Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvar eru mestu stríðsminjar á Íslandi?

Skúli Sæland

Því er til að svara að minjar stríðs geta verið margs konar. Þær geta verið leifar bygginga, tækja og búnaðar sem tengjast herliði en þær geta líka verið leifar áhrifa hersetuliða á tungumál. Félagsleg samskipti ólíkra menningarheima, samskipti erlendra hermanna og íslensks kvenfólks sem meðal annars leiddi af sér „ástandið” og „ástandsbörnin”, örnefni eftir staðsetningu herliðs, „stríðsgróðinn” sem varð til vegna mikilla verðhækkana á fiskafurðum okkar, „Bretavinnan” sem útvegaði landsmönnum atvinnu hjá setuliðinu við framkvæmdir og svo framvegis. Þessar „óáþreifanlegu” minjar eru því alls staðar umhverfis okkur í samfélaginu.

„Áþreifanlegu” minjarnar, svo sem leifar mannvirkja og búnaðar er hins vegar hægt að staðsetja. Hérlendis er Stríðsárasafnið við Reyðarfjörð eina safnið sem sérhæfir sig í að sýna og varðveita sögu þessa tímabils. Þar má meðal annars finna bragga og fjögur loftvarnarbyrgi. Í þessari grein verður hins vegar reynt að gefa vísbendingu um hvar helstu leifar mannvirkja og hertóla úr síðari heimsstyrjöldinni er að finna. Ummerki varnarliðs Bandaríkjahers frá kalda stríðinu bíða betri tíma.

Bretar hernámu landið 10. maí árið 1940 og sendu hingað fjölmennt setulið síðsumars 1941, um 28.000 manns. Bandaríkjamenn hófu að leysa þá af hólmi í júlí 1941 og var hér tæplega 40.000 manna varnarlið frá þeim þegar mest lét. Þar að auki voru liðsmenn bandaríska og breska flotans og flughersins alls nærri 50.000 sumarið 1943. Til samanburðar má nefna að við manntal árið 1940 voru íbúar Reykjavíkur einungis um 38.000. Þó svo að Bandaríkjaher leysti þann breska af hólmi árið 1941 voru hér breskir hermenn út allt stríðið og allt til ársins 1947.

Herinn kom fljótlega upp varnarstöðvum víða um land. Bretar töldu Reykjavík vera langmikilvægasta staðinn sökum góðrar hafnar- og flugvallarskilyrða og því var fjölmennt lið ávallt þar. Norðurland fékk það sem kalla má miðlungi öflugar varnir en Austfirðir fengu sístar varnir, aðallega vegna þess hve afskekktir þeir voru. Þegar Bandaríkjamenn leystu Breta af hólmi þá fylgdu þeim breyttar áherslur við varnarviðbúnað. Stafaði það meðal annars af aukinni baráttu gagnvart kafbátaógn Þjóðverja auk þess sem hættan á innrás þeirra var talin hverfandi. Bandaríkjamenn lögðu enn meiri áherslu á varnir Reykjavíkursvæðisins en Bretar og höfðu allt að 80% liðsaflans á suðvesturhorninu. Uppbygging flugvallarins í Keflavík hafði þó eitthvað þar að segja. Í heild námu hernumin svæði hérlendis ríflega 19.000 hekturum og þar af voru byggingar hersins á nærri 5.000 hekturum. Allur aðbúnaður hersveita Bandaríkjamanna var þó allt annar og betri en Breta auk þess sem þeir fluttu hingað með sér mikið magn stórvirkra vinnuvéla. Báðir reistu umfangsmiklar herbúðir víða um land. Alls risu um 6000 breskir braggar, hundruð annarra bygginga eins og eldhús og baðhús. Síðar bættust við um 1500 bandarískir braggar. Bretar byggðu aðallega svokallaða Nissen-bragga en Bandaríkjamenn Quonset-bragga. Má segja að meginmunur þessara tegunda hafi verið vandaðri smíð þeirra síðarnefndu.


Hér má sjá heillegustu braggabyggð landsins. Hana má finna á Miðsandi við Hvalfjörð og er í eigu og umsjón Hvals hf.

Vorið 1944 var skipuð með lögum Nefnd setuliðsviðskipta til að semja við stjórn setuliðsins um kaup á öllum þeim varningi sem það vildi selja. Ári síðar var Sölunefnd setuliðseigna skipuð til að sjá um sölu hermannaskála, bæta úr landspjöllum af völdum setuliðsins og greiða landeigendum skaðabætur. Nefndirnar luku störfum árið 1947 og 1948. Bæjar- og sveitarfélög fengu forkaupsrétt á fasteignum í þeirra umdæmum og gátu hagnast vel á viðskiptunum. Auk þess leystu braggarnir brýnan húsnæðisvanda, sérstaklega í Reykjavík. Til dæmis hagnaðist Akureyrarbær um nærri 300 þúsund krónur þegar hann áframseldi herskála á bæjarlandinu. Við árslok 1944 bjuggu rúmlega 900 manns í bröggum í Reykjavík. Búsetan náði hámarki á sjötta áratugnum en þá bjuggu 2300 manns í nærri 550 íbúðum. Á 7. áratugnum var skálunum hins vegar að mestu útrýmt. Á landsbyggðinni voru flestir braggarnir rifnir og seldir bændum og risu þeir víða sem geymslur og fjárhús sem má enn þá sjá í fullri notkun. Enn er jafnvel búið í íbúðarhúsum sem reist voru úr braggaefni. Greiðslur Sölunefndarinnar voru meðal annars ætlaðar til að gera landeigendum kleift að útmá ummerki um veru herliðsins. En mörgum landeigendanna, sem þágu skaðbætur fyrir landspjöll, láðist að hreinsa til eftir veru setuliðsins. því má segja að viðkomandi aðilar hafi með þessu bjargað mörgum menningarverðmætum frá glötun og vonandi að þau verði varðveitt sem flest um ókomin ár.

Af einstökum byggingum hérlendis er flugturninn við Reykjavíkurflugvöll sennilega merkastur en því miður stendur til að rífa hann. Af stærri svæðum eru helst Öskjuhlíðin og Brautarholt á Kjalarnesi sem gefa heillega mynd af varnarviðbúnaði bandamanna hérlendis. Hvalfjörður, Reykjavíkurflugvöllur og Patterson-flugvöllur á svæði varnarliðsins við Keflavík hafa sömuleiðis að geyma merkar minjar um síðari heimsstyrjöldina.

Í borgarlandinu hafa stríðsminjar helst varðveist í Öskjuhlíð og á Reykjavíkurflugvelli sem nær yfir Vatns- og Seljamýri. Af varnarviðbúnaðinum á Öskjuhlíðinni eru meðal annars steypt skotbyrgi, stjórnbyrgi, víggrafir úr torfi og grjóti, loftvarnarbyrgi, varnarveggir fyrir eldsneytistanka, neðanjarðarvatnstankar, bryggjustubbur, veganet, fjöldi gólfa og grunna undan bröggum og öðrum byggingum og akstursbrautir fyrir flugvélar. Nokkrir braggar eru við rætur Öskjuhlíðar. Hluti gistibúða farþega og flugáhafna breska flughersins (e. Transit Camp) má enn sjá í Nauthólsvík. Öll stóru flugskýlin fjögur á Reykjavíkurflugvelli eru frá stríðsárunum og sömuleiðis gamli flugturninn. Allar meginbrautir flugvallarins voru lagðar á stríðsárunum en hafa verið lengdar og endurbættar eftir stríð. Nær allt lauslegt frá stríðsárunum hefur verið fjarlægt eða ryðgað og fúnað. Þar á meðal gaddavírsgirðingar og sandpokavígi.

Bandaríkjamenn reistu mikla eldsneytisbirgðastöð í landi Miðsands og Litlasands við Hvalfjörð norðanverðan auk birgðastöðvar vegna skipaviðgerða. Bæði skip og olíuskip tóku þar olíu og þau síðarnefndu birgðu svo upp önnur skip í flotadeildum á hafi úti. Upphaflegt skálahverfi olíustöðvarinnar stendur enn að hluta á Miðsandi og er með heillegustu minjum styrjaldarinnar á landinu. Þar má sjá einstætt safn þeirra mismunandi braggategunda sem herlið bandamanna reisti yfir starfsemi sína. Þeim hefur verið vel við haldið enda í fullri notkun fram á síðari ár því olíubirgðastöðin var nýtt áfram fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli og ný reist fyrir herskip NATO. Í Hvítanesi eru leifar flotastöðvar Breta og vegna mikilla umsvifa bæði Breta og Bandaríkjamanna í Hvalfirði má finna ýmsar minjar um veru þeirra víðs vegar við fjörðinn.


Enn má finna flugbrautir á gamla Patterson-flugvellinum við Keflavík.

Patterson- og Meeks-flugvellirnir sem lagðir voru í Keflavík árin 1942 og 1943 mynduðu Keflavíkurflugstöðina sem var meðal þeirra stærstu í heimi enda var vallargerðin dýrasta herframkvæmd hérlendis. Þar er meðal annars stóra flugskýlið af Kaldaðarnesflugvelli sem var rifið í ágúst 1943 og sett upp við vestanverðan Keflavíkurflugvöll. Það hýsir nú tækjabúnað til snjó og hálkuvarna. Minna flugskýlið var rifið sumarið 1944 og sett upp við Reykjavíkurflugvöll.

Af öðrum stríðsminjum má nefna að minjar um ratsjárstöðvar og kampa eru meðal annars uppi á hnjúknum Darra í Aðalvík á Vestfjörðum. Einnig á Hraunhóli á Reynisfjalli í Vík, Siglunesi, Skálum Laugarnesi, Vattarnesi við Reyðarfjörð, Þorbjarnarfell við Grindavík og Hafnartanga í Stokksnesi. Við árslok 1943 tók til starfa Lóran-miðunarstöð á Reynisfjalli byggð af Bretum. Íslendingar tóku við rekstri stöðvarinnar um áramótin 1946-47 og ráku hana í 30 ár. Leifar vatnstanka, herspítala og flugvallar eru í Kaldaðarnesi við Selfoss og leifar skotbyrgja og skotstöðva má einnig sjá við Vífilsstaði, Nónhæð og á Seltjarnarnesi. Af rústum einstakra kampa má nefna Camp Cameron sem Bretar reistu vorið 1941 við Hurðarásvötn í Seldal nærri Núpafjalli. Við Djúpárbakka í Eyjafirði er lítill kampur sem er að mörgu leyti sérstakur því í honum er upprunalegt gólf ásamt ýmislegu lauslegu. Herbúðirnar í Camp Duncan voru reistar af Bandaríkjamönnum árið 1942 við Hestaþingshól við Kaldaðarnes. Kampurinn var langstærsti kampur Bandaríkjamanna á Suðurlandi og má sjá þar rústir 108 húsa. Við Reyðarfjörð eru rústir spítalakamps sem tók 75 rúm. Þar eru líka grunnar braggabyggðar. Bretar reyndu að reisa göngubrú yfir Ölfusá við Kaldaðarnes. Þetta átti að verða lengsta brú á Íslandi, alls um 800 metra löng, en verkinu lauk aldrei. Áin braut niður brúarstaurana í stórveðri veturinn 1942-43 en brúarsporðana má þó sjá beggja megin árinnar. Bandaríkjamenn reyndu líka að setja sveifluferju yfir Ölfusá við hlið brúarinnar gömlu sem þar var. Steypt voru berghöld beggja vegna árinnar sem standa enn en hætt var við framkvæmdina eftir að þrír hermenn fórust er þeir reyndu að komast yfir ánna. Miklar framkvæmdir kalla á töluverða malartöku til uppfyllingar og vegagerðar. Við Reykjavík var helst sótt í námur úr Rauðhólunum og Öskjuhlíð. Af einstökum verkefnum vó uppfyllingin undir Reykjavíkurflugvöll þyngst. Segja má að Rauðhólarnir hafi ekki borið sitt barr síðan.

Af ummerkjum beinna hernaðarátaka ber fyrst að telja flak olíuskipsins El Grillo. Það var um 7000 lesta olíuskip sem var sökkt af þrem þýskum FW-200 flugvélum 10. janúar 1944 í Seyðisfirði. Þá misstu Þjóðverjar eftirfarandi flugvélar við Ísland: FW-200 var skotin niður norður af Gróttu 14. ágúst 1942, JU-88 grandað við Svínaskarð 18. október 1942, FW-200 skotin niður 24. október 1942 norðan við Norðlingafljót, JU-88 skotin niður 24. apríl 1943 á Strandarheiði, FW-200 skotin niður við Grímsey 5. ágúst 1943 og JU-88 nauðlenti við Leirhöfn 2. maí 1945. Bandamenn misstu þó mun fleiri vélar sjálfir vegna tíðra slysa. Til dæmis fórust að minnsta kosti 43 hervélar auk 11 sjóvéla á Reykjavíkursvæðinu.

Allar flugvélaleifar í nágrenni Reykjavíkur hafa nú verið fjarlægðar. Málmurinn var notaður í brotajárn eftir stríð og sérstaklega var sóst eftir álinu. Til dæmis keyptu Stálhúsgögn hf. 32 Thunderbolt P-47 orrustuvélar 33. flugsveitarinnar fyrir 10.000 krónur við stríðslok og bræddu þær niður í stóla og borð. Flugvélaflök er nú helst að finna í jöklum, svo sem Fairey Battle sprengjuvél í Öxnadalnum og B-17 sprengjuvél á Eyjafjallajökli. Eitt heillegasta þýska flugvélaflakið er aftur á móti HE-111 vél sem rakst á Krossanesfjall við Reyðarfjörð 22. maí 1941. Hún lenti á svo óaðgengilegum stað að ekki reyndist unnt að rífa hana í brotajárn. Að lokum er rétt að nefna að enn eru vélar sem ekki hefur reynst unnt að staðsetja nákvæmlega hérlendis. Til að mynda liggur hluti af Fairey Battle sprengjuvél einhvers staðar í mýrinni við Kaldaðarnesflugvöll.


Ein af 21 Northrop N-3PB-vélum sem flugu hér við land. Þessi fórst er henni hlekktist á í flugtaki í Eyjafirði 24. nóvember 1942. (ljósmynd/Imperial War Museum)

Töluvert er líka um flugvélaflök í sjónum. Flugvélar stríðsaðila sem fóru í sjóinn hafa sumar hverjar verið að koma upp með botnvörpum togaranna. Þær eru flestar á óaðgengilegum stöðum og koma upp í bútum. Hins vegar má finna heillega Northrop N-3PB sjóflugvél í Skerjafirði. Hún er önnur tveggja sem til er í heiminum því einungis 24 voru smíðaðar fyrir norska flotann. Þær voru notaðar af norskri flugsveit sem hafði meðal annars aðsetur í Skerjafirði. Ekki hefur reynst unnt að bera kennsl á flugvélina meðal annars vegna þess að skrám ber ekki saman um hvaða flugvélar gætu hafa sokkið þarna. Lík áhafnarmeðlima geta því enn verið við flugvélina og hún er meðhöndluð sem vot gröf. Flugvélaflakið er friðað og öll köfun við það er bannað. Sömuleiðis stafar hætta af hugsanlegum skotfærum og djúpsprengjum.

Sprengjur eru enn að koma upp úr jörðu á skotæfingasvæðum vegna frostlyftingar og hafa valdið mannskæðum slysum. Skotæfingasvæði voru meðal annars á Sandskeiði, í Mosfellsdal, við Kleifarvatn, Fellabæ fyrir austan, í Eyjafirði og á Blönduósi. Bandaríski landherinn notaði sprengjuæfingasvæði á Reykjanesi á sjötta áratugnum. Leitað hefur verið á aðgengilegustu svæðunum en ókleift er að finna allt. Líklega hafa um 1000 sprengjur fundist bara við Vogastapa. Öryggisbúnaður þessara sprengja er oftast illa farinn og mjög lítið hnjask þarf til að þær springi. Mikið af tundurduflum var á reki í og fyrst eftir stríðið og helsta vörnin gagnvart þeim var að skjóta á þau og sökkva þeim. Núna eru þau svo að koma í veiðarfæri fiskiskipa sem hófu að sækja á nýrri mið með tilkomu fullkomnari botnvarpa. Fyrir 10 árum var þetta mánaðarlegur viðburður en hefur dregist töluvert saman nú orðið. Töluvert af óvirkum djúpsprengjum hefur líka komið í veiðarfæri í Faxaflóa suður af Malarrifi. Sennilegt er að þeim hafi verið varpað frá borði herskipa eða flutningabáta sem ráðnir voru til að sökkva þeim. Að lokum er svo rétt að nefna að sinnepsgassprengjur komu í ljós við sanddælingu við Akranes. Þær bárust með færibandi alla leið inn í Sementsverksmiðju og ollu skaða á fólki inni í verksmiðjunni. Leikur grunur á að hersveitir hafi losað sig við þennan ófögnuð í leyfisleysi. Ekki hafa fundist fleiri sinnepssprengjur en viðvörunum var komið upp ef ske kynni að fleiri sprengjur leyndust þarna.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:
  • Eftirtaldir veittu ómetanlegar upplýsingar og aðstoð við heimildaöflun: Anna Lísa Guðmundsdóttir, Sólborg Una Pálsdóttir og Helga Maureen Gylfadóttir starfsmenn Árbæjarsafns, Friðþór Eydal upplýsingafulltrúi varnarliðsins, Hörður Geirsson rafvirki og flugáhugamaður og Gylfi Geirsson sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslu Íslands. Friðþóri Eydal eru færðar sérstakar þakkir fyrir yfirlestur og gagnlegar athugasemdir.
  • Eggert Þór Bernharðsson: Undir Bárujárnsboga. Braggalíf í Reykjavík 1940-1970, 2. prentun, JPV forlag, Reykjavík 2000.
  • Friðþór Kr. Eydal: „Hernaðarumsvif í Hvalfirði eftir heimsstyrjöldina síðari”, Gagnasafn Morgunblaðið, sunnudaginn 3. janúar, 1999. Vígdrekar og vopnagnýr. Hvalfjörður og hlutur Íslands í orrustunni um Atlantshafið, 2. prentun, Bláskeggur, ótilgreint 1998. Fremsta víglína. Átök og hernaðarumsvif á Austurlandi í heimsstyrjöldinni síðari, Bláskeggur, Rvk 1999.
  • Guðmundur Kristinsson: Styrjaldarárin á Suðurlandi, 2. útgáfa, Árnesútgáfan, Selfossi 2001.
  • Helgi M.Sigurðsson og Yngvi Þór Loftsson: Öskjuhlíð. Náttúra og saga. Árbæjarsafn og Borgarskipulag Reykjavíkur, Reykjavík 1993.
  • Jón Hjaltason: Hernámsárin á Akureyri og Eyjafirði, Bókaútgáfan Hólar, Akureyri 1991.
  • Kristján Geir Pétursson: „Tólf manns fórust hér við land í ellefu vélum”, Gagnasafn Morgunblaðsins, föstudagurinn 30. ágúst 2002, miðopna.
  • Tómas Þór Tómasson: Heimsstyrjaldarárin á Íslandi 1939-1945. Seinna bindi, Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf., Ísland 1984.
  • Þór Whitehead: Ísland í hers höndum, Vaka-Helgafell, Reykjavík 2002.
  • Gagnasafn Morgunblaðsins - myndir:

Höfundur

Skúli Sæland

sagnfræðingur

Útgáfudagur

12.11.2004

Spyrjandi

Þorkell Einarsson

Tilvísun

Skúli Sæland. „Hvar eru mestu stríðsminjar á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 12. nóvember 2004, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4609.

Skúli Sæland. (2004, 12. nóvember). Hvar eru mestu stríðsminjar á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4609

Skúli Sæland. „Hvar eru mestu stríðsminjar á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 12. nóv. 2004. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4609>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvar eru mestu stríðsminjar á Íslandi?
Því er til að svara að minjar stríðs geta verið margs konar. Þær geta verið leifar bygginga, tækja og búnaðar sem tengjast herliði en þær geta líka verið leifar áhrifa hersetuliða á tungumál. Félagsleg samskipti ólíkra menningarheima, samskipti erlendra hermanna og íslensks kvenfólks sem meðal annars leiddi af sér „ástandið” og „ástandsbörnin”, örnefni eftir staðsetningu herliðs, „stríðsgróðinn” sem varð til vegna mikilla verðhækkana á fiskafurðum okkar, „Bretavinnan” sem útvegaði landsmönnum atvinnu hjá setuliðinu við framkvæmdir og svo framvegis. Þessar „óáþreifanlegu” minjar eru því alls staðar umhverfis okkur í samfélaginu.

„Áþreifanlegu” minjarnar, svo sem leifar mannvirkja og búnaðar er hins vegar hægt að staðsetja. Hérlendis er Stríðsárasafnið við Reyðarfjörð eina safnið sem sérhæfir sig í að sýna og varðveita sögu þessa tímabils. Þar má meðal annars finna bragga og fjögur loftvarnarbyrgi. Í þessari grein verður hins vegar reynt að gefa vísbendingu um hvar helstu leifar mannvirkja og hertóla úr síðari heimsstyrjöldinni er að finna. Ummerki varnarliðs Bandaríkjahers frá kalda stríðinu bíða betri tíma.

Bretar hernámu landið 10. maí árið 1940 og sendu hingað fjölmennt setulið síðsumars 1941, um 28.000 manns. Bandaríkjamenn hófu að leysa þá af hólmi í júlí 1941 og var hér tæplega 40.000 manna varnarlið frá þeim þegar mest lét. Þar að auki voru liðsmenn bandaríska og breska flotans og flughersins alls nærri 50.000 sumarið 1943. Til samanburðar má nefna að við manntal árið 1940 voru íbúar Reykjavíkur einungis um 38.000. Þó svo að Bandaríkjaher leysti þann breska af hólmi árið 1941 voru hér breskir hermenn út allt stríðið og allt til ársins 1947.

Herinn kom fljótlega upp varnarstöðvum víða um land. Bretar töldu Reykjavík vera langmikilvægasta staðinn sökum góðrar hafnar- og flugvallarskilyrða og því var fjölmennt lið ávallt þar. Norðurland fékk það sem kalla má miðlungi öflugar varnir en Austfirðir fengu sístar varnir, aðallega vegna þess hve afskekktir þeir voru. Þegar Bandaríkjamenn leystu Breta af hólmi þá fylgdu þeim breyttar áherslur við varnarviðbúnað. Stafaði það meðal annars af aukinni baráttu gagnvart kafbátaógn Þjóðverja auk þess sem hættan á innrás þeirra var talin hverfandi. Bandaríkjamenn lögðu enn meiri áherslu á varnir Reykjavíkursvæðisins en Bretar og höfðu allt að 80% liðsaflans á suðvesturhorninu. Uppbygging flugvallarins í Keflavík hafði þó eitthvað þar að segja. Í heild námu hernumin svæði hérlendis ríflega 19.000 hekturum og þar af voru byggingar hersins á nærri 5.000 hekturum. Allur aðbúnaður hersveita Bandaríkjamanna var þó allt annar og betri en Breta auk þess sem þeir fluttu hingað með sér mikið magn stórvirkra vinnuvéla. Báðir reistu umfangsmiklar herbúðir víða um land. Alls risu um 6000 breskir braggar, hundruð annarra bygginga eins og eldhús og baðhús. Síðar bættust við um 1500 bandarískir braggar. Bretar byggðu aðallega svokallaða Nissen-bragga en Bandaríkjamenn Quonset-bragga. Má segja að meginmunur þessara tegunda hafi verið vandaðri smíð þeirra síðarnefndu.


Hér má sjá heillegustu braggabyggð landsins. Hana má finna á Miðsandi við Hvalfjörð og er í eigu og umsjón Hvals hf.

Vorið 1944 var skipuð með lögum Nefnd setuliðsviðskipta til að semja við stjórn setuliðsins um kaup á öllum þeim varningi sem það vildi selja. Ári síðar var Sölunefnd setuliðseigna skipuð til að sjá um sölu hermannaskála, bæta úr landspjöllum af völdum setuliðsins og greiða landeigendum skaðabætur. Nefndirnar luku störfum árið 1947 og 1948. Bæjar- og sveitarfélög fengu forkaupsrétt á fasteignum í þeirra umdæmum og gátu hagnast vel á viðskiptunum. Auk þess leystu braggarnir brýnan húsnæðisvanda, sérstaklega í Reykjavík. Til dæmis hagnaðist Akureyrarbær um nærri 300 þúsund krónur þegar hann áframseldi herskála á bæjarlandinu. Við árslok 1944 bjuggu rúmlega 900 manns í bröggum í Reykjavík. Búsetan náði hámarki á sjötta áratugnum en þá bjuggu 2300 manns í nærri 550 íbúðum. Á 7. áratugnum var skálunum hins vegar að mestu útrýmt. Á landsbyggðinni voru flestir braggarnir rifnir og seldir bændum og risu þeir víða sem geymslur og fjárhús sem má enn þá sjá í fullri notkun. Enn er jafnvel búið í íbúðarhúsum sem reist voru úr braggaefni. Greiðslur Sölunefndarinnar voru meðal annars ætlaðar til að gera landeigendum kleift að útmá ummerki um veru herliðsins. En mörgum landeigendanna, sem þágu skaðbætur fyrir landspjöll, láðist að hreinsa til eftir veru setuliðsins. því má segja að viðkomandi aðilar hafi með þessu bjargað mörgum menningarverðmætum frá glötun og vonandi að þau verði varðveitt sem flest um ókomin ár.

Af einstökum byggingum hérlendis er flugturninn við Reykjavíkurflugvöll sennilega merkastur en því miður stendur til að rífa hann. Af stærri svæðum eru helst Öskjuhlíðin og Brautarholt á Kjalarnesi sem gefa heillega mynd af varnarviðbúnaði bandamanna hérlendis. Hvalfjörður, Reykjavíkurflugvöllur og Patterson-flugvöllur á svæði varnarliðsins við Keflavík hafa sömuleiðis að geyma merkar minjar um síðari heimsstyrjöldina.

Í borgarlandinu hafa stríðsminjar helst varðveist í Öskjuhlíð og á Reykjavíkurflugvelli sem nær yfir Vatns- og Seljamýri. Af varnarviðbúnaðinum á Öskjuhlíðinni eru meðal annars steypt skotbyrgi, stjórnbyrgi, víggrafir úr torfi og grjóti, loftvarnarbyrgi, varnarveggir fyrir eldsneytistanka, neðanjarðarvatnstankar, bryggjustubbur, veganet, fjöldi gólfa og grunna undan bröggum og öðrum byggingum og akstursbrautir fyrir flugvélar. Nokkrir braggar eru við rætur Öskjuhlíðar. Hluti gistibúða farþega og flugáhafna breska flughersins (e. Transit Camp) má enn sjá í Nauthólsvík. Öll stóru flugskýlin fjögur á Reykjavíkurflugvelli eru frá stríðsárunum og sömuleiðis gamli flugturninn. Allar meginbrautir flugvallarins voru lagðar á stríðsárunum en hafa verið lengdar og endurbættar eftir stríð. Nær allt lauslegt frá stríðsárunum hefur verið fjarlægt eða ryðgað og fúnað. Þar á meðal gaddavírsgirðingar og sandpokavígi.

Bandaríkjamenn reistu mikla eldsneytisbirgðastöð í landi Miðsands og Litlasands við Hvalfjörð norðanverðan auk birgðastöðvar vegna skipaviðgerða. Bæði skip og olíuskip tóku þar olíu og þau síðarnefndu birgðu svo upp önnur skip í flotadeildum á hafi úti. Upphaflegt skálahverfi olíustöðvarinnar stendur enn að hluta á Miðsandi og er með heillegustu minjum styrjaldarinnar á landinu. Þar má sjá einstætt safn þeirra mismunandi braggategunda sem herlið bandamanna reisti yfir starfsemi sína. Þeim hefur verið vel við haldið enda í fullri notkun fram á síðari ár því olíubirgðastöðin var nýtt áfram fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli og ný reist fyrir herskip NATO. Í Hvítanesi eru leifar flotastöðvar Breta og vegna mikilla umsvifa bæði Breta og Bandaríkjamanna í Hvalfirði má finna ýmsar minjar um veru þeirra víðs vegar við fjörðinn.


Enn má finna flugbrautir á gamla Patterson-flugvellinum við Keflavík.

Patterson- og Meeks-flugvellirnir sem lagðir voru í Keflavík árin 1942 og 1943 mynduðu Keflavíkurflugstöðina sem var meðal þeirra stærstu í heimi enda var vallargerðin dýrasta herframkvæmd hérlendis. Þar er meðal annars stóra flugskýlið af Kaldaðarnesflugvelli sem var rifið í ágúst 1943 og sett upp við vestanverðan Keflavíkurflugvöll. Það hýsir nú tækjabúnað til snjó og hálkuvarna. Minna flugskýlið var rifið sumarið 1944 og sett upp við Reykjavíkurflugvöll.

Af öðrum stríðsminjum má nefna að minjar um ratsjárstöðvar og kampa eru meðal annars uppi á hnjúknum Darra í Aðalvík á Vestfjörðum. Einnig á Hraunhóli á Reynisfjalli í Vík, Siglunesi, Skálum Laugarnesi, Vattarnesi við Reyðarfjörð, Þorbjarnarfell við Grindavík og Hafnartanga í Stokksnesi. Við árslok 1943 tók til starfa Lóran-miðunarstöð á Reynisfjalli byggð af Bretum. Íslendingar tóku við rekstri stöðvarinnar um áramótin 1946-47 og ráku hana í 30 ár. Leifar vatnstanka, herspítala og flugvallar eru í Kaldaðarnesi við Selfoss og leifar skotbyrgja og skotstöðva má einnig sjá við Vífilsstaði, Nónhæð og á Seltjarnarnesi. Af rústum einstakra kampa má nefna Camp Cameron sem Bretar reistu vorið 1941 við Hurðarásvötn í Seldal nærri Núpafjalli. Við Djúpárbakka í Eyjafirði er lítill kampur sem er að mörgu leyti sérstakur því í honum er upprunalegt gólf ásamt ýmislegu lauslegu. Herbúðirnar í Camp Duncan voru reistar af Bandaríkjamönnum árið 1942 við Hestaþingshól við Kaldaðarnes. Kampurinn var langstærsti kampur Bandaríkjamanna á Suðurlandi og má sjá þar rústir 108 húsa. Við Reyðarfjörð eru rústir spítalakamps sem tók 75 rúm. Þar eru líka grunnar braggabyggðar. Bretar reyndu að reisa göngubrú yfir Ölfusá við Kaldaðarnes. Þetta átti að verða lengsta brú á Íslandi, alls um 800 metra löng, en verkinu lauk aldrei. Áin braut niður brúarstaurana í stórveðri veturinn 1942-43 en brúarsporðana má þó sjá beggja megin árinnar. Bandaríkjamenn reyndu líka að setja sveifluferju yfir Ölfusá við hlið brúarinnar gömlu sem þar var. Steypt voru berghöld beggja vegna árinnar sem standa enn en hætt var við framkvæmdina eftir að þrír hermenn fórust er þeir reyndu að komast yfir ánna. Miklar framkvæmdir kalla á töluverða malartöku til uppfyllingar og vegagerðar. Við Reykjavík var helst sótt í námur úr Rauðhólunum og Öskjuhlíð. Af einstökum verkefnum vó uppfyllingin undir Reykjavíkurflugvöll þyngst. Segja má að Rauðhólarnir hafi ekki borið sitt barr síðan.

Af ummerkjum beinna hernaðarátaka ber fyrst að telja flak olíuskipsins El Grillo. Það var um 7000 lesta olíuskip sem var sökkt af þrem þýskum FW-200 flugvélum 10. janúar 1944 í Seyðisfirði. Þá misstu Þjóðverjar eftirfarandi flugvélar við Ísland: FW-200 var skotin niður norður af Gróttu 14. ágúst 1942, JU-88 grandað við Svínaskarð 18. október 1942, FW-200 skotin niður 24. október 1942 norðan við Norðlingafljót, JU-88 skotin niður 24. apríl 1943 á Strandarheiði, FW-200 skotin niður við Grímsey 5. ágúst 1943 og JU-88 nauðlenti við Leirhöfn 2. maí 1945. Bandamenn misstu þó mun fleiri vélar sjálfir vegna tíðra slysa. Til dæmis fórust að minnsta kosti 43 hervélar auk 11 sjóvéla á Reykjavíkursvæðinu.

Allar flugvélaleifar í nágrenni Reykjavíkur hafa nú verið fjarlægðar. Málmurinn var notaður í brotajárn eftir stríð og sérstaklega var sóst eftir álinu. Til dæmis keyptu Stálhúsgögn hf. 32 Thunderbolt P-47 orrustuvélar 33. flugsveitarinnar fyrir 10.000 krónur við stríðslok og bræddu þær niður í stóla og borð. Flugvélaflök er nú helst að finna í jöklum, svo sem Fairey Battle sprengjuvél í Öxnadalnum og B-17 sprengjuvél á Eyjafjallajökli. Eitt heillegasta þýska flugvélaflakið er aftur á móti HE-111 vél sem rakst á Krossanesfjall við Reyðarfjörð 22. maí 1941. Hún lenti á svo óaðgengilegum stað að ekki reyndist unnt að rífa hana í brotajárn. Að lokum er rétt að nefna að enn eru vélar sem ekki hefur reynst unnt að staðsetja nákvæmlega hérlendis. Til að mynda liggur hluti af Fairey Battle sprengjuvél einhvers staðar í mýrinni við Kaldaðarnesflugvöll.


Ein af 21 Northrop N-3PB-vélum sem flugu hér við land. Þessi fórst er henni hlekktist á í flugtaki í Eyjafirði 24. nóvember 1942. (ljósmynd/Imperial War Museum)

Töluvert er líka um flugvélaflök í sjónum. Flugvélar stríðsaðila sem fóru í sjóinn hafa sumar hverjar verið að koma upp með botnvörpum togaranna. Þær eru flestar á óaðgengilegum stöðum og koma upp í bútum. Hins vegar má finna heillega Northrop N-3PB sjóflugvél í Skerjafirði. Hún er önnur tveggja sem til er í heiminum því einungis 24 voru smíðaðar fyrir norska flotann. Þær voru notaðar af norskri flugsveit sem hafði meðal annars aðsetur í Skerjafirði. Ekki hefur reynst unnt að bera kennsl á flugvélina meðal annars vegna þess að skrám ber ekki saman um hvaða flugvélar gætu hafa sokkið þarna. Lík áhafnarmeðlima geta því enn verið við flugvélina og hún er meðhöndluð sem vot gröf. Flugvélaflakið er friðað og öll köfun við það er bannað. Sömuleiðis stafar hætta af hugsanlegum skotfærum og djúpsprengjum.

Sprengjur eru enn að koma upp úr jörðu á skotæfingasvæðum vegna frostlyftingar og hafa valdið mannskæðum slysum. Skotæfingasvæði voru meðal annars á Sandskeiði, í Mosfellsdal, við Kleifarvatn, Fellabæ fyrir austan, í Eyjafirði og á Blönduósi. Bandaríski landherinn notaði sprengjuæfingasvæði á Reykjanesi á sjötta áratugnum. Leitað hefur verið á aðgengilegustu svæðunum en ókleift er að finna allt. Líklega hafa um 1000 sprengjur fundist bara við Vogastapa. Öryggisbúnaður þessara sprengja er oftast illa farinn og mjög lítið hnjask þarf til að þær springi. Mikið af tundurduflum var á reki í og fyrst eftir stríðið og helsta vörnin gagnvart þeim var að skjóta á þau og sökkva þeim. Núna eru þau svo að koma í veiðarfæri fiskiskipa sem hófu að sækja á nýrri mið með tilkomu fullkomnari botnvarpa. Fyrir 10 árum var þetta mánaðarlegur viðburður en hefur dregist töluvert saman nú orðið. Töluvert af óvirkum djúpsprengjum hefur líka komið í veiðarfæri í Faxaflóa suður af Malarrifi. Sennilegt er að þeim hafi verið varpað frá borði herskipa eða flutningabáta sem ráðnir voru til að sökkva þeim. Að lokum er svo rétt að nefna að sinnepsgassprengjur komu í ljós við sanddælingu við Akranes. Þær bárust með færibandi alla leið inn í Sementsverksmiðju og ollu skaða á fólki inni í verksmiðjunni. Leikur grunur á að hersveitir hafi losað sig við þennan ófögnuð í leyfisleysi. Ekki hafa fundist fleiri sinnepssprengjur en viðvörunum var komið upp ef ske kynni að fleiri sprengjur leyndust þarna.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:
  • Eftirtaldir veittu ómetanlegar upplýsingar og aðstoð við heimildaöflun: Anna Lísa Guðmundsdóttir, Sólborg Una Pálsdóttir og Helga Maureen Gylfadóttir starfsmenn Árbæjarsafns, Friðþór Eydal upplýsingafulltrúi varnarliðsins, Hörður Geirsson rafvirki og flugáhugamaður og Gylfi Geirsson sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslu Íslands. Friðþóri Eydal eru færðar sérstakar þakkir fyrir yfirlestur og gagnlegar athugasemdir.
  • Eggert Þór Bernharðsson: Undir Bárujárnsboga. Braggalíf í Reykjavík 1940-1970, 2. prentun, JPV forlag, Reykjavík 2000.
  • Friðþór Kr. Eydal: „Hernaðarumsvif í Hvalfirði eftir heimsstyrjöldina síðari”, Gagnasafn Morgunblaðið, sunnudaginn 3. janúar, 1999. Vígdrekar og vopnagnýr. Hvalfjörður og hlutur Íslands í orrustunni um Atlantshafið, 2. prentun, Bláskeggur, ótilgreint 1998. Fremsta víglína. Átök og hernaðarumsvif á Austurlandi í heimsstyrjöldinni síðari, Bláskeggur, Rvk 1999.
  • Guðmundur Kristinsson: Styrjaldarárin á Suðurlandi, 2. útgáfa, Árnesútgáfan, Selfossi 2001.
  • Helgi M.Sigurðsson og Yngvi Þór Loftsson: Öskjuhlíð. Náttúra og saga. Árbæjarsafn og Borgarskipulag Reykjavíkur, Reykjavík 1993.
  • Jón Hjaltason: Hernámsárin á Akureyri og Eyjafirði, Bókaútgáfan Hólar, Akureyri 1991.
  • Kristján Geir Pétursson: „Tólf manns fórust hér við land í ellefu vélum”, Gagnasafn Morgunblaðsins, föstudagurinn 30. ágúst 2002, miðopna.
  • Tómas Þór Tómasson: Heimsstyrjaldarárin á Íslandi 1939-1945. Seinna bindi, Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf., Ísland 1984.
  • Þór Whitehead: Ísland í hers höndum, Vaka-Helgafell, Reykjavík 2002.
  • Gagnasafn Morgunblaðsins - myndir:
...