Er hvalategundin stökkull ekki lengur til við Ísland? Ég hef heyrt að hann hafi elt uppi litla báta og ráðist á þá.Stökkullinn (Tursiops truncatus, e. bottlenose dolphin) er ein algengasta tegundin af ætt höfrunga (Delphinidae) hér við land. Náttúruleg heimkynni hans eru í hitabeltissjó og á tempruðum svæðum og því er hafsvæðið suður af Íslandi á nyðri útbreiðslumörkum tegundarinnar. Ekkert gefur til kynna í rannsóknum Hafrannsóknastofnunnar að tegundinni sé að fækka hér við land. Stökull sést yfirleitt í öllum hvalatalningaleiðöngrum stofnunarinnar. Nákvæm stofnstærðarvöktun á tegundinni fer þó ekki fram hjá Hafrannsóknastofnun.
Stökkulskýr með kálf.
Sögusagnir um að stökklar elti uppi báta og ráðist á þá, verða að teljast mjög vafasamar. Sjómenn kannast ekki við slíkt háttarlag. Stökklar, líkt og nokkrar aðrar tegundir höfrunga, eiga það til að elta skip og báta eins og við sjáum oft í dýralífsmyndum og hefur það gert þá vinsæla og fræga. Vera má að einhvern tímann hafi stökkull verið að synda á eftir bát og fyrir slysni stokkið á hann. Nafn sitt dregur tegundin einmitt af tíðum stökkum sínum upp úr sjónum. Óhætt er að segja að stökkullinn sé mönnum meinlaus en engu að síður ber að umgangast öll villt dýr með varúð.
Þess má geta að þekktasti stökkullinn er sjálfsagt stjarnan Flipper sem gerði garðinn frægan á 7. áratugnum í nokkrum kvikmyndum og síðar í sjónvarpsþáttum, og skemmti fólki víða um heim með kúnstum sínum. Ekki má heldur gleyma bókunum um Flipper sem komu út hér á Íslandi á árunum 1971-75, útgefnar af hinni sögufrægu Siglufjarðarprentsmiðju. Heimildir og myndir:
- Bonner, Nigel. 1989. Whales of the World. Facts on File Inc., New York.
- Sigurður Ægisson, Jón Ásgeir í Aðaldal og Jón Baldur Hlíðberg. 1997. Íslenskir hvalir fyrr og nú. Forlagið, Reykjavík.
- Cetacea
- American Cetacean Society
- Energy & Geoscience Institute at the University of Utah