Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Flestir fræðimenn eru sammála um það að ekkert samband virðist vera á milli stærðar heila og greindar hjá tegundum. Búrhvalur syndir um með þyngsta heila sem þekkist hjá núlifandi dýri eða um 7,6 kg og heili asíska fílsins er um 7,5 kg, sá þyngsti í landdýri, heili afríska fílsins er um 5,4 kg. Meðalþyngd mannsheila er aftur móti aðeins um 1,5 kg.
Búrhvalurinn (Physeter macrocephalus) syndir um með stærsta heilann á jörðinni.
Menn hafa því notað aðrar aðferðir til að bera saman andlega hæfileika tegunda. Ein aðferð felst í því að reikna út hlutfallslega þyngd heilans miðað við heildarlíkamsþyngd. Með slíkri aðferð fáum við þessar niðurstöður:
Músin hefur hlutfallslega þyngri heila en maðurinn.
Miðað við efstu tegundirnar virðist aðferðin vera raunhæf leið til að bera saman greind sem hlutfall þyngdar heilans af heildarþyngd. En músin skekkir myndina allverulega og aðferðin fellur um sjálfa sig, með fullri virðingu fyrir músinni. Hlutur heilans af heildarlíkamsþyngd músarinnar er 3,33% en 2,10% hjá manninum og 0,94% hjá stökklinum. Þessi hlutfallsröð virðist ganga í berhögg við hugmyndir okkar um greind dýra um þessar mundir.
Nýjasta leiðin í fræðunum er að bera saman rúmmál svonefnds nýbarkar (e. neocortex) í spendýrum, en rúmmál hans eykst eftir fjölda taugafrumna og flóknari taugatengslum. Bandaríski taugalífeðlisfræðingurinn Harry J. Jerison vann að kenningu um þessa rannsóknaraðferð seint á 8. áratug síðustu aldar. Rúmmál nýbarkar í dæmigerðum höfrungi er 80% af rúmmáli nýbarkar í manneskju. Einnig hefur komið fram að nýbörkur hvala (Cetacea) er mun einfaldari að byggingu en hjá landspendýrum.
Staðreyndin er sú að ekki ríkir sátt um það hvernig beri að skilgreina hugtakið greind meðal manna og tilraunir til að mæla hana með greindarprófum hafa verið gagnrýndar. Því er ómögulegt skilgreina að einhverju marki og raða í stigveldi greind mismunandi dýrategunda.
Við vitum að sum dýr nota ýmsa hluti til að leysa hin ólíkustu verkefni, sum nota tjáskipti sem líkja mætti við frumstæð tungumál svo dæmi séu tekin. Að finna út sameiginlegan mælikvarða á greind (greindarvísitölu) fyrir öll „æðri“ dýr er því ómögulegt. Staðreyndin er sú að greind er afar háð því verki sem leysa á, eins og þekkist hjá okkur mannfólkinu.
Asískur fíll (Elephas maximus) sem væntanlega gleymir fáu enda með stærsta heila landdýra.
Nokkur spendýr, svo sem höfrungar og hundar, hafa verið þjálfuð til að leysa ákveðin verkefni betur en mannskepnan ræður við og sagt er að fílar gleymi engu. Til er staðfest dæmi um að tígrisdýr sem réðst á menn, hafi dulist á flótta fyrir vopnuðum hersveitum í sex mánuði á litlu svæði. Tígrisdýrið lék á veiðimennina, blekkti þá og forðaðist að skilja eftir sig spor sem hægt var að rekja. Hvernig vitum við hvað fram fer í huga dýra? Hver getur neitað því að hvalir séu gáfaðir? Útsjónarsemi hrafna kemur mönnum alltaf jafn mikið á óvart. Rannsóknir hafa staðfest hæfni þeirra til að glíma við ýmsar þrautir, svo sem að leysa hnúta og nota verkfæri sér til hjálpar, en áður var talið að það væri aðeins á færi prímata.
Ef við leggjum manninn sem mælistiku á greind, er ljóst að þær dýrategundir sem standa okkur næst eru prímatar af ættkvíslinni Pan, það er að segja simpansar og bonobo-apar. Ein almerkasta tilraunin til að meta gáfnafar prímata var framkvæmd á þremur bonobo-öpum (Pan paniscus), þeim Kanzi, Panzee og Panbanisha við Yerkes Field-rannsóknastöðina í Bandaríkjunum.
Kanzi stillir sér upp fyrir framan myndavélina.
Niðurstöður þessarar rannsóknar sýndu að umræddir apar gátu tengd töluð orð við myndir og að mati vísindamannanna sannaði það að þeir skyldu merkingarlega hvað umrædd orð þýddu. Eitt mjög merkilegt kom fram. Þeir Panzee og Panbanisha höfðu gengið í gegnum talsverða þjálfun til að ná fram þessum hæfileika en Kanzi sem var sonur annarra tilraunastofuapa og mun yngri en hinir tveir, fékk enga slíka þjálfun heldur hóf upp á eigin spýtur að tengja saman töluð orð við myndir og án þess að fá umbun fyrir eins og tíðkast oft í slíkum dýratilraunum. Vísindamennirnir við rannsóknastofuna hafa síðan þjálfað og aukið orðaforða Kanzi til muna.
Kanzi með táknaborð.
Skilningur Kanzi á orðum og hugtökum hefur verið kannaður gaumgæfilega. Tilraunirnar fóru þannig fram að heyrnartól var sett á höfuð apans og orð spiluð fyrir hann. Kanzi benti síðan á mynd af hlutnum eða hlutinn sjálfan. Enginn einstaklingur utan tegundarinnar Homo sapiens hefur sýnt fram á skilning á töluðu máli nema þessir þrír apar sem hafa verið nefndir hér að ofan og er orðaforði Kanzi sínu mestur eða nokkur hundruð orð.
Önnur merkileg rannsókn var gerð á hettuöpum (Cebus capuchinus) sem lifa í mjög þróuðum samfélögum í fjallaskóglendi Mið-Ameríku. Þar var hulunni ekki létt af námshæfileikum og skilningi, heldur tilfinningunni fyrir sanngirni sem menn hafa lengst af talið að aðeins væri að finna meðal manna. Rannsóknin fór þannig fram að tvær apynjur í apaflokkinum fengu sína steinvöluna hvor úr hendi rannsóknarmanns. Þegar þær skiluðu steinvölunum fengu þær í skiptum gúrkusneið. Samkvæmt niðurstöðum rannsakandans skiluðu þær steinvölunum í 95% tilvika.
Hettuapi (Cebus capuchinus).
Síðan var athugað hvað gerðist ef önnur apynjan fengi vínber í staðinn fyrir gúrku. Þá lækkaði skilatíðnin niður í 60% þar sem hin apynjan ýmist neitaði að taka við gúrkunni, tók hana og fleygði til baka eða gaf hana öðrum apa.
Því næst ákváðu rannsakendurnir að gefa annarri apynjunni vínber án þess að hún þyrfti að gera nokkurn skapaðan hlut. Lækkaði þá skilatíðnin niður í 20% þegar hin apynjan tók eftir því hversu litla umbun hún fékk samanborið við hina sem. Í langflestum tilvikum hætti hún alveg að skila steinvölunni.
Vísindamennirnir túlkuðu þetta þannig að þegar annarri apynjunni var hyglað, varð hin afar ósátt. Þetta er fyrsta rannsóknin, að mati þeirra sem hana framkvæmdu, sem sýnir fram á að aðrir prímatar en menn hafi tilfinningu fyrir sanngirni og búi jafnvel yfir öðrum tilfinningum eins og vorkunnsemi og samhygð. Ef til vill eiga rannsóknir 21. aldar eftir að skera betur úr um það.
Í raun eru rannsóknir á greind dýra á bernskuskeiði og án efa eiga niðurstöður á þessu sviði eftir að koma okkur verulega á óvart á komandi árum.
Þetta svar er meðal annars byggt á nokkrum af neðannefndum ritum og þeim sem vilja fræðast meira um greind og aðra andlega hæfileika dýra, annarra en manna, er bent á að kynna sér þau:
Budiansky, Stephen. 1998. If a lion could talk: Animal intelligence and the evolution of consciousness. New York: Free Press.
Griffin, Donald R. 1985. Animal thinking. Cambridge, MA: Harvard University Press.
Griffin, Donald R. 1985. Animal minds. Cambridge, MA: Harvard University Press.
Milani, Myrna. 1993. The body language and emotions of cats. New York: Quill.
Page, George. 1999. Inside the animal mind: A groundbreaking exploration of animal intelligence. New York: Doubleday.
Rogers, Lesley. 1998. Minds of their own: Thinking and awareness in animals. New York: Westview.
Savage-Rumbaugh, E. Sue. 1998. Kanzi: The ape at the brink of the human mind. Cambridge: Oxford University Press.
„Apynjur krefjast réttlætis.“ Frétt Morgunblaðsins, 19. September 2003.
Í svarinu er að finna hlekki á nokkur svör á Vísindavefnum. Lesendur eru hvattir til að nýta sér leitarvélina til að fræðast meira um efnið eða smella á efnisorðin neðan við svarið.
Jón Már Halldórsson. „Hvert er vitrasta dýr í heimi, fyrir utan manninn?“ Vísindavefurinn, 1. október 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3769.
Jón Már Halldórsson. (2003, 1. október). Hvert er vitrasta dýr í heimi, fyrir utan manninn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3769
Jón Már Halldórsson. „Hvert er vitrasta dýr í heimi, fyrir utan manninn?“ Vísindavefurinn. 1. okt. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3769>.