Best er að staðsetja geitungabú um hádaginn á lygnum sólardögum þar sem þernurnar eru hvað iðnastar við þær aðstæður. Yfirleitt er flugstefnan hjá þeim bein þannig að þær fara stystu leið í búið frá fæðustöðvunum. Gott getur verið að koma fyrir fæðu á ýmsum stöðum til þess að ákvarða úr hvaða stefnu geitungarnir koma til að sækja sér mat. Þegar þeir fara til baka er jafnvel hægt að fara í humátt á eftir þeim en að sjálfsögðu þarf að fara mjög varlega og gæta þess að börn eða gæludýr séu ekki nærri. Staðsetning geitungabúa fer mjög eftir því hvaða geitungategund er um að ræða. Trjágeitungar gera sér oft bú á trjágreinum eða girðingum og geta búin verið mjög áberandi. Bú holugeitunga eru sjaldnast sýnileg, oft hverfa þeir ofan í holu í jörðinni eða inn undir þakskegg. Ef menn finna geitungabú er öruggast að hafa samband við meindýraeyði til þess að ganga frá því. Frekari fróðleikur um geitunga á Vísindavefnum:
- Hvað er til margar tegundir af geitungum á Íslandi og hvernig líta þeir út? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvaðan kemur nafnið geitungur? eftir Gísla Má Gíslason
- Deyja geitungar þegar þeir stinga og eru stungurnar hættulegar fólki? eftir Gísla Má Gíslason og Margréti Björk Sigurðardóttur
- Í dag var mjög stór geitungur inni á heimili okkar, er þetta ný tegund? eftir Jón Má Halldórsson
- San Juan Wildlife and Nature Photography. Sótt 7. 8. 2008.
Í heild sinni hljóðaði spurningin svona:
Hvað fara geitungar yfirleitt langt frá búi sínu í fæðuleit, þeir eru hér til mikilla leiðinda, hvað þarf leitarradíusinn að vera stór?