Dýrahópur | Fjöldi tegunda | Fjöldi einlendra tegunda |
Spendýr | 111 | 2 |
Fuglar | 240 | 0 |
Skriðdýr | 61 | 7 |
Froskdýr | 22 | 3 |
Fiskar - saltvatn | 447 | |
Fiskar - ferskvatn | 108 | 35 |
Skrápdýr | 107 | |
Skordýr (beinvængjur) | 346 | 124 |
Skordýr (fiðrildi) | 3197 | 251 |
Skordýr (æðvængjur) | 2800 | 236 |
Skordýr (bjöllur) | 6863 | 1329 |
Lindýr (sjó – og ferskvatn) | 847 | 498 |
En í dag finnast stærri rándýr í grískri náttúru. Brúnbjörn (Ursus arctos) finnst á tveimur stöðum, í fjalllendi nyrst í landinu. Stofnstærð brúnbjarna í Grikklandi er aðeins um 145 dýr. Úlfar lifa í Grikklandi og árið 1998 var talið að stofnstærðin væri um 800 dýr. Þeir finnast allt frá Makedóníu í norðurhlutanum suður að miðhluta Pelópsskaga. Miðjarðarhafsúlfarnir eru mun minni en frændur þeirra á heimsskautasvæðunum. Stærstu dýrin verða vart meira en 40 kg eða um helmingur af stærð heimskautaúlfs. Af öðrum landspendýrum má nefna villigeitur sem lifa í fjöllunum auk þess sem stofn þeirra finnst einnig á eyjunni Krít. Þessi tegund hefur horfið nær alls staðar annars staðar í Evrópu. Gemsur (Rupicapra rupicapra) finnast í afskekktu fjalllendi nyrst í landinu. Stofnstærð þeirra er aðeins um 600 dýr og eru þau alfriðuð en veiðiþjófnaður á þeim er því miður stundaður. Evrópska villisvínið (Sus scrofa) og rádýr (Capreolus capreolus) finnast um allt meginland Grikklands. Að lokum er vert að minnast á rauðhirti (Cervus elaphus) sem eru í reynd útdauðir í Grikklandi. Nokkur dýr voru hins vegar flutt inn fyrir nokkrum áratugum og nú eru um 150 dýr þessarar tegundar í þjóðgarði nærri Aþenu. Sérstök tegund munkasela finnst í dýraríki Grikklands. Miðjarðarhafsmunkaselurinn (Monachus monachus) er eitt af sjaldgæfari spendýrum jarðar nú um stundir. Hann finnst við strendur Grikklands en áður fyrr voru sellátur hans meðfram öllum strandsvæðum Miðjarðarhafsins og allt vestur til Kanaríeyja og á Atlantshafsströnd Marokkó. Sennilega er heildarstofnstærð hans nú komin niður fyrir 400 dýr.
Fuglar Alls verpa um 240 fuglategundir í Grikklandi en þar að auki hafa um 200 aðrar fuglategundir fundist í landinu. Á vefsíðunni Avibase má sjá lista yfir fjölskrúðugt fuglalíf landsins. Skriðdýr og froskdýr Þrjár tegundir sæskjaldbaka sjást reglulega innan lögsögu Grikklands. Ein þeirra, klumbudraga (Caretta caretta), verpir við strendur landsins, nánar tiltekið í Laganasflóa. Hinar tvær eru leðurbakur (Dermochelys coriacea) sem verpir aðeins á einum stað í Miðjarðarhafi við strendur Adríahafs í Albaníu, og græna sæskjaldbakan (Chelonia mydas) sem telst vera útbreiddust allra sæskjaldbaka. Nokkrar tegundir eitraðra snáka lifa í Grikklandi. Þekktastar þeirra eru naðran (Vipera berus) sem er mjög útbreidd um alla Evrópu og sandnaðran (Vipera amodytes) sem er nokkuð stærri og getur orðið allt að metri á lengd. Þriðja tegundin er svokallaður evrópskur rottusnákur (Elaphe situla). Stærsti snákurinn í fánu Grikklands er hins vegar eðlusnákur eða montpelliersnákur (Malpolon monspessulanus) sem getur orðið um 2 metrar á lengd og er afkastamikill afræningi nagdýra. Í Grikklandi finnast sjö tegundir eðla af ætt gekkóa sem lifa hvergi annars staðar villtar. Nokkrar tegundir skriðdýra og froskdýra sem lifa í Afríku finnast einnig í Miðausturlöndum og allt norður til Grikklands. Má þar til dæmis nefna afríska kamelljónið (Chamaeleo africanus). Heimildir og myndir:
- Conservation plan for the golden jackal Canis aurius L in Greece. April 2004. WWF Greece.
- Avibase - the World Bird Database
- Arcturos
- Mynd af sjakala: Golden Jackal á Wikipedia. Sótt 2. 9. 2009.
- Mynd af munkasel: Crete Kreta. Sótt 2. 9. 2009.