Í merkingunni ófriður eða deilur má líka kannski segja að á Sturlungaöld hafi verið stríð á Íslandi. Sturlungaöldin er einn ofbeldisfyllsti tími Íslandssögunnar og einkenndist af liðssafnaði valdamikilla höfðingja sem herjuðu hverjir á aðra með vígaferlum og gripdeildum. Þá voru háðir nokkrir frægustu bardagar Íslandssögunnar, til dæmis Örlygsstaðabardagi, Flugumýrarbrenna, Flóabardagi sem er eina sjóorrusta Íslandssögunnar, og Haugsnesbardagi en þar féllu nær hundrað manns. Nánar má lesa um Sturlungaöld í svari við spurningunni Hvað var Sturlungaöld? Stríð hafa líka snert Íslendinga þó svo að þau séu háð úti í heimi. Seinni heimsstyrjöldin hafði til dæmis mikil áhrif á flest alla þætti í íslensku samfélagi. Þó svo að Íslendingar tækju ekki beinan þátt í átökum eða barist væri hér á landi er vitað með vissu um 159 Íslendinga sem létu lífið vegna ófriðarins með einum eða öðrum hætti. Því til viðbótar ríkir veruleg óvissa um hvort 70 manns til viðbótar sem fórust á skipsfjöl hafi dáið af völdum stríðsins svo að allt að 229 Íslendingar kunna að hafa farist af styrjaldarorsökum. Um þetta er fjallað nánar í svari við spurningunni Hve margir Íslendingar dóu í seinni heimsstyrjöldinni? Áhugasömum lesendum má einnig benda á svar við spurningunni Hversu mörgum íslenskum skipum var sökkt í seinni heimsstyrjöldinni? Loks má geta þess að orðið stríð er stundum notað um deilur á milli hópa sem í sumum tilfellum leiða af sér óeirðir eða átök en sjaldnast svo alvarleg að mannfall verður. Um eitt slíkt „stríð“ hefur verið fjallað á Vísindavefnum í svari við spurningunni Út á hvað gekk „hvíta stríðið“ í Reykjavík? en þau hafa verið mörg fleiri. Á Vísindavefnum eru fleiri svör sem fjalla um stríð á ýmsum tímum, til dæmis:
- Hverjar eru elstu ritheimildir um stríð? eftir Skúla Sæland
- Hvað var Pelópsskagastríðið? eftir Skúla Sæland
- Hvað geturðu sagt mér um þrjátíu ára stríðið? eftir Skúla Sæland
- Hvað gerðist í heimsstyrjöldinni síðari í grófum dráttum? eftir Stefán Gunnar Sveinsson
- Hvenær hófst Víetnamstríðið og hvenær lauk því? eftir Gísla Gunnarsson
- Hvernig og hvers vegna hófst stríðið milli Tsjetsjena og Rússa? eftir Guðmund Ólafsson
- Bardagar á Sturlungaöld á vef Lundarskóla.
- Þorskastríðin á Wikipedia
- Árni Böðvarsson (ritstj.). Íslensk orðabók. Reykjavík, Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1988.
- War Crimes. Sótt 29.6.2009.
Þetta svar er að hluta eftir nemanda í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2009.