Sólin Sólin Rís 11:20 • sest 15:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:59 • Sest 14:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:15 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:58 • Síðdegis: 14:37 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:20 • sest 15:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:59 • Sest 14:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:15 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:58 • Síðdegis: 14:37 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða ár var merkilegast í sögu Íslands?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Við erum stödd á vísindavef, og því er nauðsynlegt að byrja á að svara því að vísindalega verður spurningunni ekki svarað beint með ákveðnu ártali. Það er megineinkenni vísinda að svör þeirra eiga að vera efnislega hin sömu hver sem spyr og hver sem svarar. En orðið „merkilegur“ hefur ekki merkingu sem gefur tilefni til þess konar svars. Með öðrum orðum: það er ekki til neinn vísindalegur mælikvarði á hvað geri ár merkileg, og því er ekki hægt að svara spurningunni á vísindalegan hátt. Engu að síður er hægt að ræða hana vísindalega.




Við getum, hvert og eitt, haft skynsamlegar skoðanir á því hvaða ár séu merkileg. En þær skoðanir ráðast ekki síður af því hvað okkur finnst yfirleitt merkilegt og mikilvægt í mannlífinu eins og því sem var og gerðist á ákveðnum árum sögunnar. Þeim sem finnst það merkilegast við Íslendinga að þeir skuli yfirleitt vera til, þeir mundu kannski segja að upphafsár landnáms (árið sem við erum vön að kalla 874) hafi verið merkilegasta ár Íslandssögunnar. Þeir sem telja mikilvægast að þjóðin skuli vera kristinnar trúar velja kristnitökuárið (hvort sem það var 999 eða 1000). Eindregnir fylgismenn Lútherstrúar kynnu að velja árið 1550, þegar andstaðan gegn siðaskiptum var endanlega brotin niður. Ákafir sjálfstæðissinnar kynnu að velja ár úr sjálfstæðisbaráttunni: 1845, þegar endurreist Alþingi kom fyrst saman; 1874, þegar þjóðin fékk stjórnarskrá og Alþingi löggjafarvald; 1904, þegar heimastjórn komst á; fullveldisárið 1918; eða lýðveldisstofnunarárið 1944. Evrópusinnar mundu kannski velja 1993, þegar Ísland varð aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Þeir sem teldu mestu varða um efnahagslega velsæld og framfarir gætu til dæmis valið árið 1902, þegar vélvæðing sjávarútvegsins hófst með því að sett var vél í fiskibát vestur á Ísafirði. Kvenréttindasinnar gætu valið 1915, þegar konur fengu kosningarétt til Alþingis, verkalýðssinnar 1916, þegar Alþýðusamband Íslands var stofnað, efnahagslegir frjálshyggjumenn 1787 eða 1854, þegar verslunarfrelsi var innleitt.

Ef mér leyfist að taka þátt í þessum leik ætla ég að velja mér árið þegar hið forna Alþingi kom fyrst saman. Við erum vön að kalla þetta ár 930 og getum eins haldið því áfram, þótt hæpið sé að treysta því að þingið hafi fyrst komið saman einmitt það ár – eða jafnvel að það hafi gerst að svo miklu leyti í eitt skipti fyrir öll að samtímamenn hefðu verið sammála um að kenna upphaf þingsins við ákveðið ár. Ég vel þetta ár ekki af því að stofnun Alþingis hafi verið neinn heimssögulegur atburður; það var orðinn ævaforn siður á þessum tíma á íbúar landsvæða kæmu reglulega saman á þing og réðu þar ráðum sínum; á Íslandi voru menn aðeins að viðhalda venju. En stofnun Alþingis markar einstæð þáttaskil í sögu Íslendinga því að þingið var, að því er við vitum best, fyrsta stofnunin sem þeir eignuðust sameiginlega. Stofnun þess var fyrsta skrefið í þá átt að mynda skipulegt samfélag á landinu og skapa þannig þjóðina Íslendinga úr því sundurleita safni fólks sem hingað hafði flust á landnámsöld.

Þetta val mitt er auðvitað ekki vísindalegra en annarra – ég læt lesendum eftir að greina hvað það segir um verðmætamat mitt. Hins vegar er val mitt, eins og annarra, reist á nokkurri vísindalegri, sagnfræðilegri, þekkingu. Til þess að geta valið okkur ár með rökum þurfum við að vita nokkuð um það sem var og gerðist í sögu okkar. Valið á merkilegasta ári Íslandssögunnar fer þannig fram í skurðpunkti fræðilegrar þekkingar á fortíðinni og persónulegu mati okkar á því hvað sé mikilvægt og gott. Að mínu áliti er það einmitt einkenni sagnfræði að hún á sér stað í þeim skurðpunkti.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

4.8.2000

Spyrjandi

Hanna Guðrún

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvaða ár var merkilegast í sögu Íslands?“ Vísindavefurinn, 4. ágúst 2000, sótt 18. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=727.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2000, 4. ágúst). Hvaða ár var merkilegast í sögu Íslands? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=727

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvaða ár var merkilegast í sögu Íslands?“ Vísindavefurinn. 4. ágú. 2000. Vefsíða. 18. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=727>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða ár var merkilegast í sögu Íslands?
Við erum stödd á vísindavef, og því er nauðsynlegt að byrja á að svara því að vísindalega verður spurningunni ekki svarað beint með ákveðnu ártali. Það er megineinkenni vísinda að svör þeirra eiga að vera efnislega hin sömu hver sem spyr og hver sem svarar. En orðið „merkilegur“ hefur ekki merkingu sem gefur tilefni til þess konar svars. Með öðrum orðum: það er ekki til neinn vísindalegur mælikvarði á hvað geri ár merkileg, og því er ekki hægt að svara spurningunni á vísindalegan hátt. Engu að síður er hægt að ræða hana vísindalega.




Við getum, hvert og eitt, haft skynsamlegar skoðanir á því hvaða ár séu merkileg. En þær skoðanir ráðast ekki síður af því hvað okkur finnst yfirleitt merkilegt og mikilvægt í mannlífinu eins og því sem var og gerðist á ákveðnum árum sögunnar. Þeim sem finnst það merkilegast við Íslendinga að þeir skuli yfirleitt vera til, þeir mundu kannski segja að upphafsár landnáms (árið sem við erum vön að kalla 874) hafi verið merkilegasta ár Íslandssögunnar. Þeir sem telja mikilvægast að þjóðin skuli vera kristinnar trúar velja kristnitökuárið (hvort sem það var 999 eða 1000). Eindregnir fylgismenn Lútherstrúar kynnu að velja árið 1550, þegar andstaðan gegn siðaskiptum var endanlega brotin niður. Ákafir sjálfstæðissinnar kynnu að velja ár úr sjálfstæðisbaráttunni: 1845, þegar endurreist Alþingi kom fyrst saman; 1874, þegar þjóðin fékk stjórnarskrá og Alþingi löggjafarvald; 1904, þegar heimastjórn komst á; fullveldisárið 1918; eða lýðveldisstofnunarárið 1944. Evrópusinnar mundu kannski velja 1993, þegar Ísland varð aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Þeir sem teldu mestu varða um efnahagslega velsæld og framfarir gætu til dæmis valið árið 1902, þegar vélvæðing sjávarútvegsins hófst með því að sett var vél í fiskibát vestur á Ísafirði. Kvenréttindasinnar gætu valið 1915, þegar konur fengu kosningarétt til Alþingis, verkalýðssinnar 1916, þegar Alþýðusamband Íslands var stofnað, efnahagslegir frjálshyggjumenn 1787 eða 1854, þegar verslunarfrelsi var innleitt.

Ef mér leyfist að taka þátt í þessum leik ætla ég að velja mér árið þegar hið forna Alþingi kom fyrst saman. Við erum vön að kalla þetta ár 930 og getum eins haldið því áfram, þótt hæpið sé að treysta því að þingið hafi fyrst komið saman einmitt það ár – eða jafnvel að það hafi gerst að svo miklu leyti í eitt skipti fyrir öll að samtímamenn hefðu verið sammála um að kenna upphaf þingsins við ákveðið ár. Ég vel þetta ár ekki af því að stofnun Alþingis hafi verið neinn heimssögulegur atburður; það var orðinn ævaforn siður á þessum tíma á íbúar landsvæða kæmu reglulega saman á þing og réðu þar ráðum sínum; á Íslandi voru menn aðeins að viðhalda venju. En stofnun Alþingis markar einstæð þáttaskil í sögu Íslendinga því að þingið var, að því er við vitum best, fyrsta stofnunin sem þeir eignuðust sameiginlega. Stofnun þess var fyrsta skrefið í þá átt að mynda skipulegt samfélag á landinu og skapa þannig þjóðina Íslendinga úr því sundurleita safni fólks sem hingað hafði flust á landnámsöld.

Þetta val mitt er auðvitað ekki vísindalegra en annarra – ég læt lesendum eftir að greina hvað það segir um verðmætamat mitt. Hins vegar er val mitt, eins og annarra, reist á nokkurri vísindalegri, sagnfræðilegri, þekkingu. Til þess að geta valið okkur ár með rökum þurfum við að vita nokkuð um það sem var og gerðist í sögu okkar. Valið á merkilegasta ári Íslandssögunnar fer þannig fram í skurðpunkti fræðilegrar þekkingar á fortíðinni og persónulegu mati okkar á því hvað sé mikilvægt og gott. Að mínu áliti er það einmitt einkenni sagnfræði að hún á sér stað í þeim skurðpunkti.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:...