Hér er einnig svarað spurningunni:Hvaða dýr eru núna í útrýmingarhættu?
Höfundur þessa svars hefur þegar svarað nokkrum spurningum á Vísindavefnum um sjaldgæf dýr og dýr í útrýmingarhættu:
Þessum spurningum er það öllum sameiginlegt að erfitt er að svara þeim örugglega. Örðugt getur reynst að meta stofnstærð sjaldgæfra tegunda ef búsvæði þeirra eru torveld yfirferðar og mörkin milli þess að telja tegund í útrýmingarhættu eða útdauða eru oft á reiki. Tegundir taldar útdauðar hafa verið uppgötvaðar á ný þannig að hver listi yfir sjaldgæfar eða útrýmdar tegundir verður aldrei tæmandi.
Í svarinu um sjaldgæfasta fuglinn eru nefndar nokkrar fuglategundir sem aðeins telja fáa einstaklinga, eftir því sem vísindamenn vita best. Tegundin Gurney´s pitta (Pitta gurneyi) er talin vera sjaldgæfasta fuglategund veraldar, stofnstærðin aðeins 18 einstaklingar árið 2000. Gerðar hafa verið umfangsmiklar rannsóknir á stofnstærðum spendýrategunda og hér að neðan fylgir listi yfir sjaldgæfustu spendýr veraldar:
Tegund | Enskt heiti | Fjöldi einstaklinga | Ártal talningar |
Marmota vancouverensis | Múrmeldýr | Vancouver Island Marmot | 24 | 2002 |
Lipotes vexillifer | Fljótahöfrungur | Baiji | Örfáir tugir | 2000 |
Coleura seychellensis | Leðurblaka | Seychelle Sheath-Tailed Bat | Innan við 50 | 1999 |
Rhinoceros sondaicus | Nashyrningur | Javan Rhinoceros | Innan við 60 | 2002 |
Caprolagus hispidus | Héri | Assam Rabbit | 110 | 2001 |
Bubalus mindorensis | Dvergvaxinn vatnabuffall | Tamaraw | 30-200 | 2002 |
Fjölmargar spendýrategundir telja færri en 1.000 einstaklinga en hér er um allra sjaldgæfustu spendýrin að ræða.
Meðal skriðdýra hefur löngum verið talið að tegund sem kallast á ensku Round Island Boa (Casarea dussumieri), sé sú sjaldgæfasta. Nokkrar aðrar tegundir „sækja hart að þessum titli“ eins og Cropan’s Tree Boa (Xenoboa croapnii) og hin ástralska Rough-Scaled Python (Morelia carinata).
Sniglinum Samoana fragilis (e. Fragile Tree Snail) hefur fækkað stórkostlega á undanförnum 6 árum. Árið 1996 lifði hann aðeins á tveimur eyjum í Kyrrahafi, Guam og Rota en er nú horfin af Guam og aðeins tæpir 100 einstaklingar finnast á Rotaeyju. Annað lindýr, madeiralandsnigillinn (Discus guerinianus), var talið útdautt árið 1860 en í rannsókn sem gerð var á eyjunni 1996 fannst það á ný en er afar sjaldgæft.
Í svarinu við spurningunni Hversu margar tegundir af dýrum eru í útrýmingarhættu í dag og af hverju? er fjallað um fjölda tegunda í útrýmingarhættu eftir hópum og á vefsíðunni www.redlist.org má sjá uppfærðan lista og ýmsar upplýsingar um lífverur í útrýmingarhættu.
Heimild: Rauði listinn: 2002 IUCN Red List of Threatened Species
Mynd: The Vancouver Island marmot pages