Að meðaltali hefur verið eitt eldgos tæplega þriðja hvert ár frá 1900, en vissulega er dreifingin ekki þannig í raun. Um miðja síðustu öld var lengsti goslausi kaflinn á Íslandi á því tímabili sem listinn nær yfir. Árið 1947 gaus Hekla en næsta eldgos þar á eftir var ekki fyrr en árið 1961 þegar gaus í Öskju. Sjötti áratugurinn er eini goslausi áratugur 20. aldarinnar. Krafla er sú eldstöð sem oftast hefur gosið á þeirri rúmu öld sem listi Veðurstofunnar nær yfir. Hún var mjög virk á 8. áratug síðustu aldar og gaus alls níu sinnum, þar af eru þrjú gos árið 1980. Askja hefur gosið átta sinnum á þessu tímabili, þar af sjö sinnum á 3. áratug síðustu aldar. Grímsvötn hafa einnig gosið átta sinnum en dreifingin er yfir lengra tímabil, fyrsta gos 20. aldarinnar var í Grímsvötnum árið 1902 en nýjasta Grímsvatnagosið var 2004. Ef hins vegar er litið á lengra tímabili, þá eru Grímsvötn, Hekla og Katla líklega virkustu eldfjöllin á Íslandi á sögulegum tíma eins og fjallað er um í svari við spurningunni Hvaða eldfjall hefur gosið mest? Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað er eldgos?
- Hvað eru mörg eldgos á Íslandi?
- Af hverju eru sum eldfjöll á Íslandi virk en önnur ekki?
- Er eldvirkni á Íslandi sveiflukennd?
- Eldgos á vef Veðurstofu Íslands. Skoðað 25. 3. 2021.
- Mynd: Veðurstofa Íslands © Ólafur Sigurjónsson. Sótt 24. 3. 2010.