Í Auschwitz var komið upp vændishúsi í blokk 24 sem stóð afsíðis innan fangabúðanna og var rétt við aðalhlið þeirra. Fangar sem gegndu ábyrgðarstörfum innan búðanna gátu fengið aðgangsmiða að vændishúsinu með samkomulagi við SS-verðina. Þetta vændishús starfaði í rúmt ár, allt til endaloka Auschwitz í janúar 1945 þegar Þjóðverjar flýðu þaðan undan sovéska hernum. Leifur Müller Íslendingurinn Leifur Müller lifði af vist í fangabúðum Þjóðverja í Sachenhausen og greindi frá veru sinni þar eftir stríð. Lýsti hann meðal annars vændishúsinu sem var komið þar upp í búðunum. Leifur sagði 10 konur hafa verið fluttar að úr Ravensbrück-fangabúðunum en að öllum föngum hafi verið seldir aðgöngumiðar að kvenföngunum. Að vísu var eingöngu þýskum föngum leyft að nýta sér þessa „þjónustu“ en síðar var öðrum „Germönum“ einnig hleypt að og loks Pólverjum. Leifur sagði mikla ásókn hafa verið í vændishúsið sem opið var eftir vinnudag fanganna og gengið var hart fram í því að hver maður fengi einungis 10-15 mínútur með kvenföngunum. Þegar Leifur var á heimleið undir vernd sænska Rauða krossins, fyrir tilstilli hins sænska Bernadotte greifa, var honum komið fyrir um mánaðartíma í fangabúðunum Neuengamme. Þar var sömuleiðis vændishús en einungis stjórnendur úr liði fanganna fengu aðgang að hórunum. Taldi Leifur þetta merki um spillingu en áttaði sig ekki á því að hér var verið að fylgja beinum fyrirmælum Himmlers um verðlaun fyrir góða þjónustu og að í raun var meiri spilling í Sachsenhausen þar sem hverjum sem er var seldur aðgangur gegn háu gjaldi. Örlög kvennanna Talið er að um 3-400 konur hafi verið neyddar til vændis með þessum hætti. Lítið er vitað um vist þeirra frá þeim sjálfum. Lýsingar af veru þeirra eru einungis fengnar frá öðrum heimildum. Þó er vitað að þær fengu betri mat og klæði en aðrir fangar og var leyft að þrífa sig. Einungis er vitað um afdrif kvenna sem sendar voru aftur til Ravensbrück fangabúðanna. Þær voru oft óléttar eða með kynsjúkdóma og þá var framkvæmd á þeim fóstureyðing og/eða þær nýttar í „læknisfræðilegar tilraunir.“ Samfangar þeirra lýstu þeim sem niðurbrotnum á sál og líkama við komuna aftur til fangabúðanna. Konurnar voru oft lækkaðar í stöðu innan búðanna og merktar með svörtum þríhyrningi sem þýddi 'andfélagslegur fangi' og urðu þær fyrir aðkasti vegna þess. Reynsla þeirra sem lifðu af var eðlilega þess eðlis að erfitt var að tala um hana. Þjáning þeirra er sennilega einna síst þekkt af þeim hryllingi sem viðgekkst innan fanga- og dauðabúða Þjóðverja, bæði vegna þess að konurnar hafa þagað yfir þessu vegna skammartilfinningar og fordóma annarra. Leifur Müller sagði að á þessum tíma hefði honum fundist „vændishúsið ekki vera skref niður. En þegar ... [hann liti til baka gerði hann sér] grein fyrir niðurlægingunni sem í þessu fólst.“ Opinber afskipti af vændishúsum í Þriðja ríki Hitlers
Nasistar beittu vændishúsum sem hluta af framkvæmd kynþáttastefnu sinnar. Strax árið 1940 fyrirskipaði Hitler að útlendir verkamenn innan Þýskalands (þ. fremdvölkische Arbeiter) skyldu hafa aðgang að vændishúsum sem eingöngu var mannað erlendum vændiskonum. Um leið var Þjóðverjum bannað að stunda viðkomandi hús. Á sama tíma var ýtt undir fjölgun „þýskra“ hóruhúsa og vændiskonur hraktar af götunum. Þetta var allt gert til þess að tryggja aðskilnað kynþátta. Eitthvað var líka um að Þjóðverjar rækju hóruhús sem staðsett voru skammt frá víglínunni. Konur voru stundum þvingaðar til að þjónusta hermennina, jafnvel þó þær væru gyðingar. Þær voru þá tattúveraðar með númeri líkt og aðrir fangar í fangabúðum en til viðbótar voru stafirnir FH (þ. Feldhur) settir fyrir framan númerið til að auðkenna þær sem hórur til afnota fyrir herinn. Kynlífsþrælar japanska hersins Frásagnir kvenna sem notaðar voru sem kynlífsþrælar í japanska hernum á sama tíma eru alræmdar. Óbreyttir borgarar voru valdir til þess að sjá um vændisbúðir sem staðsettar voru innan japanskra herstöðva. Japanski herinn taldi að með þessu væri hægt að fylgjast betur með kynsjúkdómum, bæta liðsanda innan hersins og eins þyrftu hermenn færri frí frá skyldustörfum. Þegar ekki reyndist unnt að mæta þörfinni fyrir vændiskonur með auglýsingum var þeim einfaldlega rænt. Frásagnir eftirlifenda eru hræðilegar en hvorki japanska ríkisstjórnin né herinn viðurkenna beina ábyrgð á þessum hroða. Segja þau sér til varnar að milligöngumenn hafi séð um að útvega konur til þjónustu í vændishúsum og séð um þau. Þó hefur verið hægt að sýna fram á að í sumum tilvikum valdi herinn sjálfur milligöngumennina til að sjá um þessa þjónustu. Niðurlag Hér að ofan hefur verið fjallað um skipulagða kynlífsþrælkun tveggja ríkja sem töpuðu í styrjöld. Við verðum að hafa í huga að sigurvegarinn skrifar ávallt söguna og að við vitum að mörgu leyti sáralítið um þennan þátt stríðsins þó enn sé ýmislegt nýtt að koma fram. Nauðganir og misþyrmingar á saklausum eða þeim sem minna mega sín eru því miður fylgifiskur átaka og má hér nefna fjöldanauðganir sovéskra hermanna í Þýskalandi 1945 við lok stríðsins. Þetta átti sér einnig stað á meðal hermanna og fangavarða bandamanna en þó ekki með eins umfangsmiklum hætti og við minni umfjöllun. Enn er nauðgunum beitt sem vopni og er skemmst að minnast skipulagðra nauðgana við þjóðernishreinsanir í borgarastyrjöldinni í gömlu Júgóslavíu. Í dag hafa Sameinuðu þjóðirnar kveðið á um að slíkur óhugnaður sé stríðsglæpur, glæpur gegn mannkyni og brot á mannréttindum kvenna. Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um útrýmingarbúðir nasista, til dæmis:
- Hvað getið þið sagt mér um útrýmingarbúðirnar í Auschwitz? eftir Jónu Símoníu Bjarnadóttur
- Voru útrýmingarbúðir nasista í seinni heimsstyrjöldinni allar utan Þýskalands? eftir Pál Björnsson
- Hvernig völdu nasistar fólk til „starfa“ í útrýmingarbúðunum? eftir Gísla Gunnarsson
- Eru til nákvæmar tölur yfir hvað Hitler drap marga til samans?eftir Gísla Gunnarsson
- Getur verið að færri Gyðingar hafi dáið í helförinni en talið hefur verið? eftir Gísla Gunnarsson
- Komu „læknisrannsóknir“ dr. Mengeles heiminum að einhverju gagni? eftir Ulriku Andersson
- Garðar Sverrisson. Býr Íslendingur hér? Minningar Leifs Muller. Reykjavík, 1988.
- Brigitte Halbmay. „Sexualized Violence and Forced Prostitution in National Socialism“. Vefsvæði: Women and the Holocaust . Sótt 7. 1. 2008.
- Hata, Ikuhiko. „No organized or forced recruitment. Misconceptions about comfort women and the Japanese military“. Vefsvæði: Society for the Dissemination of Historical Fact. Sótt 31. 12. 2007.
- Arthur Hertzberg. „The First Encounter. Survivors and Americans in the Late 1940s“ í Monna and Otto Weinmann lecture serise á vefsvæði United States Holocaust Memorial Museum. Sótt 31. 12. 2007.
- „Israel’s Unexpected Spinoff From a Holocaust Trial“. Vefsvæði: The New York Times. Sótt 2.1. 2008.
- Leifur Müller. Í fangabúðum nazista. Reykjavík, 1945.
- „Memory of the Camps“ Vefsvæði: Frontline á vef Public Broadcasting Service (PBS). Sótt 2.1. 2008.
- „Nazi Sex Slaves. New Exhibition Documents Forced Prostitution in Concentration Camps“. Vefsvæði: Spiegel Online. Sótt 2.1. 2008.
- Laurence Rees: „Auschwitz. Inside the Nazi state.“ Samstarfsverkefni KCET og BBC. (PBS). Vefsvæði: Public Broadcasting Service . Sótt 2.1. 20087.
- Julia Roos. „Backlash against Prostitutes' Rights: Origins and Dynamics of Nazi Prostitution Policies,“ í Sexuality and German Fascism, ritstj. Dagmar Herzog (New York, Oxford). Bls. 67-94.
- Chris Warren. „Joy Division Shadowplay“ Vefsvæði: joydiv.org . Sótt 1.1. 2008.
- Sandra S. Williams: „Ka-tzetnik's Use of Paradox“, (University of Central Florida, 1993). Sótt af http://www.billwilliams.org/katz/ka-tzetnik.html 3. 1 2008.
- Sótt af vefsvæði Encyclopædia Britannica Online:
- Anne L. Barstow. Rape. Sótt 2. 1. 2008.
- Jon Savage. Joy Division/ New Order. Sótt 2.1. 2008.
- Sótt af vefsvæði Wikipedia, the free encyclopedia
- Comfort women. Sótt 2. 1. 2008.
- The House of Dolls. Sótt 2.1. 2008.
- Joy Division. Sótt 2.1. 2008.
- Yehiel De-Nur . Sótt 2. 1. 2008.
- Mynd af House of Dolls: Vefsvæði: Amazon.com. Sótt 7. 1. 2008.
- Mynd frá Mauthausen: Brigitte Halbmay. „Sexualized Violence and Forced Prostitution in National Socialism“. Vefsvæði: Women and the Holocaust. Sótt 7. 1. 2008.
- Mynd af Hitler og Himmler: Heinrich Himmler. Vefsvæði: Wikipedia, the free encyclopedia. Sótt 9. 1 2008.