segjum líka að bílstjórinn hafi komið sér í þessar ógöngur sjálfur; að hann hafi, á tilteknum tíma, átt val um að aka hægt eða hratt. Og vegna þess að hann átti þetta val ber hann ábyrgð á því sem gerist.
Hér er eðlilegt að rekja ábyrgð bílstjórans á útafakstrinum til þess að hann átti, á tilteknum tíma, val um að aka hægt eða hratt. Í dæminu velur bílstjórinn að keyra hratt og því fer sem fer. En hvað ef hægt væri að segja fyrir um allt sem bílstjórinn gerir? Við getum kallað þá kenningu að allar athafnir séu fyrirsegjanlegar forspárhyggju.
Ef forspárhyggjan er sönn, þá vaknar spurningin hvers vegna svo sé. Ein skýring gæti verið sú að fólk sé ekki annað en vélar, að vísu gríðarlega flóknar vélar en vélar engu að síður, og lúti í grundvallaratriðum lögmálum sem eru óumflýjanleg. Þessi hugmynd er kölluð vélhyggja og á rætur að rekja til vísindabyltingarinnar á 17. öld. Meðal frumkvöðla vísindabyltingarinnar voru Galíleó Galílei og René Descartes en þeir litu svo á að gangi náttúrunnar mætti lýsa með stærðfræðilegum aðferðum. En þótt Descartes héldi fram vélhyggju um flest milli himins og jarðar undanskildi hann manninn, því hann taldi að skynsemi mannsins væri vélhyggjunni ósamrýmanleg.
Vélhyggja um mannlega breytni er kölluð nauðhyggja því hún felur í sér að rétt eins og öðrum vélum sé manninum nauðugur einn kostur: að gera það sem hann gerir. Mörgum virðist að nauðhyggja um manninn útiloki að menn geti borið ábyrgð á athöfnum sínum. Hugmyndin er þá sú að menn geti einungis borið ábyrgð á athöfnum sínum ef þeir hafi átt þess kost að gera eitthvað annað en þeir gerðu. Í dæminu hér á undan segjum við að bílstjórinn beri ábyrgð á því hvernig fer þar sem honum var, áður en í óefni var komið, frjálst að aka hægt eða hratt.
En þótt nauðhyggja og forspárhyggja geti oft farið saman þá eru þetta tvær sjálfstæðar kenningar og það er ekki möguleikinn á að segja fyrir um athafnirnar sem útilokar alla ábyrgð heldur hitt að menn eigi engra kosta völ um það sem þeir gera. Hvort menn geti borið ábyrgð á athöfnum sínum er því að jafnaði ekki talið velta á því hvort hægt sé að segja fyrir um athafnirnar, heldur hitt hvort menn hafi frjálsan vilja, hvort fólk geti yfirleitt gert annað en það sem það gerir.
Að lokum er vert að huga að þeirri kenningu að allt sem við gerum ráðist af því sem á undan kemur. Þessi kenning er að sönnu náskyld vélhyggju og þar með nauðhyggju, en er þó ekki sama kenningin. Hvað þýðir að „allt ráðist af því sem á undan kemur”? Nú er það svo að athafnir okkar, einkum og sér í lagi þær athafnir sem við köllum frjálsar og yfirvegaðar, eiga sér yfirleitt skýringar. Þegar við skýrum hvers vegna við gerðum hitt eða þetta þá vísum við til ástæðna sem við höfum.
Bílstjórinn í dæminu að ofan gæti kannski skýrt hraðaksturinn á eftirfarandi hátt: „Ég ók hratt vegna þess að mig langaði til að sjá sólarlagið og ég var að missa af því”. Hér er hraðaksturinn skýrður með vísan til löngunarinnar til að sjá sólarlagið og þeirrar trúar að sólin væri um það bil að setjast. Við getum sagt að hraðaksturinn hafi ráðist af þessum þáttum; þeir eru ástæðan fyrir honum. En við myndum líka segja að þótt bílstjórinn hafi haft ástæðu til að aka hratt, þá hafi honum verið frjálst að aka hægt.
Meðal heimspekinga er ekki einhugur um hvernig skilja á þá kenningu að allt ráðist af því sem á undan er gengið. Sumir vilja leggja hana að jöfnu við nauðhyggju, og halda því fram að hún útiloki allt tal um fjálsan vilja. Aðrir vilja meina að réttur skilningur okkar á nauðhyggju sé sá sem við leggjum í þá hversdagslegu staðhæfingu að allt ráðist af því sem á undan kemur, og að nauðhyggjan, þannig skilin, útiloki ekki frjálsan vilja.
Eitt af því sem hér skiptir máli er hvort ástæður og orsakir sé það sama eða tvennt ólíkt. Þegar við útskýrum hegðun fólks vísum við til ástæðna, þegar við útskýrum gang klukku vísum við til orsaka. Ef ástæður og orsakir eru það sama, þá má leggja að jöfnu vélhyggju og þá kenningu að allt ráðist af því sem á undan er gengið. Ef ástæður og orsakir eru tvennt ólíkt, þá getur allt ráðist af því sem á undan er gengið án þess að vélhyggjan sé sönn.
Sjá einnig Gerist það sama aftur ef allar aðstæður verða aftur þær sömu? Er þá ekki allt ákveðið fyrir fram og hægt að reikna það út? eftir Atla Harðarson.
Frekara lesefni:
Atli Harðarson, „Vélin maður”, Afarkostir, Reykjavík 1995.
Atli Harðarson, „Frjáls vilji”, Afarkostir, Reykjavík 1995.
René Descartes, Orðræða um aðferð, Reykjavík 1991.
René Descartes, Hugleiðingar um frumspeki, Reykjavík 2001.
A.J. Ayer, „Freedom and necessity”, Philosophical Essays, London 1954.
C.A. Campbell, On Selfhood and Godhood, London 1957, einkum blaðsíður 158-179.
Ólafur Páll Jónsson. „Berum við ábyrgð á eigin gerðum ef hægt er að spá fyrir um þær?“ Vísindavefurinn, 28. júlí 2001, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1820.
Ólafur Páll Jónsson. (2001, 28. júlí). Berum við ábyrgð á eigin gerðum ef hægt er að spá fyrir um þær? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1820
Ólafur Páll Jónsson. „Berum við ábyrgð á eigin gerðum ef hægt er að spá fyrir um þær?“ Vísindavefurinn. 28. júl. 2001. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1820>.