Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Bretar hernámu Ísland 10. maí árið 1940. Fjögur herskip lögðust að bryggju í Reykjavík snemma morguns og innan skamms var bærinn fullar af hermönnum. Margir bæjarbúar höfðu vaknað um nóttina vegna flugvéladyns en menn áttu því ekki að venjast á þessum tíma. Grunur vaknaði þegar um hvað væri í aðsigi. Óvissan snerist fyrst og fremst um hvor væri á ferðinni - Bretar eða Þjóðverjar.
Stríðsótti hafði farið vaxandi í Evrópu eftir valdatöku nasista í Þýskalandi í ársbyrjun 1933. Þjóðverjar tóku að hervæðast og gerðust sífellt herskárri eftir því sem leið á fjórða áratuginn. Um leið jókst áhugi þeirra á Íslandi. Viðskipti landanna jukust mjög og þýskir vísindamenn fóru að venja komur sínar til landsins. Einnig tók að bera á þýskum herskipum á Íslandsmiðum en Þjóðverjar stunduðu talsverðar veiðar við landið. Tilburðir Þjóðverjar mættu víða tortryggni og grunaði marga að þeir stunduðu njósnir hérlendis. Bretum stóð ekki á sama enda töldu þeir hagsmunum sínum ógnað ef Þjóðverjar kæmust hér til áhrifa. Ísland hafði lengi verið á bresku áhrifasvæði og ófriðarhorfurnar juku mikilvægi landsins.
Haustið 1936 skipuðu Bretar ræðismann á Íslandi og fékk hann skömmu seinna fyrirmæli um að fylgjast með umsvifum Þjóðverja hérlendis. Það var þó ekki fyrr en ljóst varð að stríð væri óumflýjanlegt að áhyggjur Breta jukust verulega. Ósk Þjóðverja um lendingarleyfi á Íslandi vorið 1939 vakti ugg hjá Bretum. Þjóðverjar héldu því fram að þeir vildu eiga vísan viðkomustað hérlendis á leið sinni til Ameríku en íslenskum stjórnvöldum leist ekki á blikuna og neituðu beiðninni. Vakti afstaða Íslendinga mikla athygli víða um heim. Bretar voru þó mjög á varðbergi og sendu þeir mann til landsins til að kynna sér stöðu mála.
Ósk Þjóðverja um lendingarleyfi á Íslandi vakti litla kátínu hjá Bretum.
Atburðarásin varð hraðari eftir því sem stríðsátök færðust nær. Heimsókn þýskra kafbáta til Reykjavíkur í júlí 1939 ógnaði ímynd Breta sem herrum hafsins. Bretar lögðu mikið upp úr yfirráðum sínum á Atlantshafi enda voru samgöngur á sjó lífæð þeirra. Þegar stríð braust út við innrás Þjóðverja í Pólland 1. september 1939 urðu sjóflutningar mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Bretum barst margvíslegur varningur, sem þeir gátu ekki verið án, frá fjarlægum heimshornum en innflutningur frá Bandaríkjunum skipti þar mestu máli. Talið er að um 3000 skip hafi þurft að sigla daglega til og frá Bretlandi til að uppfylla þarfir þjóðarinnar.
Veturinn 1939-1940 fór fram harðvítug barátta á höfunum. Þjóðverjar lögðu áherslu á að einangra Breta með því að skera á aðflutningsleiðir þeirra en þar sem breski flotinn var mun öflugri notuðust Þjóðverjar fyrst og fremst við kafbáta. Mun 460 kaupskipum bandamanna hafa verið sökkt þennan fyrsta vetur stríðsins.
Werner Gerlach (1891-1963).
Veðurfréttir skipta miklu máli í stríði og kvörtuðu Bretar yfir því að Þjóðverjum bærust fréttir af veðri frá Íslandi. Þeir héldu því enn fremur fram að Þjóðverjar fengju fréttir af skipaferðum héðan. Um svipað leyti urðu starfsmenn lofstskeytastöðvarinnar í Reykjavík varir við morssendingar frá óþekktri sendistöð í bænum. Böndin bárust brátt að ræðismanna Þjóðverja, Werner Gerlach, en mörgum þóttu athafnir hans hérlendis dularfullar. Gerlach þverneitaði að standa fyrir sendingunum en þeim lauk eftir að hann hafði verið krafinn svara. Þessir atburðir áttu sér stað haustið 1939 en þess má geta að hætt var að útvarpa veðurfregnum í apríl 1940 að ósk Breta.
Nokkur umræða átti sér stað innan breska flotamálaráðuneytisins haustið 1939 að Bretar þyrftu að koma sér upp aðstöðu á Íslandi. Þær hugmyndir fengu aukið vægi í nóvember það ár þegar Bretar höfðu njósnir af hugsanlegum áformum Þjóðverja um að hernema Danmörku. Þá urðu skipaskaðar bandamanna veturinn 1939-1940 til þess að yfirvöld töldu sífellt mikilvægara að koma upp aðstöðu fyrir flugher og flota á Íslandi. Bretar voru hins vegar ekki tilbúnir til að hernema landið en þess var skammt að bíða að þeir tækju að þrýsta á íslensk stjórnvöld um leyfi til að koma upp aðstöðu fyrir herinn hérlendis.
Aðstæður breyttust til muna eftir að Þjóðverjar réðust inn í Danmörku og Noreg 9. apríl árið 1940. Hernaðarstaða Þjóðverja á Atlantshafi stórbættist enda voru Bretar fljótir að bregðast við. Sama dag barst íslenskum stjórnvöldum orðsending frá Bretum þar sem fram kom að staða Íslands væri mjög ískyggileg. Sögðust þeir ákveðnir í að koma í veg fyrir að Þjóðverjar kæmust hér til valda og óskuðu þeir eftir „vissum tilslökunum“ hjá Íslendingum.
Íslensk stjórnvöld voru hins vegar ekki tilbúin til að varpa hlutleysisstefnunni fyrir róða. Þegar Ísland varð fullvalda árið 1918 var gefin út yfirlýsing um „ævarandi hlutleysi“ enda væri þjóðin vopnlaus og öryggi hennar best tryggt með því að standa utan hernaðarátaka. Íslenskir ráðamenn vonuðu einnig að fjarlægð landsins frá meginlandinu og sú staðreynd að það væri á bresku áhrifasvæði yrði þjóðinni nægjanleg vörn.
Bretar höfðu hins vegar fulla ástæðu til að hafa áhyggjur af eigin stöðu. Þeir óttuðust að Þjóðverjar legðu leið sína næst til Íslands og kæmu þar upp aðstöðu fyrir flugvélar og kafbáta. Slíkt yrði reiðarslag fyrir Breta enda væri þá mjög að þeim þrengt auk þess sem siglingaleiðin til Bandaríkjanna yrði hættulegri en nokkru sinni. Bretar töldu sig hins vegar þurfa að koma upp aðstöðu á Íslandi til að styrkja eigin stöðu á höfunum. Þeir gætu þar með veitt skipum bandamanna betri vernd og átt auðveldara með að einangra Þjóðverja en Bretar höfðu sett á þá hafnbann til að koma í veg fyrir að þeim bærust vistir.
Bretar höfðu töluverðar áhyggjur af því sem þeir kölluðu „þýsku nýlenduna“ á Íslandi. Þeir höfðu upplýsingar um dvöl 205 Þjóðverja í landinu, auk níu starfsmanna ræðismannsembættisins, en langflestir þeirra dvöldu í Reykjavík. Einkum þótti 62 manna hópur þýskra skipbrotsmanna grunsamlegur en þeim hafði verið bjargað úr sökkvandi skipi í ársbyrjun 1940. Voru sögur um að þarna væri 5. herdeildin á ferð sem ætti að skapa glundroða um leið og þýskur her nálgaðist landið. Seinna átti eftir að koma í ljós að sá ótti virðist hafa verið með öllu ástæðulaus. Það var hins vegar auðvelt að sjá fyrir sér að vopnum hefði verið smyglað til landsins og að Þjóðverjarnir væru tilbúnir til átaka þegar kallið kæmi. Íslensk yfirvöld voru ekki síður áhyggjufull og var vopnað lögreglulið sett í viðbragðsstöðu.
Þann 28. apríl afréð flotamálaráðherra Breta, Winston Churchill, að áætlun skyldi gerð um að koma upp aðstöðu fyrir flugvélar og flota á Íslandi. Eftir að ljóst varð að íslensk stjórnvöld voru ekki reiðubúin til samvinnu ákváðu Bretar að velja þann kost að hernema landið. Þeim líkaði sú ráðgerð verr enda óttuðust þeir að hernám Íslands yrði litið sömu augum og innrás Þjóðverja í Danmörku og Noreg. Þeir litu hins vegar svo á að tryggja yrði óskoruð bresk yfirráð á Íslandi og því hernámu þeir landið 10. maí 1940.
Hernám Breta féll í skuggann fyrir stærri atburðum sem áttu sér stað á meginlandinu. Þýskur her streymdi sama dag yfir landamæri Hollands, Belgíu og Frakklands. Þjóðverjar höfðu það sem eftir lifði stríðsins öðru að sinna en að senda her til Íslands. Þeir veltu þeim möguleika að vísu fyrir sér en komust að þeirri niðurstöðu að þýski flotinn væri ekki nógu öflugur. Heimildir eru um að Hitler hafi lagt til að landið yrði hernumið en þýski herinn hafi talið honum hughvarf. Áætlun sem samin var um að hrifsa landið af Bretum fékk dulnefnið Ikarus en þar kom fram að Ísland væri of fjarlægt, flotinn of veikur og aðflutningar erfiðir.
Frekari fróðleikur á Vísindavefnum: