Hlutverk Gestapo var að rannsaka og berjast gegn öllu því sem gæti talist hættulegt ríkinu og Nasistaflokknum. Frá upphafi beitti Gestapo þeirri aðferð að neyða fórnarlömb sín, oft með pyntingum, til að undirrita beiðni um „öryggisgæslu“ (þ. Schutzhaft) byggða á lögum frá því 28. febrúar 1933. Þetta þýddi í raun að viðkomandi heimilaði að sér yrði komið fyrir í fangabúðum „sér til verndar“ þar sem gera mátti bókstaflega hvað sem var við hann. Dr. Werner Best, einn aðstoðarmanna Himmlers innan Gestapo, lýsti lögmæti stofnunarinnar best með orðunum: „Svo lengi sem lögreglan framkvæmir vilja forystunnar, eru gjörðir hennar löglegar.“ Nasistaflokkurinn beitt sér líka fyrir því árið 1935 að dómstólar mættu ekki hafa lögsögu í málefnum Gestapo og það var síðar lögfest 10. febrúar 1936. Sama ár var stofnuninni falin umsjón með fangabúðum Þriðja ríkisins og eftir 1942 gegndi hún stóru hlutverki í útrýmingarherferð nasista á hendur gyðingum og öðru „óæskilegu“ fólki. Uppbygging Gestapo Eftir að Gestapo komst undir stjórn SS árið 1934 heyrði hún undir Öryggislögregluna (þ. Sicherheitspolizei) ásamt systurstofnun sinni Öryggisþjónustunni eða SD (þ. Sicherheitsdienst). Þessar tvær undirstofnanir fóru oft inn á verksvið hvor annarrar og kepptu stöðugt um áhrif og völd. Með tímanum blandaðist þó starfsemi þeirra; til að mynda voru fulltrúar beggja stofnana í áþekkum einkennisklæðnaði við störf sín í hersetnu löndunum. Þegar Heydrich, sem stýrði SD frá upphafi, náði völdum í Gestapo 1934 gerði hann Heinrich Müller að yfirmanni stofnunarinnar. Ernst Kaltenbrunner tók við starfi Heydrichs eftir að hann var felldur úr launsátri árið 1942 en Müller stjórnaði Gestapo til stríðsloka. Þegar Öryggisstofnun ríkisins, RSHA (þ. Reichsicherheitshauptamt) var komið á laggirnar 1939 var Gestapo sett beint undir yfirstjórn hennar sem deild IV. Innan Gestapo voru svo undirdeildir sem sáu um eftirfarandi verkefni:
- Óvinir (til að mynda launmorð)
- Trúarhópar og kirkjur (þar á meðal gyðingar og frímúrarar)
- Stjórn stofnunarinnar og flokksmálefni
- Yfirráðasvæði Þriðja ríkisins (flest málefni hinna undirdeildanna)
- Gagnnjósnir (skipt upp eftir landsvæðum)
- Landamæraeftirlit
Foringjar innan Gestapo skörtuðu einkennisnælum svipuðum þessum.
Á stríðsárunum urðu umsvif Gestapo svo mikil að hún hafði yfir um 45.000 starfsmönnum að ráða auk þess sem hún hafði um 100.000 uppljóstrara á launaskrá sinni 1943. Stofnunin aðstoðaði við stjórnun hernuminna landsvæða, barðist gegn andspyrnuhreyfingunni og leitaði meðal annarra uppi gyðinga, sósíalista, samkynhneigða og sígauna og kom þeim í fanga- og útrýmingarbúðir. Nánar má lesa um aðgerðir Gestapo gegn andspyrnuhreyfingunni í svari sama höfundar við spurningunni Hvað gerði andspyrnuhreyfingin í seinni heimsstyrjöldinni? Ofbeldi og hrottaskapur einkenndi margar yfirheyrslur Gestapo en staðreyndin var sú að yfirheyrslutæknin sem beitt var fór jafnan eftir því hver stjórnaði yfirheyrslunum. Margir voru sadískir hrottar sem beittu nánast miðaldapyntingum á meðan aðrir notuðu yfirheyrslutækni án líkamlegs ofbeldis. Barátta gegn andófi innan Þýskalands Gestapo gegndi lykilhlutverki í að tryggja að óánægja með stjórn Nasistaflokksins næði ekki að skjóta rótum. Fyrri hluta árs 1943 stóð hún ásamt öryggisliði Himmlers fyrir þúsundum fangelsana og aftaka á þýskum andófsmönnum sem kæfði allan mótþróa á meðal þýsks almennings gegn stjórn Hitlers. Nokkur tilræði voru þó gerð gegn Hitler. Það sem komst næst því að bera árangur var samsæri nokkurra herforingja, Aðgerð Valkyrie, þegar von Stauffenberg greifi náði að sprengja sprengju í fundarherbergi Hitlers 20. júlí 1944. Hitler særðist þó aðeins lítillega og í kjölfarið voru nálægt 7.000 manns handteknir af Gestapo og SS og þar af voru um 5.000 líflátnir. Aðgerðir Gestapo gegn þýskum almenningi 1943 var nokkuð sem Þjóðverjar höfðu ekki upplifað áður, en segja má að árið 1944 hafi með Gestapo verið innleidd ógnarstjórn í Þýskalandi. SD og Gestapo náðu gríðarlegum völdum við það að berjast gegn andspyrnuhreyfingum innan Þriðja ríkisins því um leið var tækifærið notað til að gera upp sakirnar við keppinauta, bæði einstaklinga og aðrar stofnanir svo sem herinn sem eftir tilræðið 20. júlí var gersamlega knésettur sem valdastofnun innan ríkisins. Stríðsglæparéttarhöldin Eftir stríðið komu sigurvegarar styrjaldarinnar á fót Alþjóðaherdómstóli (e. International Military Tribunal) í Nürnberg til að draga til ábyrgðar stofnanir og áhrifamikla einstaklinga Þriðja ríkisins fyrir stríðsglæpi, glæpi gegn mannkyni og gegn friði. Ákveðið var að leiðtogar, skipuleggjendur, hvatamenn og þátttakendur í áætlunum eða samsærum um að fremja slíka glæpi skyldu sæta ábyrgð á öllum óhæfuverkum stofnana sem dæmdar væru sekar um slíka glæpi. Gestapo var ásamt fleiri stofnunum Þriðja ríkisins sakfelld um slíka glæpi sem þýddi að ríkisstjórnir gátu dregið menn fyrir rétt ef á þá sannaðist að þeir hefðu verið meðlimir Gestapo. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Voru útrýmingarbúðir nasista í seinni heimsstyrjöldinni allar utan Þýskalands? eftir Pál Björnsson
- Hvað getið þið sagt mér um útrýmingarbúðirnar í Auschwitz? eftir Jónu Símoníu Bjarnadóttur
- Hvert var hlutverk hinar svokölluðu "joy division" hjá nasistum í seinni heimsstyrjöldinni? eftir Skúla Sæland
- Komu „læknisrannsóknir“ dr. Mengeles heiminum að einhverju gagni? eftir Ulriku Andersson
- Fest, Joachim C.: The face of the Third Reich. Aylesbury, Bucks, Pelican Books Ltd. 1972.
- Shirer, William L.: The rise and fall of the Third Reich. A history of Nazi Germany. 2. prentun. London, Pan Books Ltd. 1964.
- Wikipedia, the free encyclopedia. „Gestapo“, „Reinhard Heydrich“. Sótt 9. júní 2005.
- Williamson, Gordon: The SS. Hitler’s instrument of terror. London, Sidgwick & Jackson Ltd. 1994