Hvert er ríki, fylking, flokkur, ættbálkur, ætt, ættkvísl og tegund Homo sapiens sapiens?Maðurinn (Homo sapiens sapiens) er flokkaður á eftirfarandi hátt:
Ríki (Regnum, e. Kingdom) | Dýraríki (Animalia) |
Fylking (Phylum) | Seildýr (Chordata) |
Undirfylking (Subphylum) | Hryggdýr (Vertebrata) |
Flokkur (Classis, e. Class) | Spendýr (Mammalia) |
Ættbálkur (Ordo, e. Order) | Prímatar (Primata) |
Ætt (Familia, e. Family) | Mannætt (Hominidae) |
Ættkvísl (Genus) | Homo |
Tegund (Species) | sapiens | Deilitegund (Subspecies) | sapiens |
Skýringar við mynd: 1 Strepsirhines þýðir á latínu „blautt nef“ og er það áberandi útlitseinkenni þessara apa. Þess má geta að hundar hafa einnig þessi nefeinkenni. 2 Haplorhines þýðir „þurrt og loðið nef“ líkt og við mannfólkið höfum. Reyndar fer lítið fyrir hárum hjá mannfólkinu nema innan í nösum og efst á nefinu. 3 Vofuapar eru næturapar sem lifa í Austur-Indíum og tilheyra aðeins einni ættkvísl, Tarsus. Þeir eru náfölir og með gríðastór augu, aðlöguð að næturlíferni þeirra. 4 Cercopithecoidea greinist í tvo hópa, laufætur og alætur. Þessir apar eru fjölbreyttir í útliti og útbreiddir, til þeirra teljast meðal annarra bavíanar. Sameiginleg líffærafræðileg einkenni allra prímata eru meðal annars þessi:
- Liðugir handleggir sem gera prímötum kleift að grípa, til dæmis utan um trjágreinar.
- Þrílitasjónskyn.
- Á hauskúpunni er svokölluð augnbrú (e. post-orbital) við ofanverðar augnatóftirnar sem verndar þau meðal annars fyrir höggum.
- Þróun frábærrar sjónskynjunar á kostnað lyktarskyns sem er frekar dræmt hjá prímötum miðað við flest önnur spendýr.
- Hlutfallslega stór augu og heili. Heilabörkurinn er afar þróaður hjá prímötum og nær þessi þróun lengst í manninum.
- Trýni prímata hefur minnkað í þróuninni.
- Kvendýrin ala afkvæmi upp en afar sjaldgæft er að þau eignist tvö eða fleiri í einu.
Á þessu skyldleikatré sést að tegundir af ættkvíslinni Pan, sem eru simpansar (Pan troglodytes) og bonobo-apar (Pan paniscus), eru skyldastir okkur mannfólkinu af núlifandi tegundum. Það segir okkur að sameiginlegur forfaðir hafi verið á ferli, sennilega í Afríku, fyrir um 6-8 milljónum árum að því er vísindamenn telja nú. Frekara lesefni á Vísindavefnum: