Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Æxlunartímabil íslenskra nagdýra ræðst aðallega af tíðarfari og því hvar á landinu nagdýrin lifa.
Sænski vistfræðingurinn Bengtson rannsakaði ýmsa þætti í vistfræði hagamúsarinnar (Apodemus sylvaticus) á Íslandi á árunum 1973-1977. Í rannsókn sinni bar hann saman tvo stofna sem lifðu við mjög ólík umhverfisskilyrði. Annar lifði í hvannabreiðum við Reynisfjall skammt frá Vík í Mýrdal en hinn í birkiskógi í Vogahrauni í Mývatnssveit. Ekki einungis var gróðurfarið ólíkt heldur einnig veðurfar og fæðuframboð.
Við Reynisfjall byrjuðu mýsnar að undirbúa sig fyrir tímgun strax í mars og apríl og fyrstu ungarnir fæddust snemma í maí. Alls komust upp fjórar hagamúsakynslóðir þau sumur sem Bengtson stundaði rannsóknir sínar við Reynisfjall, sú síðasta í september. Æxlunartímabilið hjá hagamúsum við Reynisfjall er þess vegna frá apríl til ágúst.
Annað gilti um mýsnar í Vogahrauni í Mývatnssveit. Þar fundu vísindamennirnir ungafull kvendýr og hálfstálpuð dýr ekki fyrr en í ágúst. Æxlunartímabilið í Mývatnssveit er þess vegna mun styttra en við Reynisfjall; eða frá júní/júlí til ágústmánaðar.
Við góð skilyrði getur tímgunartími húsamúsarinnar (Mus musculus) verið allt árið, til dæmis ef hún lifir í híbýlum þar sem hún reyndar er mjög algeng hérlendis og víðar.
Brúnrottan (Rattus norvegicus) hefur mjög breytilegan æxlunartíma og fer hann mjög eftir umhverfi og aðstæðum. Ef rottan lifir í einhvers konar híbýlum þar sem nægt fæðuframboð er getur hún átt afkvæmi allt árið um kring en úti í náttúrunni eingöngu hlýjustu mánuði ársins. Það sama gildir um æxlunartímabil svartrottunnar (Rattus rattus).
Heimildir og myndir
Árni Einarsson 1980. „Mýs og rottur“. Í Villt spendýr (ritstj. Árni Einarsson). Landvernd, Reykjavík.
Bengtson, S.-A., A. Nilson og S. Rundgren 1989. „Population structure and dynamics of wood mouse Apodemus sylvaticus in Iceland“. Holarctic Ecology 12.
Jón Már Halldórsson. „Hvenær er æxlunartímabil hjá hagamús, húsamús, brúnrottu og svartrottu?“ Vísindavefurinn, 4. október 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2759.
Jón Már Halldórsson. (2002, 4. október). Hvenær er æxlunartímabil hjá hagamús, húsamús, brúnrottu og svartrottu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2759
Jón Már Halldórsson. „Hvenær er æxlunartímabil hjá hagamús, húsamús, brúnrottu og svartrottu?“ Vísindavefurinn. 4. okt. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2759>.