Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað eru til margar tegundir af fuglahreiðrum?

Jón Már Halldórsson

Hreiðurgerð þekkist ekki bara meðal fugla heldur hjá öllum hópum hryggdýra. Tilgangur hennar er að útbúa skjól fyrir egg eða unga á viðkvæmasta tímabili ævinnar og skapa þeim ákveðið öryggi til að vaxa og dafna þar til þeir verða nokkurn veginn sjálfbjarga.

Sem dæmi um hreiðurgerð annarra hópa en fugla má nefna að hjá skriðdýrum gera krókódílar sér hreiður úr leðju og öðrum jarðvegi og jarðargróðri, kóbraslöngur gera sér hreiður á jörðinni úr rotnandi gróðri og sæskjaldbökur grafa egg sín í sand á ströndinni. Hjá froskdýrum (Amphibia) er hreiðurgerð aðeins þekkt meðal froska (Anura) en hjá spendýrum þekkist hreiðurgerð meðal fjölda smárra tegunda eins og músa, íkorna og kanína sem gera sér hreiður í trjám, á jörðu eða í niðurgröfnum holum. Hreiðurgerð er einnig þekkt meðal fiska. Til dæmis gera hornsíli sér haganlegar hreiðurkúlur í vatnagróðri.



Krókódílahreiður eru úr leðju og jarðargróðri

Hreiðurgerð er þó útbreiddust meðal fugla og eru hreiðrin afar fjölbreytileg í byggingu, allt frá því vera aðeins grunnar skálar í jarðveginum til fallegra karfa sem ofnar eru með ótrúlega listrænum hætti, eins og þekkist meðal vefarafugla hitabeltisins. Fuglafræðingar hafa reynt að flokka fuglahreiður eftir gerðum og verður hér gerð grein fyrir þeirri flokkun sem gjarnan er notuð.

Skraphreiður (e. scrape nest) eru einföldustu hreiðrin en þau eru aðeins grunn dæld í jörðina, oft með nokkrum steinvölum eða laufblöðum í botninum. Þessi hreiðurgerð þekkist meðal annars hjá mörgæsum, vaðfuglum, þernum (kríur), mávum og gömmum.

Meira er lagt í holuhreiður (e. cavity nests) en svo kallast hreiður sem eru í holum í trjábolum, kaktusum eða öðru slíku. Svona hreiður eru þekkt meðal fjölmargra spörfugla, spæta, ugla og páfagauka. Hægt er að skipta þessum tegundum í tvo hópa. Annars vegar eru tegundir sem útbúa hreiður sín sjálfar, það er grafa sig inn í trjábolinn eða kaktusinn, og kallast þær fyrsta stigs holuhreiðurfuglar (e. primary cavity nesters). Hins vegar eru tegundir sem grafa ekki sínar eigin holur heldur leita eftir fullbúnum hreiðurholum til að verpa í. Nefnast þær annars stigs holuhreiðurfuglar (e. secondary cavity nesters), en uglur eru dæmi um slíka fugla.



Þessi skrúðfálki (Falco sparverius) hefur fundið ákjósanlega hreiðurholu. Skrúðfálkar gera sér aldrei slíkar holur heldur eru þeir svokallaðir 'secondary cavity nesters'. Að öllum líkindum hefur spæta höggvið þessa holu inn í furutréð.

Grenishreiður (e. burrow nests) kallast hreiður sem grafin eru í jarðveginn og eru oft með flóknara byggingarlagi en holuhreiður, til dæmis með göngum líkt og greni refa og annarra spendýra. Þessi hreiðurgerð er góð vörn gegn ýmsum ránfuglum og rándýrum auk þess að vera ákjósanlegt skjól fyrir unga og egg gegn veðrum og vindum. Meðal þeirra tegunda sem grafa hreiður í jörðu eru lundar, ýmsar tegundir svala og beltaþyrill. Nokkrar uglutegundir verpa í slík hreiður, en þær grafa grenin ekki sjálfar heldur ræna þeim frá öðrum tegundum.

Pallahreiður (e. platform nests) kallast sú hreiðurgerð þegar fuglar gera sér hreiður á einhvers konar palli, svo sem á trjágrein, jörðu eða í sefgróðri. Þessi hreiður eru yfirleitt með mjög grunna skál. Þekktasta dæmið í íslenskri fánu er flórgoðinn, en víða í Evrasíu eru hvítstorkahreiður áberandi á símastaurum og trjám.

Bollahreiður (e. cupped nests) eru gerð úr mismunandi byggingarefni og finnast við mjög fjölbreytilegar aðstæður. Þau eiga það öll sameiginlegt að vera bollalaga, en þar sem þetta form býður upp á mikinn breytileika eru þau gjarnan flokkuð í nokkra undirflokka. Ein slík flokkun er komin frá bandaríska fuglafræðingnum Olin Sewall Pettingill (1907 – 2001), en hann lagði til að bollahreiðrum yrði skipt upp í eftirfarandi flokka:
  • Bollahreiður studd af einni undirstöðu (e. statant cupped nests) eru aðeins með eina undirstöðu eins og nafnið getur til kynna. Algengustu hreiðrin í þessum flokki eru hreiður sem byggð eru á trjágreinum. Fjölmargar tegundir spörfugla og kólibrífugla gera hreiður með þessum hætti.

    Hreiður farþrastar (Turdus migratorius).

  • Bollahreiður sem fest eru á brún eða hlið (hengihreiður) (e. suspended cupped nests), meðal annars utan í tré. Þessi hreiður geta verið hörð viðkomu, meðal annars hjá kollum (Regulidae) og græningjum (Vireonidae) eða afar viðkvæm og djúp svo sem meðal glóa.
  • Hreiður sem byggð eru við lóðréttan flöt (e. adherent nests) þar sem ein hlið hreiðursins er fest við flötinn. Oft eru þessi hreiður gerð úr og fest með leðju eða munnvatni. Svölur eru sennilega þekktustu tegundirnar sem gera slík hreiður.
  • Jarðlæg bollahreiður (e. ground nests) eru algeng hjá spörfuglum og fuglum sem lifa á túndrusvæðum norðurhjarans. Hliðar þessara hreiðra eru oft byggðar upp á við þannig að þokkalegt skjól skapast fyrir unga og egg í hreiðurbotninum.

Það merkilega við hreiður er að þótt þau séu æði breytileg að gerð á milli fuglategunda, að þá er nánast enginn breytileiki í grunnbyggingarlagi innan tegunda. Jafnvel þótt fuglar geti gert sér hreiður á fjölbreytilegum stöðum, eins og til dæmis skógarþrösturinn (Turdus iliacus), er byggingarlagið ávallt það sama. Sama hefur komið í ljós í tilraunum sem gerðar hafa verið með fugla sem hafa verið aldir upp án tengsla við aðra einstaklinga sömu tegundar. Þegar þeir gerðu sér hreiður þá voru þau alveg eins og hreiður annarra fugla sömu tegundar. Þetta bendir til þess að hreiðurgerð sé ekki lærð, heldur sé hún eiginleiki sem erfist á milli einstaklinga.

Upplýsingar um skyld efni má finna í svörum sama höfundar við spurningunum:

Heimildir og myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

11.11.2005

Spyrjandi

Ólöf Birna, f. 1995

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað eru til margar tegundir af fuglahreiðrum?“ Vísindavefurinn, 11. nóvember 2005, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5401.

Jón Már Halldórsson. (2005, 11. nóvember). Hvað eru til margar tegundir af fuglahreiðrum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5401

Jón Már Halldórsson. „Hvað eru til margar tegundir af fuglahreiðrum?“ Vísindavefurinn. 11. nóv. 2005. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5401>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað eru til margar tegundir af fuglahreiðrum?
Hreiðurgerð þekkist ekki bara meðal fugla heldur hjá öllum hópum hryggdýra. Tilgangur hennar er að útbúa skjól fyrir egg eða unga á viðkvæmasta tímabili ævinnar og skapa þeim ákveðið öryggi til að vaxa og dafna þar til þeir verða nokkurn veginn sjálfbjarga.

Sem dæmi um hreiðurgerð annarra hópa en fugla má nefna að hjá skriðdýrum gera krókódílar sér hreiður úr leðju og öðrum jarðvegi og jarðargróðri, kóbraslöngur gera sér hreiður á jörðinni úr rotnandi gróðri og sæskjaldbökur grafa egg sín í sand á ströndinni. Hjá froskdýrum (Amphibia) er hreiðurgerð aðeins þekkt meðal froska (Anura) en hjá spendýrum þekkist hreiðurgerð meðal fjölda smárra tegunda eins og músa, íkorna og kanína sem gera sér hreiður í trjám, á jörðu eða í niðurgröfnum holum. Hreiðurgerð er einnig þekkt meðal fiska. Til dæmis gera hornsíli sér haganlegar hreiðurkúlur í vatnagróðri.



Krókódílahreiður eru úr leðju og jarðargróðri

Hreiðurgerð er þó útbreiddust meðal fugla og eru hreiðrin afar fjölbreytileg í byggingu, allt frá því vera aðeins grunnar skálar í jarðveginum til fallegra karfa sem ofnar eru með ótrúlega listrænum hætti, eins og þekkist meðal vefarafugla hitabeltisins. Fuglafræðingar hafa reynt að flokka fuglahreiður eftir gerðum og verður hér gerð grein fyrir þeirri flokkun sem gjarnan er notuð.

Skraphreiður (e. scrape nest) eru einföldustu hreiðrin en þau eru aðeins grunn dæld í jörðina, oft með nokkrum steinvölum eða laufblöðum í botninum. Þessi hreiðurgerð þekkist meðal annars hjá mörgæsum, vaðfuglum, þernum (kríur), mávum og gömmum.

Meira er lagt í holuhreiður (e. cavity nests) en svo kallast hreiður sem eru í holum í trjábolum, kaktusum eða öðru slíku. Svona hreiður eru þekkt meðal fjölmargra spörfugla, spæta, ugla og páfagauka. Hægt er að skipta þessum tegundum í tvo hópa. Annars vegar eru tegundir sem útbúa hreiður sín sjálfar, það er grafa sig inn í trjábolinn eða kaktusinn, og kallast þær fyrsta stigs holuhreiðurfuglar (e. primary cavity nesters). Hins vegar eru tegundir sem grafa ekki sínar eigin holur heldur leita eftir fullbúnum hreiðurholum til að verpa í. Nefnast þær annars stigs holuhreiðurfuglar (e. secondary cavity nesters), en uglur eru dæmi um slíka fugla.



Þessi skrúðfálki (Falco sparverius) hefur fundið ákjósanlega hreiðurholu. Skrúðfálkar gera sér aldrei slíkar holur heldur eru þeir svokallaðir 'secondary cavity nesters'. Að öllum líkindum hefur spæta höggvið þessa holu inn í furutréð.

Grenishreiður (e. burrow nests) kallast hreiður sem grafin eru í jarðveginn og eru oft með flóknara byggingarlagi en holuhreiður, til dæmis með göngum líkt og greni refa og annarra spendýra. Þessi hreiðurgerð er góð vörn gegn ýmsum ránfuglum og rándýrum auk þess að vera ákjósanlegt skjól fyrir unga og egg gegn veðrum og vindum. Meðal þeirra tegunda sem grafa hreiður í jörðu eru lundar, ýmsar tegundir svala og beltaþyrill. Nokkrar uglutegundir verpa í slík hreiður, en þær grafa grenin ekki sjálfar heldur ræna þeim frá öðrum tegundum.

Pallahreiður (e. platform nests) kallast sú hreiðurgerð þegar fuglar gera sér hreiður á einhvers konar palli, svo sem á trjágrein, jörðu eða í sefgróðri. Þessi hreiður eru yfirleitt með mjög grunna skál. Þekktasta dæmið í íslenskri fánu er flórgoðinn, en víða í Evrasíu eru hvítstorkahreiður áberandi á símastaurum og trjám.

Bollahreiður (e. cupped nests) eru gerð úr mismunandi byggingarefni og finnast við mjög fjölbreytilegar aðstæður. Þau eiga það öll sameiginlegt að vera bollalaga, en þar sem þetta form býður upp á mikinn breytileika eru þau gjarnan flokkuð í nokkra undirflokka. Ein slík flokkun er komin frá bandaríska fuglafræðingnum Olin Sewall Pettingill (1907 – 2001), en hann lagði til að bollahreiðrum yrði skipt upp í eftirfarandi flokka:
  • Bollahreiður studd af einni undirstöðu (e. statant cupped nests) eru aðeins með eina undirstöðu eins og nafnið getur til kynna. Algengustu hreiðrin í þessum flokki eru hreiður sem byggð eru á trjágreinum. Fjölmargar tegundir spörfugla og kólibrífugla gera hreiður með þessum hætti.

    Hreiður farþrastar (Turdus migratorius).

  • Bollahreiður sem fest eru á brún eða hlið (hengihreiður) (e. suspended cupped nests), meðal annars utan í tré. Þessi hreiður geta verið hörð viðkomu, meðal annars hjá kollum (Regulidae) og græningjum (Vireonidae) eða afar viðkvæm og djúp svo sem meðal glóa.
  • Hreiður sem byggð eru við lóðréttan flöt (e. adherent nests) þar sem ein hlið hreiðursins er fest við flötinn. Oft eru þessi hreiður gerð úr og fest með leðju eða munnvatni. Svölur eru sennilega þekktustu tegundirnar sem gera slík hreiður.
  • Jarðlæg bollahreiður (e. ground nests) eru algeng hjá spörfuglum og fuglum sem lifa á túndrusvæðum norðurhjarans. Hliðar þessara hreiðra eru oft byggðar upp á við þannig að þokkalegt skjól skapast fyrir unga og egg í hreiðurbotninum.

Það merkilega við hreiður er að þótt þau séu æði breytileg að gerð á milli fuglategunda, að þá er nánast enginn breytileiki í grunnbyggingarlagi innan tegunda. Jafnvel þótt fuglar geti gert sér hreiður á fjölbreytilegum stöðum, eins og til dæmis skógarþrösturinn (Turdus iliacus), er byggingarlagið ávallt það sama. Sama hefur komið í ljós í tilraunum sem gerðar hafa verið með fugla sem hafa verið aldir upp án tengsla við aðra einstaklinga sömu tegundar. Þegar þeir gerðu sér hreiður þá voru þau alveg eins og hreiður annarra fugla sömu tegundar. Þetta bendir til þess að hreiðurgerð sé ekki lærð, heldur sé hún eiginleiki sem erfist á milli einstaklinga.

Upplýsingar um skyld efni má finna í svörum sama höfundar við spurningunum:

Heimildir og myndir: ...