Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í svari við spurningunni Hversu margar tegundir af dýrum eru í útrýmingarhættu í dag og af hverju? er skýrt út hvernig alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin Union for Conservation of Nature (IUCN) flokka dýrategundir eftir því hversu mikil hætta er á að þær deyi út í nánustu framtíð. Árið 2004 var listi IUCN yfir útdauð hryggdýr eða tegundir í hættu eftirfarandi:
Flokkur
Ex
Ew
Cr
En
Vu
Spendýr
73
4
162
352
587
Fuglar
129
4
179
345
689
Skriðdýr
21
1
64
79
161
Froskdýr
34
1
413
729
628
Fiskar
81
12
171
160
469
Alls
338
22
989
1665
2534
Ex (extinct) - útdautt.
Ew (extinct in wild) - útdautt í villtri náttúru.
Cr (critically endangered) - í mikilli útrýmingarhættu.
En (endangered) - í útrýmingarhættu.
Vu (vulnerable ) - í hættu.
Ef Afríka er skoðuð sérstaklega eru tölurnar um fjölda útdauðra hryggdýrategunda eða tegunda í mikilli útrýmingarhættu eftirfarandi:
Flokkur
Ex
Ew
Cr
Spendýr
1
0
16
Fuglar
41
0
32
Skriðdýr
0
0
0
Froskdýr
0
0
30
Fiskar
2
1
12
Alls
44
1
90
Spendýr sem eru í bráðri útrýmingarhættu í Afríku eru yfirleitt smávaxin og hafa takmarkaða útbreiðslu. Meðal þeirra eru átta tegundir leðurblakna, fjórar tegundir nagdýra og tvær tegundir skordýraætna. Stórvaxnasta tegundin er antílópa sem kallast zanzibar ducker eða adersi duiker (Cephalophus adersi). Árið 1996 settu sérfræðingar IUCN tegundina í flokkinn "í útrýmingarhættu" (endangered) en þá var stofnstærðin í Zanzíbar um 2.000 dýr. Þremur árum síðar var stofninn álitinn vera aðeins um 640 dýr og því settur á lista yfir dýr í mikilli útrýmingarhættu. Ástæður þessarar fækkunar eru taldar vera verulegar búsvæðaraskanir og ólöglegar veiðar.
Zanzibar ducker
Af öðrum spendýrum í mikilli útrýmingarhættu (CR) í Afríku má nefna kahuzi-klifurmúsina (Dendromus kahuziensis). Aðeins tveir einstaklingar hafa fundist af þessari tegund (með 100 metra millibili) og er tegundin talin vera einlend (endemic - bundin við tiltekið svæði) á smáu svæði í þéttum skógum Austur-Kongó.
Annað spendýr í mikilli útrýmingarhættu er músategund sem nefnist Hylomyscus grandis eða Mt. Oku Hylomiscus á máli innfæddra. Þessi tegund finnst aðeins á tiltölulega smáu svæði á fjallinu Oku í Kamerún. Verulega hefur gengið á skóglendið á svæðinu og er það sennilega ástæðan fyrir hruni tegundarinnar.
Af skordýraætum í mikilli útrýmingarhættu eru tegundir af ættkvíslinni Myosorex, það er eisentrauti-músasnjáldra (M. eisentrauti) og rumpii-músasnjáldra (M.rumpi). Aðeins einn einstaklingur hefur fundist af rumpii-músasnjáldrunni, nánar tiltekið í Rumpi-hæðunum í Kamerún. Þetta dýr er því talið afar sjaldgæft og einlent fyrir þetta svæði. "Frænka" hennar, eisentrauti-músasnjáldran er einnig einlent dýr á mjög takmörkuðu svæði á eyjunni Bioko undan ströndum Miðbaugs-Gíneu. Afar litlar upplýsingar eru um líffræði eða stofnvistfræði þessara tveggja tegunda.
Ennfremur eru þrjár tegundir keðjusnjáldra (Crocidura) í bráðri útrýmingarhættu í Afríku.
Eins og taflan hér að ofan sýnir eru 30 tegundir froskdýra í mikilli útrýmingarhættu, þar af eru fimm tegundir af ættkvíslinni Mantella. Meðal þeirra er gullfroskurinn (Mantella aurantiaca) sem lifir á votlendissvæðum á Madagaskar. Akuryrkja hefur gengið verulega á heimkynni hans og er nú talið að heildarbúsvæði gullfrosksins sé innan við 10 km2 . Heildarstofnstærð hans er ekki þekkt en með tilliti til þess hversu mikið hefur verið gengið á búsvæði hans er hann settur á lista yfir dýr í mikilli útrýmingarhættu.
Alls eru 32 fuglategundir í mikilli útrýmingarhættu í Afríku. Þar má nefna raso-lævirkjann (Alauda razae) sem lifir á Grænhöfðaeyjum, nánar tiltekið á smáeyjunni Raso. Tíðarfar hefur mikil áhrif á stofnstærð hans og getur tegundin farið niður í afar fáa fugla þegar það er óhagstætt.
Madagaskar fiskiörninn (Haliaeetus vociferoides) sem er af sömu ættkvísl og íslenski örninn er nú á lista yfir dýr í mikilli útrýmingarhættu. Hann var fyrst settur á lista yfir tegundir í mikilli útrýmingarhættu árið 1994. Á þeim stöðum þar sem vísindamenn hafa rannsakað örninn vel hefur þó komið í ljós að stofnstærðin hefur hingað til verið mjög vanmetin. Þrátt fyrir það er fjöldi para það lítill að tegundin er á mjög viðkæmu stigi.
Madagaskar fiskiörn (Haliaeetus vociferoides)
Fjöldi tegunda er í næsta hættustigi fyrir neðan, sem nefnist "í útrýmingarhættu" (endangered). Má þar nefna tegundir eins og hvíta nashyrninginn (Ceratotherium simum), afrískan villihund (Lycaon pictus), eþíópískan úlf (Canis simenes) og golíat-froskinn (Conrava goliath).
Svör um dýr í útrýmingarhættu á Vísindavefnum eftir sama höfund.
Jón Már Halldórsson. „Hvaða dýr í Afríku eru í útrýmingarhættu?“ Vísindavefurinn, 16. mars 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4840.
Jón Már Halldórsson. (2005, 16. mars). Hvaða dýr í Afríku eru í útrýmingarhættu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4840
Jón Már Halldórsson. „Hvaða dýr í Afríku eru í útrýmingarhættu?“ Vísindavefurinn. 16. mar. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4840>.